Bréf til ráðherra um ákvörðun ESA vegna brota íslenska ríkisins á EES reglum um umhverfismat

Bréf til ráðherra um ákvörðun ESA vegna brota íslenska ríkisins á EES reglum um umhverfismat, landvernd.is
Landvernd hvetur íslensk stjórnvöld til að una þeim úrskurði sem nú liggur fyrir vegna brota íslenska ríkisins á EES reglum og leggja fyrir Alþingi tillögu um að fella tafarlaust úr gildi þau lög sem stangast á við reglurnar. Jafnframt telur Landvernd ákvörðun ESA sýna skýrt gildi þess að virða ákvæði Árósamningsins um aðkomu almennings að opinberri ákvarðanatöku.

Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Bráðabirgðaákvörðun ESA vegna lagasetningar um fiskeldi og veitingu bráðabirgðaleyfa til tveggja sjókvíaeldisfyrirtækja í árslok 2018

Reykjavík, 21. apríl 2020

Í síðustu viku tilkynnti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um þá ákvörðun sína til bráðabirgða að íslenska ríkið hefði gerst brotlegt við EES-reglur um umhverfismat (greinar 2, 4, 9 og 11 í evróputilskipun 2011/92/EC sem breytt var með 2014/52/EU) við veitingu bráðabirgða rekstrar- og starfsleyfa til fiskeldisfyrirtækja. Annars vegar  er um að ræða ákvæði um veitingu rekstrar- og starfsleyfa skv. lögum nr. 71/2008 um fiskeldi sem breytt var með lögum nr. 108/2018 og hins vegar  lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Brotin felast í að útiloka almenning frá umfjöllun um bráðabirgðaleyfin og loka fyrir möguleika almennings að kæra þau. Sömuleiðis er brotið á ákvæði um að  gilt umhverfismat skuli liggja fyrir þegar veitt eru rekstrar- og starfsleyfi fyrir leyfisskyldar framkvæmdir og starfsemi. Ákvörðunin eru viðbrögð við kvörtun Landverndar og fleiri samtaka.

Kvörtun vegna sama máls hefur líka verið send til eftirlitsnefndar Árósasamningsins.  Sú kvörtun varðar jafnframt málsmeðferð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við breytingar á lögum 71/2008 um fiskeldi í október 2018. Þá var „fiktað í löggjöfinni eftir á“ þegar lög nr. 108/2018 tóku gildi í kjölfar úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála. Við lagabreytinguna var eðlilegt samráð og umræða um þær útilokuð.  Með setningu laga 108/2018 rýrði Alþingi gildi og sjálfstæði úrskurðarnefndarinnar og braut gegn annarri stoð Árósasamningsins um aðkomu almennings við opinbera ákvarðanatöku.

Að mati Landverndar er úrskurðurinn mjög skýr og studdur góðum rökum. Íslensk stjórnvöld hafa nú þegar haft tækifæri til að útskýra hvernig þau líta á málið og ekki ástæða til að ætla það sé fleiri málsbætur að finna sem breyti bráðabirgðarúrskurði ESA.

Af þessum sökum hvetur Landvernd íslensk stjórnvöld til að una þeim úrskurði sem nú liggur fyrir og leggja fyrir Alþingi tillögu um að fella tafarlaust framangreind lög úr gildi.

Landvernd óskar eftir svörum frá öllum þremur ráðherrum við eftirfarandi þremur spurningum:

  1. Ætlar íslenska ríkið að una niðurstöðu ESA eða mótmæla bráðabirgðaákvörðuninni?
  2. Ætla ráðherrarnir að grípa til aðgerða til þess að tryggja að sjálfstæði og vægi úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála verði endurreist eftir þann skaða sem Alþingi og ríkisstjórn olli við inngrip í störf hennar í október 2018?

Landvernd telur setningu laga nr. 108/2018 og ákvörðun ESA um hana sýna skýrt gildi þess að virða ákvæði Árósamningsins um aðkomu almennings að opinberri ákvarðanatöku.  Hefði Alþingi haft samráð við almenning og leyft tíma fyrir umræðu um lögin hefðu þeir annmarkar sem ESA bendir á í ákvörðun sinni skýrt komið fram áður en lögin voru sett. Samtökin vona að stjórnvöld dragi lærdóm af þeim mistökum sem gerð voru. 

Virðingarfyllst,

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar

Tryggvi Felixson, formaður Landverndar

Tengt efni

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd