Landvernd krefst róttækra breytinga á loftslagsstefnu Íslands og að loftslagsaðgerðir verði ríkjandi kosningamál allra flokka og fjölmiðla í komandi alþingiskosningum
Engar nýjar fréttir í nýrri skýrslu IPCC um loftslagsmál
Í sjöttu ritröð IPCC (milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál) er farið yfir hamfarahlýnun og þær breytingar sem þegar hafa orðið á loftslagi jarðar og líklegar breytingar í framtíðinni. Rauð viðvörun er gefin út varðandi mikilvægi samdráttar í losun. Þrátt fyrir ógnvænlegar lýsingar á breytingum sem þegar hafa orðið og mikla vissu um enn meiri hamfarir eins og tíðari hitabylgjur og aftakaúrkomu, hækkun sjávarhita, sterkari fellibylji og þurrka, er ekkert í skýrslunni sem kemur á óvart. Reyndar má lesa um tíðari og ákafari hitabylgjur, aukna úrkomuákefð og þurka sem afleiðingar af losun gróðurhúsalofttegunda þegar í fyrstu ritröð IPCC frá árinu 1990.
Skýrt er að stjórnmálafólk og þjóðarleiðtogar síðustu áratuga hafa brugðist. Á Íslandi hefur seinagangur, frestun, ábyrgðarleysi/ ábyrgðarfirring vegna smæðar landsins og sérhagsmunir verið ríkjandi yfirbragð stjórnvalda í loftslagsmálum. Að mati Landverndar er löngu tímabært að bregðast við í samræmi við þann mikla vanda sem við blasir.
Á kjörtímabilinu sem senn er að ljúka hefur Ísland lagt fram sína fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni að slík áætlun sé komin en hin Norðurlöndin hafa meira og minna verið með fjármagnaðar aðgerðaráætlanir í næstum tvo áratugi.
Ábyrgð okkar er gífurleg
Ísland hefur þannig lengi verið eftirbátur nágrannalandanna í loftslagsmálum og núverandi aðgerðaráætlun er ekki nógu markviss, ekki nógu vel fjármögnuð, nær ekki til annara stefna stjórnvalda, né er hún nægjanlega róttæk til þess að ná nauðsynlegum árangri og þeim viðsnúningi í losun Íslands sem nauðsynlegur er.
Ábyrgð okkar er sérstaklega mikil í ljósi þess að Ísland er með eina hæstu losun á hvern íbúa í heimi, eða um 14 til 20 tonn á hvern íbúa á ári. En til þess að hnattræn hlýnun verði takmörkuð við 1.5-2 gráður þarf meðallosun á hvern jarðarbúa að vera innan við 4 tonn á ári. Ábyrgð okkar er einnig mikil þar sem við erum auðug þjóð sem býr yfir dýrmætri þekkingu á loftslagslausnum og endurnýjanlegum orkuauðlindum.
Ekki hefur tekist að draga úr losun og enn skortir mikið upp á að nauðsynlegar aðgerðir komist í framkvæmd. Aðgerðir sem geta breytt stöðu mála og leitt til margvíslegra jákvæðra samfélagslegra breytinga eins og bættrar lýðheilsu. Þrátt fyrir rauða viðvörun er enn von.
Landvernd tekur undir ábendingar IPCC að ekkert nema tafarlausar og öflugar aðgerðir geta dregið úr loftslagshamförum næstu áratuga.
Aðgerðir sem grípa verður til strax á Íslandi eru meðal annars:
- Lýsa yfir neyðarástandi vegna hamfarahlýnunar og að loftslagsmál verði rauður þráður í allri stefnumótun stjórnvalda og ekki sér aðskildur málaflokkur
- Umskipti í matvælaframleiðslu og styrkjakerfi í landbúnaði til að styrkja loftslagsvænni matvælaframleiðslu og draga úr matarsóun
- Gjald á alla losunarvalda frá 2022 og það hækkað í skrefum í samræmi við ábendingar OECD
- Bættar almenningssamgöngur í öllum landshlutum og á milli landshluta, og gangandi og hjólandi vegfarendur í forgangi í fjármögnun og stefnumótun í samgöngumálum
- Skýr stefna um Jarðefnaeldsneytislaust Ísland 2035 og hætta innflutningi á bensín og díselbílum frá 2023
- Bann við urðun úrgangs og bættur farvegur fyrir nýtingu metans
- Bætt kortlagning á losun frá, og hröð útfösun F- gasa
- Skýrar lögfestar skyldur á lífeyrissjóði um loftslagsvænar fjárfestingar frá janúar 2022
- Hröð endurheimt allra framræstra votlenda sem ekki eru nýtt undir tún eða önnur mannvirki
- Virðisaukaskattur á viðgerðum felldur niður til þess að styðja við innleiðingu hringrásarhagkerfisins
Sjá má tillögur frá Landvernd að frekari aðgerðum á vefnum okkar hér og umsögn um aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum hér.