Umsögn Landverndar um tillögu til þingsályktunar um græna atvinnubyltingu, mál no. 360, 151. löggjafarþing send Nefndarsviði Alþingis 12. janúar 2021.
Stjórn Landverndar hefur kynnt sér ofangreinda þingsályktunartillögu og styður hana heils hugar. Það er gríðarmikilvægt að þjóðir heims falli ekki í gryfju ósjálfbærrar auðlindanýtingar til þess að komast hratt út úr kreppunni. Í þessari þingsályktunartillögu eru margar góðar tillögur um það hvernig hægt er að byggja upp án þess að festa enn frekar í sessi auðlindanýtingu og framleiðsluferli sem menga og umhverfi okkar og spilla náttúru og eyðileggja auðlindir.
Lögfesting markmiða og uppfærð aðgerðaáætlun
Liður 2 er sérlega mikilvægur og bendir stjórn Landverndar á þingsályktunartillögu um breytingar á loftslagslögum, 32. mál á 151. löggjafarþingi. Lögfesting markmiða í loftslagsmálum er áríðandi til þess að meiri líkur séu á því að markmiðin lifi af stjórnarskipti og til þess að bæði almenningur og Alþingi hafi betri möguleika til aðhalds ef ríkisstjórnir standa ekki við markmiðin. Með því að lögfesta markmið sýna Alþingi og stjórnarflokkarnir að þeim er alvara að ná markmiðum í loftslagsmálum.
Við lögfestingu markmiða um kolefnishlutleysi er mikilvægt að hugtakið sé skilgreint og hvaða þættir eigi að falla undir það. Stjórn Landverndar telur að þar sé átt við alla losun frá starfsemi og landi á Íslandi og innifalið sé því losun frá framræstu votlendi, illa förnu landi og stóriðju. Ekki er hægt að tala um að ná kolefnishlutleysi með bindingu gegnum landnotkun á móti þeirri losun sem eftir er árið 2040, nema að landnýtingarþátturinn sé þegar með nettónúll losun. M.a. þess vegna er skynsamlegt að greina á milli aðgerða til að draga sannanlega og varanlega úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðgerða sem miðast við að auka bindingu sem oft á tíðum eru meiri óvissu háðar.
Uppfærsla aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum er aðkallandi sérstaklega nú þegar fyrir liggur að markmið um losun verða hærri en áður var áformað, og munu miðast við að losun 2030 verði 55 % minni en árið 1990 ef marka má orð forsætisráðherra.
Grænn fjárfestingarsjóður – hátt kolefnisgjald
Stofnun græns fjárfestingarsjóður í eigu hins opinbera sem styðji við loftslagsvæna atvinnuuppbyggingu og grænan hátækniiðnað er afbragðs hugmynd. Stjórn Landverndar telur að ekki megi gleyma að gera þarf grænar fjárfestingar arðbærar þannig að einnig megi virkja almenna fjárfesta í fjárfestingum sem
örva þróun græna hagkerfisins. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga umhverfisgjöld og skatta og þá staðreynd að gjald á losun gróðurhúsaloftegunda er skilvirk leið til að örva grænar fjárfestingar.
Þjóðgarður á hálendi Íslands
Stjórn Landverndar vill benda á að stofnun þjóðgarðs á Hálendi Íslands er stórt skerf sem styður við liði 5 og 6 í tillögunni og leggur til að sérstökum lið um friðlýst svæði og Hálendisþjóðgarð verð bætt við.
Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Landverndar
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri