Fáfræðin dýrkeypta

Reynisfjall, Reynisfjara og Reynisdrangar.
Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur skrifar um dýrmæta náttúru og nauðsyn náttúruverndar.

Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur skrifar

Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur.

Spurning sem hefur lengi verið mér hugleikin. Hvað veldur því að svo margir og misjafnir Íslendingar líta á fósturjörðina sína eins og hverja aðra tertu sem hægt er að kaupa endalausar sneiðar af og háma í sig?

Svarið, eða hluti af því opinberaðist mér þegar ég hlustaði á Þóru Ellen Þórhallsdóttur prófessor fara yfir umhverfisáhrif af Kárahnjúkavirkjun, og Hálslóni sérstaklega, í aðdragandanum að þeirri illræmdu framkvæmd. Á sinn einstaklega greinargóða hátt lýsti hún afleiðingunum – og gagnsleysi mótvægisaðgerðanna sem virkjunaraðili boðaði.

Meðan ég hlustaði á skýrar staðreyndir um framkvæmdina hugljómaðist mér að meinið hlyti að vera fáfræði. Að enginn með réttu ráði og vel upplýstur um hvað í húfi væri gæti hugsanlega verið hlynntur þessu stórfellda og ónauðsynlega hermdarverki á landinu sínu. Þar á meðal útrýmingu gróðurlendisræmu frá jökli til sjávar, þeirrar einu þess sem eftir var á eyjunni okkar. Einnig varð skýrt að eyðileggingin er ekki í eitt skipti fyrir öll, heldur er hún líka framhaldseyðilegging um ókomin ár í mynd gróðureyðingar og áfoks. Hörmuleg viðbót við eyðimörkina sem nú þekur fósturjörðina að svo stórum hluta.

Fáfræðin já. Getur það verið nokkuð annað sem ræður ferð þegar sveitarstjóri vestra segir opinberlega um umhverfisáhrif Hvalárvirkjunar á þá leið að þarna sé ekkert nema grjót. Og þegar sveitarstjórinn suðeystra segir varðandi Hverfisfljótsvirkjun að nóg sé af hrauninu. Þar með auðvitað frítt fram að fórna heild hraunlandsins ósnortna fyrir nauðsynjalausa framkvæmd – sem telst jafnframt mjög vond virkjunarhugmynd. Það sýnir sig að jafnvel þeir sem eru sveitungar einstakrar náttúru geta verið blindir á ómetanleg verðmæti hennar. Fáfróðir um hana. Í þessu tilfelli um sjálft Skaftáreldahraunið sem á hvergi í heiminum sinn líka og hefur fengið að hvíla óáreitt hingað til – sem stærsta hraun jarðarinnar frá sögulegum tíma. Ætti það ekki að vera á heimsminjaskrá Unesco frekar en að vera útsett fyrir óafturkræf hervirki?

Ríkjandi viðhorf ráðandi fólks gagnvart íslenskri náttúru virðist enn vera veiðileyfið, ekki varslan – sama hversu mikið hefur nú þegar verið gengið á náttúru og vatnafar landsins. Hvað um ófremdarferlið varðandi virkjunarhugmyndir? Að hver sem er hafi veiðileyfi á hvaða foss sem er, hvaða náttúru sem er. Ef þessi hver sem er hyggst virkja þá á hann heimtingu á opinberu áliti. Það að ekkert sé vinsað úr, strax, er út af fyrir sig glóruleysi sem mikil vandræði hljótast af. Og sundrung manna á meðal í viðkvæmum byggðarlögum.

Út af fyrir sig væri það rannsóknarefni hversu nærri heilsu og kröftum náttúruverndandi bænda og búaliðs virkjunarfyrirtækin stór og smá hafa gengið, í gegnum tíðina. Er þá slagurinn kringum Þjórsárver og Þjórsárvirkjanir stórbrotnasta dæmið. Sú barátta sem Jón bóndi í Geldingaholti, fjölskylda hans og sveitungar hófu árið 1970 heldur áfram. Hálf öld er liðin og það er lagt á herðar afkomendanna að berjast áfram. Enn er freklega gengið á krafta þeirra heimamanna sem líta á náttúruna sem eilífðarverðmæti – ókaupanleg fyrir peninga. Enn vinnur virkjanadrifin sundrungin óþurftarverk sín í dreifðum og viðkvæum byggðum.

Dæmin um ónæmi fyrir náttúrunni og vörsluleysi um hana hlaðast upp á Íslandi, ekki síst eftir að rányrkjuferðamennskan hófst. (Rányrkja er orðið, því allt of lítið fé er lagt til uppbyggingar og skipulags á móti hávaðagróðanum af ferðamönnum.) Hvað hafa mörg ómetanleg svæði orðið fyrir óafturkræfum skaða vegna ágangs? Er virkilega ekki í bígerð að hafa fjöldatakmarkanir á svæðunum sem mest hafa skemmst, þegar ferðamennskan kemst aftur á skrið – til að bjarga því sem enn verður bjargað.

Nýjasta dæmið um fyrirhugað stórfellt náttúruníð að séríslenskum hætti er vegurinn gegnum Reynisfjall. Að hugmyndin hafi yfirleitt orðið til er í rauninni fjarstæðukennt – um leið enn einn vitnisburður um algert ónæmi fyrir dýrmætu landi sem á hvergi sinn líka. Hér er þar að auki um að tefla eitthvert stórbrotnasta og mest ljósmyndaða svæði Íslands. Skyldu þær miljónir erlendra ferðamanna sem þarna hafa komið og orðið ofandottnir yfir Reynisfjöru, Reynisdröngum, Dyrhólaey, trúa sínum eigin eyrum, þegar þeir frétta af svo yfirgengilegu áformi. Og munu þeir halda áfram að leggja leið sína á svæðið, ef það verður virkilega vettvangur þessarar eyðingar?

Hvað er svo að frétta af fiskeldi eyjarskeggja? Það er kannski hægt að halda því fram að Íslendingar eigi Ísland og megi éta það eins og þeim sýnist, enn lengra niður í svörð en orðið er – en það er ekki hægt að halda því fram að Íslendingar eigi hafið, sama hvað landhelginni líður. Að menga það, sjónmenga, og svína út með fiskeldi, það er ekki einkamál þeirra sem eyjuna byggja.

Og hvað um að setja íslenska laxinn í útrýmingarhættu ? Landsins göfugustu skepnu, sem var heimilisföst á eyjunni okkar löngu á undan írskum einsetumönnum og viðurkenndum landnámsmönnum. Hér hefði mikinn lærdóm mátt draga af eyðileggjandi mistökum Norðmanna og fleiri þjóða hvað laxeldið varðar – en það var ekki til í dæminu. Ekki til í dæminu að horfa frekar á þau verðmæti sem alvörulaxinn býr til, sem slíkur, dragandi að sér heimsins moldríkasta fólk. Hagfelldustu ferðamennina – eða hvað?

Hvað er svo fleira að frétta af fiskeldismálum? Sama sagan og með álverið á Reyðarfirði. Ágóðinn fer úr landi. Í fiskeldinu eru það Norðmenn sem stjórna og hirða gróðann. Stundum spyr maður sig hvort ráðamenn, ráðherrar sem þessu stjórna, og lögin leyfa, líti á frekar á Ísland sem þriðja heims ríki en fullvalda þjóð. Ef hin manísku stórmengandi fiskeldisáform áttu að verða til þess að bjarga fjárhag Íslands, þá hefði væntanlega þurft að hugsa dæmið aðeins öðru vísi! Hér lítur reyndar út fyrir að fleira ráði ferðinni en lykilorðið FÁFRÆÐI.

Við höfum átt úrvalsfólk sem reyndi af öllu afli að fræða, á tímum þegar enn meira var á brattann að sækja í náttúruvernd en nú er. Mér dettur í hug Guðmundur Páll Ólafsson, fremstur meðal jafningja, vinurinn kæri sem íslensk náttúra missti allt of snemma. Mér finnst að kaflar úr bókum hans ættu að vera skyldulesning í skólum og ætti að halda á lofti sem víðast. Mér finnst að meiri uppfræðslu sé þörf um íslenska náttúru, úr því að enn eru svo margir sem líta á hana eins og girnilega tertu sem hægt er skera stykki úr og éta – en ekki það sem hún er, viðkvæmt lífríki sem þarf sárlega á hlífiskildi að halda. Mestu verðmætin sem við eigum.

Því er það ómetanlegt að eiga öflug samtök, sem fræða og spyrja spurninga. Landvernd, sem ber nafn með rentu.

 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd