Fréttir af Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna – COP27 – þriðjudagurinn 15. nóvember

Auður Önnu Magnúsdóttir skrifar frá Loftslagsráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna
Auður framkvæmdastjóri Landverndar sækir COP27 ráðstefnuna í Sharm-El-Sheik í Egyptalandi. Hún deilir með okkur því sem henni finnst markvert 15. nóvember - daginn sem mannkynið náði 8 milljörðum.

Markmið Íslands í samfloti við Noreg og Evrópusambandið – hvað skyldi það þýða?

Svandís Svavarsdóttir, Matvælaráðherra flutti ræðu á COP27 í dag, nánar er fjallað um hana hér. Hún fór yfir markmið Íslands en skýrði þó ekki hvað samdráttur um 55% m.v. 2005 í samfloti við Noreg og Evrópusambandið þýðir. Evrópusambandið tilkynnti í dag að það ætlaði að draga úr losun um 57% mv. 2005 sem er hækkun frá síðustu tilkynningu um 55% losun m.v. 2005.

Árangur langt undir væntingum – byltingar er þörf

Greinilegur titringur er í fundagestum því fleiri og fleiri gera sér grein fyrir því að markmiðið um að halda hlýnun undir 1,5°C árið 2100 næst ekki miðað við núverandi verkvilja. Reyndar eru líkur á að hitastigið verði orðið 1,5°C hærra en fyrir iðnbyltingu þegar árið 2030. Þá þurfa þjóðir heims að hafa dregið úr losun um 43% m.v. árið 2010 – en losun á heimsvísu er enn að aukast. Hringborð ráðherra á ráðstefnunni ræddi skýrslu frá Loftslagssamningi Sþ um hvert stefnir. Útlitið er vægast sagt ekki gott og meiriháttar átak eða byltingar þarf til þess að losun fari að dragast saman.

Ósjálfbær matvælaframleiðsla er skaðvaldur

Á viðburði þar sem Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin IUCN settu formlega af stað ráð um loftslagsbreytingar kom fram að markmiðið um 1,5°C mun aldrei nást ef náttúran er í slæmu ástandi. Nauðsynlegt er að markmið og samningar um viðhald líffræðilegrar fjölbreytni og aðgerðir í loftslagsmálum haldist í hendur. Tvö dæmi voru nefnd um tengsl matvælaframleiðslu og minnkandi líffræðilega fjölbreytni: Annars vegar að í Amazon-skóginum má rekja 80% taps líffræðilegrar fjölbreytni til framleiðslu á rauðu kjöti sem einnig losar mikið af gróðurhúsalofftegundum per gramm. Hins vegar valda botnvörpuveiðar mikilli losun, eyðileggja sjávarbotninn og draga þannig úr líffræðilegri fjölbreytni sjávar. Í báðum tilvikum er nauðsyn að koma böndum á ósjálfbæra matvælaframleiðslu sem skaðar bæði líffræðilega fjölbreytni og andrúmsloftið.

Ekki hægt að treysta markaðsöflunum fyrir framtíðinni

Einnig er nauðsynlegt að atvinnulíf og stjórnvöld í öllum löndum vandi betur, framkvæmi og samþætti aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og fyrir náttúruvernd. Markaðurinn hefur brugðist að mati sérfræðingana í því að byggja lífvænlegan heim. 

Enn er mikið rætt um fjármögnun allra verkefna sem fara þarf í og bankar og fjármálastofnanir eru áberandi á ráðstefnunni.

Mótmæli á COP27

Dagur almennings, félagasamtaka og virkrar þátttöku var í dag. Lífleg mótmæli voru inni á svæðinu þar sem almennir borgarar í S-Ameríku kröfðust þess að ákvarðanir um landnotkun væru ekki teknar þvert á vilja þeirra.

Rafeldsneyti er stutt komið

Þá eru einnig mörg erindi og skálar sem fjalla um vetnisvæðingu en tæknilega er enn ekkert í hendi með það að nýta vetni eða í raun annað rafeldsneyti.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd