Yfirlit yfir græna pólitík Landverndar starfsárið 2018-2019
Okkar umhverfi – okkar ákvarðanir
Landvernd stendur vörð um lýðræðislega stjórnarhætti þegar kemur að umhverfismálum. Í lögum samtakanna segir að markmið þeirra sé „sjálfbær umgengni þjóðarinnar heima við og á hnattræna vísu“ Markmið Árósasáttmálans er einnig hið sama: að tryggja sjálfbæra þróun til framtíðar en það verður ekki gert nema með lýðræðislegum ákvörðunum þar sem valdi er dreift og réttur almennings til að taka ákvarðanir um umhverfi sitt og náttúru er tryggður.
Kvartanir til alþjóðlegra eftirlitsaðila
Árið 2016 stóð til að breyta lögum í bakkalínumálinu svokallaða. Þá lá fyrir „frumvarp til laga um heimild til handa Landsneti hf. til að reisa og reka 220 kW raflínur frá Kröflustöð að Þeistareykjavirkjun og að iðnaðarsvæðinu á Bakka í Norðurþingi“. Með samþykkt þess yrði úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála (ÚUA) sem þá var væntanlegur um málið og talið var að myndi falla Landsneti í óhag, samtímis ógildur. Sem betur fer var fallið frá þeirri lagasetningu en við þetta tilfelli sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, núverandi formaður Atvinnuveganefndar, í 2. nefndaráliti að
„Í þessu máli eru mýmörg og alvarleg lögfræðileg álitamál auk þess sem í málatilbúnaðinum öllum er náttúruverndarsjónarmiðum vikið til hliðar í þágu einnar framkvæmdar sem er óásættanlegt. Í frumvarpinu er lagt til að kæruheimild umhverfisverndarsamtaka sem virkjast við lok langs ferils verði í raun felld úr gildi með sértækum lögum. Framkvæmdaleyfið eitt getur virkjað umrædda heimild, að gildandi lögum, og hlýtur því að vera umhugsunarefni hvort löggjafinn sé með þessu máli að skapa fordæmi fyrir því að kæruheimildin verði höfð að engu í fleiri málum og þar með þau réttindi umhverfisverndarsamtaka sem Árósasamningurinn mælir fyrir um.“
Þessi góðu og þörfu orð eiga vel við þær aðgerðir sem Alþingi réðst í í október síðastliðnum þar sem lögum var breytt í kjölfar úrskurðar ÚUA án umræðu við eða nokkrar aðkomu náttúruverndarsamtaka. Þá var lögum breytt í þágu einnar (tveggja) mengandi framkvæmda sem gerðu úrskurð ÚUA að engu. Með þessu hefur gildi ÚUA verið rýrt og komið fordæmi fyrir því að löggjafinn sjálfur muni brjóta gegn Árósasáttmálanum sé þrýstingur hagsmunaaðila nægilega mikill.
Í þessu máli var einnig ljóst hversu veik íslensk stjórnsýsla er þegar kemur að málefnum náttúru- og umhverfisverndar. Hvorki Skipulagsstofnun né Umhverfisstofnun höfðu gert athugasemdir við umhverfismat sem var gallað. Þá var einnig ljóst að fyrirtækin sem um ræðir svífast einskins þegar kemur að því að tryggja hagnað eigenda sinna. Þau er tilbúin til að krefja Alþingi Íslendinga um brot á alþjóðasáttmálum og virða lýðræðisleg vinnubrögð og eðlilegt samráð að vettugi.
Á starfsárinu 2018-19 fór mikið púður í að bregðast við þessari lagasetningu. Kvartað hefur verið til eftilitsstofnunar ESA og eftirlitsnefndar Árósasamningsins (sjá nánar á bls. 12). Landvernd heldur áfram að krefja Alþingismenn um bætt vinnubrögð og ráðherra um aðgerðir til að endurvekja traust á ÚUA og tryggja sjálfsstæði hennar á meðan úrskurða frá eftirlitsstofnun EFTA og eftirlitsnefndar Árósasamingsins er beðið.
Græn pólitík: Þátttaka í ákvörðunum um umhverfismál og réttlát málsmeðferð
Árósasamningurinn hefur verið í gildi síðan 2011. Hann veitir umhverfisverndarsamtökum rétt til aðgangs að upplýsingum og þátttöku í stefnumótun og ákvarðanatöku. Þá tryggir samningurinn rétt slíkra samtaka til að véfengja leyfi fyrir framkvæmdum sem hafa mikil áhrif á umhverfið. EES samningurinn veitir sama rétt og eru íslensk yfirvöld því bundin af tveimur fjölþjóðlegum samningum að þessu leyti. Kæruréttur gildir ekki aðeins um leyfi, heldur einnig um athafnir og athafnaleysi stjórnvalda og loks á, samkvæmt Árósasamningnum, að vera unnt að kæra bæði athafnir og athafnaleysi einkaaðila sem brjóta gegn lögum sem varða umhverfið.
Umsagnir
Eins og mörg undanfarin ár sendi Landvernd frá sér fjölmargar umsagnir á starfsárinu um margvísleg lagafrumvörp, þingsályktunartillögur, skipulagstillögur, mat á umhverfisáhrifum o.fl. Málaflokkarnir eru margir s.s. náttúruverndarsvæði og stjórnun þeirra, loftslagsmál og skipulagsmál og flutningur rafmagns. Nýr þjóðgarður á miðhálendi Íslands er nú í undirbúningi og væri það mikið framfaraskref. Landvernd sendi frá sér umsagnir um væntanlega Þjóðgarðastofnun sem væri annað stórt framfaraskref fyrir íslenska náttúruvernd en gerði athugasemdir við fyrirhugaða uppsetningu og verksvið hennar. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur gefið út aðgerðaráætlun vegna Árósasamningsins þar sem Landvernd gerði ýmsar tillögur að breytinum, við sumum var orðið öðrum ekki.
Náttúruvernd: Orkuvinnsla
- Tillaga að breyttu deiliskipulagi vegna rannsókna fyrir 55 MW Hvalárvirkjunar í Árneshreppi
- 1. áfangi orkustefnu fyrir Ísland
Náttúruvernd: Raforkuflutningur
- Kerfisáætlun Landsnets 2018-2027 – drög að matslýsingu
- Hólasandslína 3 frá Akureyri til Hólasands – Mat á umhverfisáhrifum
Náttúruverndarsvæði og stjórnun þeirra
- Frumvarp um Þjóðgarðastofnun
- Breytingar á lögum um náttúruvernd
- Aðalskipulag Rangárþings eystra
- Stjórnar- og verndunaráætlun á Hornströndum
- Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum
Náttúruvernd: ferðaþjónusta
- Hálendismiðstöð í Kerlingafjöllum – Mat á umhverfisáhrifum
- Lög um ferðamálastofu
Mengandi starfssemi
- Frumvarp til laga um fiskeldi
- Reglugerð um mengaðan jarðveg
Stjórnsýsla í umverfismálum
- Drög að frumvarpi til innleiðingar á tilskipun ESB um mat á umhverfisáhrifum
- Heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum
- Drög að aðgerðaráætlun vegna Árósasamningsins
Loftslagsmál
- Aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum
- Breytingar á loftslagslögum
Byggðamál
- Drög að tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 til 2024
Landgræðsla og skógrækt
- Frumvarp til laga um skóga og skógrækt
- Frumvarp til laga um landgræðslu
Niðurstöður dóms- og kærumála
Á árinu lágu fyrir niðurstöður í mörgum dóms og kærumálum fyrri ára sem í sumum tilvikum hafði dregist fram úr hófi að fá niðurstöðu í. Í engu tilviki var fallist á málsrök Landverndar og dómsmálunum var vísað frá. Starfsárið var því ár hinna stóru tapa.
Mál fyrir dómi
Dómsmál sem Landvernd rak ásamt Hollvinum Hornafjarðar vegna vegagerðar yfir Hornafjarðarfljót var vísað frá bæði í Héraðsdómi og í Landsrétti. Dómsmál sem Landvernd rak ásamt Fjöreggi vegna brota á sérlögum um Laxá og Mývatn var vísað frá í Héraðsdómi. Í báðum tilvikum greiddi Landvernd málskostnað kærðu sem var umtalsverður og í báðum tilvikum var málum vísað frá vegna þess að dómarar töldu náttúruverndarsamtök ekki hafa lögvarinna hagsmuna að gæta. Bæði málin hófust á fyrri starfsárum en er nú lokið. Ljóst er af niðurstöðum þessara dóma og fyrri dóma að íslenskir dómstólar taka ekki fyrir málefni umhverfis- og náttúruverndar nema kærendur geti sýnt fram á tjón á sínum persónulegu hagsmunum óháð því hvert brotið er. Þetta er mikill galli sem þarf að bæta úr enda verður að vera hægt að fylgja eftir brotum á lögum um umhverfisvernd til dómstóla.
Mál fyrir Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (ÚUA)
Niðurstaða fékkst í nokkrum útistandandi málum fyrir ÚUA. Nefndin féllst ekki á málsrök Landverndar í neinu tilviki. Þó var Skútustaðahreppi gert að svara Landvernd og Fjöreggi varðandi erindi um Leirhnjúkshraun. Allsérstakt er að í úrskurði ÚUA vegna virkjunar í uppsveitum Árnessýslu, þar sem ljóst var að framkvæmdaraðilinn HS orka myndi brjóta náttúruverndarlög með framkvæmdinni, segir að gefa verði leyfisveitanda, í þessu tilviki Bláskógabyggð, rúmt frelsi til að ákveða sjálft hvort um brýna nauðsyn sé að ræða. Í náttúruverndarlögum er tiltekið að brýna nauðsyn þurfi til að leyfilegt sé að brjóta náttúruverndarlög. Í þessu tilviki telur úrskurðarnefndin að hinn kærði leyfisveitandi geti sjálfur ákveðið hvort hann sé að brjóta lög eða ekki. Þetta getur á engan hátt staðist og hefur Landvernd til athugunar hvort kvarta megi yfir þessu sjónarmiði nefndarinnar. Þau mál sem niðurstaða fékkst í á þessu starfsári en hófust á fyrri árum voru:
- Framkvæmdaleyfi Bláskógabyggðar til HS Orku fyrir Brúarvirkjun, seinna leyfi, í samstarfi við Náttúruverndarsamtök Suðurlands
- Starfsleyfi kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka
- Umhverfisáhrif Sprengisandslínu metin sameiginlega með Blöndulínu 3, Hólasandslínu 3 og Kröflulínu 3
- Athafnaleysi Skútustaðahrepps vegna borholu og slóða í Leirhnjúkshrauni, í samstarfi við Fjöregg
- Rannsóknaleyfi Orkustofnunar til North Tech Energy ehf. vegna jarðhita á Reykjaneshrygg og fyrir Norðurlandi (vísað frá vegna skorts á lögvörðum hagsmunum)
- Stöðvunarkrafa því Vegagerð í Þingvallaþjóðgarði fór ekki í umhverfismat
Önnur erindi
Samtökin héldu á starfsárinu áfram að senda stjórnvöldum ábendingar, fyrirspurnir og önnur erindi. Þar á meðal voru ábending og fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um samþykkt aðalskipulags Árneshrepps án þess að boðaðar efnislegar athugasemdir væru færðar fram.
Árósasamingurinn og samstarf
Landvernd nýtir kæruréttinn sem samtökunum er tryggður með Árósasamningnum og EES samningnum með það að markmiði að styrkja umhverfis- og náttúruvernd í landinu. Það hafa samtökin gert undanfarið í auknu mæli í samstarfi við umhverfisverndarsamtök í héraði. Með því móti nýtur Landvernd góðs af þekkingu heimamanna auk þess að styðja við samtök þeirra og veitir stjórnvöldum um leið öflugra aðhald en ella. Ekki leikur vafi á því að úrlausnir úrskurðarnefnda og æðra settra stjórnvalda leiðbeina hinum lægri stjórnvöldum um ákvarðanatöku í framtíðinni og hafa þannig jákvæð og stefnumarkandi áhrif til lengri tíma. Óhóflega langur málsmeðferðartími hamlar þó mjög virkni kæruréttarins en hann hefur styttst verulega á starfsárinu og er það mjög vel.