Eftirfarandi er textabrot úr umsögn Landverndar vegna fjárlaga. Umsögnina í heild sinni má finna neðst í greininni.
Kolefnisgjald verður að hækka til að það hafi áhrif
Hátt kolefnisgjald er nauðsynleg og réttlát leið til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Reynsla alþjóðastofnana og nágrannalanda okkar sýnt að hátt kolefnisgjald virkar vel án þess að hafa neikvæð áhrif á efnahaginn. OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gefið út að kolefnisgjaldið verði að hækka til þess að ná Parísarsamkomulaginu.
Samkvæmt viðmiðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verður að tvöfalda eða þrefalda það hér til þess að það hafi tilætluð áhrif. Áhrifaríkast er að leggja gjald á losun gróðurhúsalofttegunda allra geira. Hægt er að tryggja að tekjulágir hópar beri ekki óeðlilega háar byrðar með tekjutengdu endurgreiðslukerfi. Þá má einnig hugsa sér að kolefnisgjald á tilgreinda atvinnugrein, eins og t.d. sjávarútveg, gangi til baka um sjóð sem styrki innleiðslu loftslagsvænni tækni.
Það hefur komið skýrt fram að ekki verður hægt að ná markmiðum fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi fyrir árið 2040 nema að beitt verði gjaldtöku fyrir losun og með opinberum stuðningi til þeirra sem vilja prófa nýja tækni og orkugjafa.
Hækkun á kolefnisgjaldi ekki í samræmi við verðlagsþróun
Í frumvarpinu er lagt kolefnisgjald á eldsneyti hækki um 2,5%. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 4% á þessu ári. Sú hækkun sem lögð er til heldur því ekki einu sinni í við verðlagsþróun svo hún mun hafa afar takmörkuð áhrif á losun eins og henni er ætlað.
Stjórn Landverndar leggur til að kolefnisgjald verði hækkað í skrefum þannig að það verði um 50 kr. eigi síðar árið 2025 og allar undaþágur afnumdar.
Landvernd hvetur stjórnvöld til þess að deila hluta af gjaldinu aftur út til almennings til jöfnunar lífskjara. Einnig að gjald sem tekið er af sjávarútvegi og landbúnaði fari að hluta í sjóði sem styrki innleiðslu loftslagsvænni tækni og orkugjafa.
Afnemum stuðning við tengitvinnbíla
Stjórn Landverndar telur nauðsynlegt að hækka bifreiðagjald meira en lagt er til. Landvernd hefur óskað eftir því að innflutningur á bensín- og díselbílum verði bannaður frá árinu 2023 til þess að bannið skili árangri á skuldbindingartímabili Parísarsáttmálans. Nýir bílar eru að jafnaði um 15 ár í notkun frá því að þeir eru keyptir og því mikilvægt að hraða enn frekar innleiðingu ökutækja sem ekki valda losun gróðurhúsalofttegunda.
Ef ekki vilji til að banna innflutning bensín- og díselbílum er nauðsynlegt að breyta og beita vörugjaldi með þeim hætti að það dragi verulega úr innflutningi á stórum þungum og eyðslufrekum bílum. Þetta hefur gefið góða raun í Noregi og skýrir, ásamt niðurfellingu á vörugjöldum á rafbíla, hraða orkuskipta á sviði fólksbíla þar.
Með vaxandi framboði af rafbílum með er tímabært að afnema sérstakan stuðning við innflutning á tengitvinn-bílum en viðhalda stuðningi við hreina rafbíla þar til verð á þeim verður sambærilegt við bensín- og díselbíla.
Styrking úrvinnslugjalds nauðsynleg
Landvernd styður frekari styrkingu á úrvinnslugjaldi og telur hana nauðsynlega til að efla hringrásarhagkerfi. Mikilvægt er að leggja úrvinnslugjald á glerumbúðir svo forsendur verði fyrir endurvinnslu á gleri hér á landi. Þá er mikilvægt að haga gjaldtöku og fyrirkomulagi útborgunar með þeim hætti að kolefnisspor við endurvinnslu verði sem minnst. Við minnum á umræður um möguleika á að auka endurvinnslu á heyrúlluplasti hér á landi með úrvinnslugjaldi og með skynsamlegu fyrirkomulagi á greiðslum fyrir flutninga.
Engin áform um urðunargjald
Stjórn Landverndar harmar að á síðasta þingi var horfið frá áformum um urðunargjald. Urðunargjald átti að draga umtalsvert úr losun af gróðurhúsalofttegundum. Nú er tækifæri til að bæta úr þessu og innleiða ákvæði um urðunargjald. Þetta myndi styrkja á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem á núverandi stigi er í engum takt við sett markmið. Aðgerðum sem þar er að finna verður að framfylgja ef árangur á að nást.
Skynsamlegt er að hafa urðunagjald lágt í upphafi svo tími gefist til að aðlagast, en að hækka það hratt. Vel má hugsa sér að tekjum af þessum gjaldi yrði veitt til að fjármagna nauðsynlegar aðgerðir sem geri urðun algjörlega ónauðsynlega þegar fram líða stundir. Góð reynsla er af urðurnargjaldi í grannlöndum Íslands. Stjórn Landverndar hvetur til að sett verði ákvæði um urðurnargjald í lögum um umhverfis- og auðlindaskatt nr. 129 /2009.
Áherslan ekki á aðgerðir í umhverfismálum
Stjórn Landverndar harmar að ekki sé lögð áhersla á að styrkja aðgerðir í umhverfismálum, loftslagsvernd, endurheimt landgæða, umsýslu og uppbyggingu á náttúruverndarstöðum og vinsælum ferðamannastöðum. Áhersla þessa málaflokks hefur verið áberandi í fjárlögum undanfarin ár ljóst er að ekki eru áform um að viðhalda þeirri þróun.
Í ljósi þeirra áskorana sem við blasa við bæði í náttúrvernd og loftslagsvernd er varhugavert að boða stöðnun í þessum málaflokki. Þá eiga fjárframlög til loftslagsmála að lækka á kjörtímabilinu sem er í algjöru ósamræmi við markmið ríkisstjórnarinnar um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030. Ljóst er að þær aðgerðir sem grípa þarf til, svo samdrátturinn náist eru mjög stórar og þurfa að gerast strax.
Stjórn Landverndar fagnar verulegri aukningu í framlögum til landgræðslu og skógræktar, m.a. til endurheimt votlendis fram til ársin 2024. Í dag er áætlað að árlega losni um 9 milljón tonn gróðurhúsaloftegunda frá landi. Drjúgur hluti þess kemur frá svæðum sem hafa verið ræst fram. Aðeins lítill hluti af framræstu landi er ræktaður til matvælaframleiðslu. Alþingi hefur sett í lög að Íslandi skuli verða kolefnishlutlaust árið 2040. Ljóst er að skilvirkasta leiðin að því markmiði er að endurheimta votlendi. Fjárveitingar næstu ár verða að taka mið af þessu markmiði ef taka á samþykkt Alþingis um kolefnishlutleysi alvarlega.
Ríkisstjórnin boðar stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs. Þeim áformum verður að fylgja eftir með trúverðugri fjárhagsáætlun. Í yfirlit yfir fjárhag frá 2020 til 2024 minnka framlög til Vatnajökulsþjóðgarðs um 250 milljónar (ca. 20 %). Það munar um minna!
Stjórn Landverndar fagnar áformum um að auka fjármögnun til meðhöndlunar á úrgangi. Stjórnin minnir á vandamál sem virðast tengd starfsemi Úrvinnslusjóðs, en ráðstöfunarfé sjóðsins er áætlað 2,360 m.kr. árið 2022 og vex í 2.730 m.kr, árið 2024. Sjóðurinn leikur lykilhlutverk í því að styrkja hringrásarhagkerfið og því mikilvægt að endurskap traust á starfsemi hans. Stjórn Landverndar telur að það sé afar óheppilegt að atvinnulífið myndi meirihluta stjórnar sjóðsins og hvetur til þess að það verði endurskoðað. Æskilegt væri að hafa raddir neytenda og náttúruverndarsamtaka almennings við borðið til viðbótar við hagsmunaaðila frá atvinnulífinu.
Stjórn Landverndar telur það ósamræmanlegt áherslum á loftslagsmál í stjórnarsáttmálanum að áformað sé að draga umtalsvert úr framlögum til loftslagsjóðs og loftslagsráðs. Þetta gengur þvert á áhersluna sem fram kemur í stjórnarsáttmálanum um að efla hlutverk loftslagsráðs.
Mikilvægt að auka framlög til almenningssamgangna
Samgöngumál eru loftslagsmál og ein virkasta aðgerðin til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgagna, bæta loftgæði og draga úr umferðartöfum, eru bættar almenningssamgöngur. Í ljósi áherslu ríkisstjórnarinnar á loftslagsmál skítur skökku við að styrkir til almenningssamgagna eru óbreyttir frá 2020 til 2024 (borgarlína ekki með talin).
Stjórn Landverndar telur skynsamlegt að efla til muna almenningssamgöngur á milli höfuðborgarsvæðisins og bæjarkjarna á Vesturlandi, Reykjanesskaga og Suðurlandi. Margir íbúar á þessum svæðum vinna í höfuðborginni og það myndi draga verulega úr umferðarþunga og losun ef fleiri sem í daga aka daglega á einkabíl velja almenningssamgöngur til að koma sér í og úr vinnu. Til þess að ná því markmiði verður að gera almenningssamgöngur skilvirkari, þægilegri og auka tíðni ferða.
Þetta er uppbygging sem tekur tíma en skilar miklum ávinningi; dregur úr þörf fyrir að auka afkastagetu vega, sparar notendum útgjöld, dregur úr umferðarslysum auk þess að draga úr losun koldíoxíð. Stjórn Landverndar hvetur því til að framlög til almenningssamgagna verði aukin til muna á næsta ári og árum.
Umhverfisráðuneytið skortir mannafla
Það skýtur skökku við að ekki sé gert ráð fyrir aukinni fjárveitingu til Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Nú þegar er ráðuneytið undirmannað og hefur það bitnað á málefnum náttúruverndar. Sem dæmi um þetta má nefna að ráðuneytinu hefur enn ekki tekist að framfylgja eigin aðgerðaáætlun um Árósarsamninginn og svörin sem Landvernd hefur fengið vegna málsins er skortur á mannafla. Þá hefur ráðuneytið ekki svarað fyrirspurnum Bernarsamningsins í tíma sem eftirlitsnefnd hans átelur ráðuneytið fyrir á síðasta fundi hans.
Ráðuneytið hefur vegna þessa ekki fylgt eftir aðgerðum sem varða aðgang umhverfisverndarsamtaka að réttlátri málsmeðferð. Túlkun íslenskra yfirvalda útilokar umhverfisverndarsamtök frá því að fara með mál sem varða brot á lögum um umhverfið fyrir dómstóla. Eins og staðan er núna er enginn aðili sem getur gætt þess að farið sé eftir umhverfislöggjöf Íslands með hagsmuni náttúrunnar í huga. Við óskum eftir því að farið verði yfir stöðuna í umhverfisráðuneytinu og það eflt eins og á við miðað við stóraukna áherslu samfélags og ríkisstjórnar á umhverfismál.