Landvernd hefur sent frá sér umsögn um matsáætlun vegna efnistöku ú Litla Sandfelli í Þrengslum. Sjá má umsögnina í heild sinni með því að smella á hnappinn neðst í greininni.
Varhugavert að flytja Litla Sandfell úr landi
Stjórn Landverndar telur afar misráðið að fara í ofangreinda framkvæmd til útflutnings á efni.
Í matsáætlunina vantar að gera grein fyrir mati á losun gróðurhúsalofttegunda vegna framkvæmdarinnar, umferðaröryggi og vegi og á ferðaþjónustu og útivist. Jafnframt þarf að meta áhrif sandfoks á íbúa Þorlákshafnar.
Þá vill Landvernd benda á að innan sveitafélagsins Ölfus eru gríðarstórar efnisnámur sem fyrirhugað er að taka mikið magn af efni úr á næstu árum, eins og í Ingólfsfjalli.
Sveitafélagið Ölfus hefur ekki sinnt eftirlitsskyldu sinni með efnistökusvæðum og efnistaka úr Þórustaðanámu hefur farið langt fram úr því sem leyfi var fyrir án þess að sveitafélagið hafi brugðist við með öðru en að taka svör leyfishafa trúanleg.
Grænþvottur
Mjög varasamar réttlætingar á framkvæmdinni eru í matsáætluninni. Fullyrt er að framkvæmdin muni draga úr kolefnisspori heimsins. Framkvæmdaaðili er hvattur til þess að koma hreint fram og kynna raunveruleg áhrif á kolefnislosun sem felst í gífurlegri umferð díseldrifinna bíla, auk siglinga til og frá Íslandi með efni. Stjórn Landverndar telur að fullyrðingar um hnattræn áhrif á loftslag séu verulega ýktar og þarfnist rökstuðnings með gögnum.
Efnisflutningar
Um gríðarlegt magn af efni er að ræða og því mikilvægt að meta áhrif á umferðaröryggi vegna framkvæmdarinnar, umferðar vegna hennar og slit á vegum. Hið síðastnefnda eykst í veldisvexti með þyngd ökutækis og því er um veruleg áhrif á vegakerfið að ræða.
Gert er ráð fyrir flutningum 500 þúsund rúmmetra af efni á ári, sem flytja á til Þorlákshafnar og mun án efa valda gríðarlegu álagi á vegakerfið. Stór vörubíll tekur um 10 rúmmetra hlass og því munu 50 þúsund ferðir farnar árlega um hættulegan kafla á Þrengslavegi en brött brekka liggur frá Raufarhólshelli og niður að Þorlákshafnarvegi.
50 þúsund ferðir á ári eru 159 ferðir á dag miðað við 6 daga vikunnar, 13 vörubílar á klst. miðað við 12 stunda vinnudag.
Áhrif á ferðaþjónustu
Um er að ræða mjög vinsælt ferðamannasvæði vegna náttúrufegurðar, nálægðar við Reykjavík og vinsælar náttúruperlur. Raufarhólshellir er innan við 5 km frá efnistökusvæðinu þar sem umferð vörubíla, amk. 13 á klst verður stöðug framhjá hellinum.
Efnistakan, umferð þungaflutninga og breytt ásýnd munu hafa verulega neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu í kring sem og á útivist en vinsælar gönguleiðir eru á nærliggjandi fjöll eins og Geitafell og Meitlana. Þetta verður að koma fram í matsáætlun og setja þarf fram áætlun um hvernig meta skal áhrif á ferðaþjónustu og útivist. Þá mun möguleg rykmengun einnig hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustu sem og á íbúabyggðina í Þorlákshöfn.
Áhrif á Þorlákshöfn
Mikilvægt er að meta áhrif framkvæmdarinnar á samfélagið í Þorlákshöfn. Mikil umferð þungaflutninga um bæinn og mögulegt sandfok í slæmum veðrum getur haft verulega neikvæð áhrif á lífsgæði íbúanna.
Þá verður líka að taka með í reikninginn samlegðaráhrif af þungaflutningum vegna sandnáms á Mýrdalssandi en fyrirætlanir eru um að keyra sand til Þorlákshafnar í álíka stórum stíl og hér er gert ráð fyrir.
Eru Náttúruverndarlögin virt?
Hraun frá nútíma njóta verndar skv. 61. gr. náttúruverndarlaga. Það skortir umfjöllun um þetta mál í matsáætlun, til dæmis í umfjöllun um staðhætti og í umfjöllun um jarðrask.
Enginn samfélagslegur ávinningur af framkvæmdinni
Stjórn Landverndar telur í ljósi þess að eingöngu er um fjárhagslegan ávinning framkvæmdaðila að ræða en engan samfélagslegan ávinning af framkvæmdinni nema síður sé, að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar verði að vera mjög ítarlegt til að auðvelda leyfisveitenda að taka upplýsta ákvörðun um hvort veita eigi leyfi fyrir henni eða ekki. Því verður Skipulagsstofnun að gera mun ríkari kröfur á matsáætlun heldur en settar eru fram í þessum drögum.