Allnokkrar veghugmyndir hafa verið til umræðu í Bláskógabyggð, allt frá núllkosti, sem er núverandi Gjábakkavegur, óbreyttur, og einnig hafa verið uppi ýmsar hugmyndir um vegalagnir sunnan Lyngdalsheiðar og sunnan Þingvallavatns. Í greinargerð Landverndar er farið yfir þær leiðir og lausnir sem lagðar hafa verið til. Leiðirnar eru sýndar myndrænt og rýnt er í gagnsemi þeirra, kosti og galla. Þá eru grundvallarforsendur krufðar til mergjar og reynt að koma auga á þörfina fyrir framkvæmdir, sem virðist á köflum vera vandfundin.
Þegar grannt er skoðað virðist þörf fyrir fyrirhugaðan Gjábakkaveg vera nauðalítil. Vegurinn er hins vegar líklegur til að valda verulegri mengunarhættu í Þingvallavatni og á mögulegu vatnstökusvæði höfuðborgarsvæðisins austan þess. Þá myndi Gjábakkavegur raska landslagi í Þingvallasveit og ógna stöðu þjóðgarðsins á heimsminjaskrá UNESCO.
Veghugmyndirnar sem settar hafa verið fram í umræðunni um Gjábakkaveg á liðnum árum þjóna, misvel og hver með sínum hætti, þeim sjónarmiðum um gagnsemi sem fjallað er um í greinargerð þessari. Ljóst er að úrbætur á núverandi vegi eru í öllum tilfellum nauðsynlegar fyrir ferðamannaumferð um Þingvelli, Þingvallasveit og Laugarvatn. Hver þörfin er fyrir frekari vegauppbyggingu, og hvaða forgang hún skyldi hafa, er mál sem þarf að skoða upp á nýtt þar sem tilgreindar frumforsendur fyrirhugaðs vegar standast engan veginn. Horfa verður til þeirrar grundvallarforsendu að vegurinn þjóni vel þeirri gagnsemi, sem mikilvæg kann að vera, án þess að ógna þeim mikilvægu hagsmunum, bæði umhverfis- og menningarlegum, sem í húfi eru.
Þrjú sjónarmið eru um gagnsemi, þó ósýnt sé um þörfina:
– Bæta ferðamannaveg milli Þingvalla og Laugarvatns.
– Stytta leið milli Þingvallasveitar og Laugarvatns.
– Gera sæmilega hraðfæra leið frá höfuðborgarsvæðinu í frístundahúsabyggðir Laugardals og Biskupstungna, fyrir ferðamenn á Kjalveg og heimamenn.
Umhverfis- og menningarhagsmunir sem gæta þarf að:
– Verndun lífríkis Þingvallavatns gegn mengun.
– Verndun mögulegs vatnstökusvæðis austan vatns.
– Verndun landslags og náttúrufars í Þingvallasveit gegn raski og spjöllum.
– Staða Þingvallaþjóðgarðs á heimsminjaskrá UNESCO.
Um tillögu Vegagerðarinnar
Sé leið Vegagerðarinnar rýnd m.t.t. þeirra sjónarmiða og hagsmuna sem sett eru fram hér að ofan kemur í ljós að afar lítil þörfi er á veginum. Sú litla gagnsemi sem af veginum hlýst réttlætir á engan hátt svona dýra framkvæmd, hvernig sem á málið er litið. Gagnsemi vegarins má ná fram með öðrum hætti sem ekki veldur þeim spjöllum á umhverfinu sem myndu hljótast af veginum. Sjá nánari rýni og rökstuðning í skýrslunni hér að neðan.
Greinargerð Landverndar í fullri lengd má nálgast hér á pdf formi.