Friðlýsing náttúruminja næstu fimm árin

Eldvörp á Reykjanesi eru í mikilli hættu, mynd: Ellert Grétarsson, landvernd.is
Það er ekki að nóg að setja svæði á framkvæmdaáætlun fyrir friðlýsingar til næstu fimm ára. Henni þarf að fylgja eftir þangað til viðkomandi svæði eða fyrirbæri hefur verið friðlýst.
Borplan við Eldvörp. Mynd: Ellert Grétarsson. Fórnum ekki ómetanlegum náttúruminjum fyrir skammtímastóriðjugróða, landvernd.is
Borplan við Eldvörp. Mynd: Ellert Grétarsson.

Í byrjun sumars 2017 hóf Náttúrufræðistofnun Íslands undirbúning að gerð fyrstu framkvæmdaáætlunar náttúruminjaskrár samkvæmt núgildandi lögum um náttúruvernd nr. 60/2013. Náttúruminjaskrá skiptist í þrjá hluta skv. lögunum; A-hluta, sem er skrá yfir friðlýst svæði samkvæmt náttúruverndarlögum (nvl.) og sérlögum, friðaðar vistgerðir, vistkerfi og tegundir; B-hluta, sem er framkvæmdaáætlun um friðlýsingar til fimm ára og kemur í stað náttúruverndaráætlana, og C-hluta, sem eru aðrar náttúruminjar sem ástæða þykir til að friðlýsa. Náttúrufræðistofnun Íslands sér um undirbúning náttúruminjaskrárinnar og gerir tillögur um náttúruminjar fyrir B-hluta hennar.

Tillögur Landverndar um val svæða

Stjórn Landverndar leggur áherslu á að taka þátt í undirbúningi er varðar náttúruminjasvæði og vernd þeirra, allt frá fyrstu stigum skipulags- og áætlanagerða. Fulltrúar Landverndar fóru því á fund hjá Náttúrufræðistofnun til að ræða hvernig þessari þátttöku yrði best háttað. Í framhaldi þess fundar sendi stjórn Landverndar bréf til Náttúrufræðistofnunar með þeim óskum að við gerð framkvæmdaáætlunar náttúruminjaskrár yrði horft sérstaklega til þeirra náttúruminja sem mikil hætta er á að verði raskað á komandi árum. Bréfinu fylgdu tillögur um 50 svæði sem Landvernd telur vera í yfirvofandi hættu. Auk þess er lagt til að miðhálendi Íslands verði friðlýst sem ein samfelld heild, sbr. skilgreiningu í landsskipulagsstefnu 2015-2026 um afmörkun svæðisins. Þá telur Landvernd að óbyggð víðerni (5. gr. nvl.), steindir og steingervingar (60. gr. nvl.) og þau vistkerfi og jarðminjar sem njóta sérstakrar verndar (61. gr. nvl.), eigi að vera í fyrstu framkvæmdaáætlun nýrra náttúruverndarlaga.

Um var að ræða frumvinnu og listi Landverndar því ekki tæmandi. Við gerð hans var fyrst og fremst litið til aðgengilegra upplýsinga um ástand eða áætlanir sem fyrirsjáanlegt er að leiði til hættu á raski á allra næstu árum. Við val svæða á listann lagði stjórn Landverndar m.a. til grundvallar núgildandi náttúruminjaskrá, verðmætamat og sérstakar skýringar faghóps I um náttúru- og menningarverðmæti fyrir 2. og 3. áfanga rammaáætlunar frá 2011 og 2016, tillögur Umhverfisstofnunar til friðlýsingar í Skútustaðahreppi frá 2004 og lista yfir víðerni og lindasvæði.

Friðlýsingum fyrri áætlana ólokið

En það er ekki nóg að setja svæði á framkvæmdaáætlun fyrir friðlýsingar til næstu fimm ára. Henni þarf að fylgja eftir þangað til viðkomandi svæði eða fyrirbæri hefur verið friðlýst. Í þeim efnum hræða fyrri spor. Þrátt fyrir samþykktar ályktanir á Alþingi hafa aðeins örfá náttúruminjasvæði af fyrri náttúruverndaráætlunum verið friðlýst. Árið 2004 var samþykkt þingsályktun um náttúruverndaráætlun 2004-2008. Samkvæmt henni skyldi unnið næstu fimm árin að friðlýsingu 14 svæða á landinu. Aðeins fjögur svæði hafa verið friðlýst: Vatnajökulsþjóðgarður, Guðlaugstungur, Vatnshornsskógur í Skorradal og Skerjafjörður að hluta.

Árið 2010 var aftur samþykkt þingsályktun um náttúruverndaráætlun 2009-2013. Samkvæmt henni átti næstu fimm árin að vinna að friðlýsingu 13 svæða á landinu. Aðeins fjögur svæði af þeirri áætlun hafa verið friðlýst: Langisjór og skóglendi við Hoffell sem hluti Vatnajökulsþjóðgarðs, verndarsvæði tjarnarklukku að Innri-Hálsum í Berufirði og stækkun friðlands í Þjórsárverum á síðasta ári.

Alls hafa einungis átta af 27 svæðum (30%) á náttúruverndaráætlunum 2004–2013 verið friðlýst. Stjórn Landverndar telur þetta afar ámælisverð vinnubrögð og leggur áherslu á að friðlýsingum á grundvelli fyrri náttúruverndaráætlana verði lokið sem allra fyrst.

Jarðminjavernd er mikilvæg

Landvernd hefur vakið athygli á því að í fyrri náttúruverndaráætlunum eru fá jarðminjasvæði miðað við fjölda svæða sem fyrirhugað er að vernda vegna lífríkissjónarmiða. Frá 2004 hafa aðeins þrjú jarðminjasvæði ratað á náttúruverndaráætlun. Það eru svæðin Geysir, Reykjanes–Eldvörp–Hafnaberg og Langisjór. Af þessum þremur svæðum hefur aðeins eitt, Langisjór, verið friðlýst innan Vatnajökuls- þjóðgarðs. Mikil þörf er á að friðlýsa Geysissvæðið, með einn þekktasta goshver heims, en svæðið hefur mikið látið á sjá á síðustu árum.

Hins vegar eru hverfandi líkur á því að svæðið Reykjanes–Eldvörp– Hafnaberg verði friðlýst þar sem hluti þess, Eldvörp, fóru í nýtingarflokk rammaáætlunar árið 2013. Eldvörpum hefur nú verið raskað með óafturkræfum hætti og landslagsheild þeirra rofin af mannvirkjum í tengslum við rannsóknarboranir vegna hugsanlegrar háhitavirkjunar. Það er sérkennilegur tvískinnungur að unnt sé að flokka svæði af náttúruverndaráætlun í nýtingarflokk rammaáætlunar.

Jarðfræði Íslands hefur mikla sérstöðu á heimsvísu og leggur grunn að einstöku náttúrufari og landslagi landsins. Í ljósi þess, og eins þess að allt rask á jarðminjum er venjulega óafturkræft, telur Landvernd að leggja beri sérstaka áherslu á jarðminjavernd í fyrstu framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár samkvæmt nýjum náttúruverndarlögum.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd