Gakktu um Drangajökulsvíðerni í sumar! Náttúran á Ströndum Árneshreppi er einstök. Náttúrudýrðin slík og fossaraðir kyngimagnaðar.
ÓFEIG náttúruvernd hefur gefið út göngukort um Hvalársvæðið, sem hefur lengi verið í fréttum vegna áforma um Hvalárvirkjun. Hvalársvæðið er óviðjafnanlegt en lítt þekkt gönguland sem hefur ekki verið kortlagt áður fyrir göngufólk. Útlit göngukortsins er með svipuðu sniði og hin þekktu eitthundrað ára gömlu dönsku herforingjaráðskort af Íslandi.
Á nýja kortinu er meðal annars að finna fossa, flúðir og nýuppgötvaða steingervinga svæðisins við Hvalá. Vonar ÓFEIG að kortlagingin geti hjálpað öllum þeim sem hyggja á lengri og skemmri gönguferðir um Hvalársvæðið í sumar og til framtíðar. Fyrir liggur að ekkert verður af skerðingu óbyggðanna næstu misserin svo enginn ætti að þurfa að fara varhluta af dýrðinni.
Kortagerð annaðist Snæbjörn Guðmundssonar og ritstjórn var í höndum hans og Sifjar Konráðsdóttur formanns ÓFEIGAR. Texta rituðu Snæbjörn Guðmundsson, Viðar Hreinsson, Sif Konráðsdóttir og Páll Ásgeir Ásgeirsson. Hönnun og uppsetning: Einar Geir Ingvarsson E&Co. Prentun: Litróf. Viljandi minningarsjóður styrkti útgáfuna.
Kortin fást afhent án endurgjalds hjá Ferðafélagi Íslands, Mörkinni 6, Reykjavík og á öllum helstu viðkomustöðum í Árneshreppi.
Rafrænt eintak af kortinu má nálgast hér.