Grændalur liggur til norðurs upp af Ölfusdal ofan við Hveragerði, en þar er eitt af stærstu ósnortnu hvera- og laugasvæðum landsins í nánd við byggð og hefur svæðið verndargildi á heimsvísu að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands. Jarðhitinn í Grændal er óvenjulega fjölbreyttur – þar skiptast á gufuhverir, leirhverir, litlir sprengigígar, heitar skellur, vatnshverir og heitar og volgar lindir. Í dalnum vaxa einnig nokkar sjaldgæfar plöntutegundir s.s. laugadeplar og fljóajurt sem eru á válista. Grændalur verðskuldar því hámarksvernd. Hugmyndir hafa verið uppi um 120 MW virkjun í dalnum en kosturinn fellur inn í verndarflokk.
Hengilsvæði og Ölkelduás
Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, um 100 km² að stærð. Jarðhitinn skiptist þó í þrennt og samanstendur af Hveragerðiseldstöðinni (Grændalur), Ölkelduhálsi og jarðhitasvæðinu í Henglafjöllum.
Þegar hefur talsvert verið virkjað á Hengilssvæðinu, þar á meðal virkjanir í Hengli og á Nesjavöllum, en í 2. áfanga rammaáætlunar falla virkjunarhugmyndirnar Grændalur og Bitruvirkjun í verndarflokk, Gráuhnúkar, Hellisheiði, Hverahlíð og Meitillinn í nýtingarflokk, og Innstidalur, Ölfusdalur og Þverárdalur í biðflokk.
Kísilhverirnir í Hveragerði og á Reykjum eru einkennandi fyrir Grændalssvæðið, ásamt hinum fjölmörgu laugum sem spretta fram úr berghlaupum í dalnum. Gufuhverir finnast víða og fylgja oft sprungum tengdum Suðurlandsskjálftum.
Við Ölkelduháls er mikill jarðhiti og fjölbreyttur. Þar eru margir stórir leirhverir, leirugir vatnshverir og víða eru gufuaugu. Nokkur ummerki eru um öflugar gufusprengingar. Útfellingar eru einkum hverasölt og brennisteinn. Við Klambragil, innst í Reykjadal eru öflugir sjóðandi vatnshverir. Frá þeim rennur heitur lækur sem fljótlega blandast köldu vatni og verður þar hin ágætasta aðstaða til böðunar í Reykjadalsá.
Vinsælar gönguleiðir liggja um svæðið og stór hluti þess er á náttúruminjaskrá, þ.e. vatnasvið Grændals, Reykjadals og Hengladala. Um svæðið liggja nokkrar vinsælar gönguleiðir.
Lífríki
Í Grændal er gróskan mikil og þar vaxa nokkrar sjaldgæfar plöntutegundir sem hér á landi finnast aðeins við jarðhita, þar af eru laugadepla og flóajurt á válista. Lífríki hveranna er talið einstaklega fjölbreytt.
Umhverfi
Grændalur liggur næstum beint upp af Hveragerði en dalsmynnið er þröngt og lítið áberandi. Hann hefur einnig verið nefndur Grendalur en Grændalsnafnið á vel við þar sem dalurinn er gróinn og sérlega grænn.
Ummerki jarðhita sjást víða, eftir hlíðum dalsins endilöngum og í dalbotninum. Berggrunnurinn er þéttur þannig að vatn sígur lítið niður í hann en gömul framhlaup eru í hlíðunum og þar spretta upp lindir.
Jarðhitinn í Grændal er óvenjulega fjölbreyttur. Gufuhverir eru áberandi en þar finnast líka leirhverir, litlir sprengigígar, heitar skellur, vatnshverir, og heitar og volgar lindir og lækir sem sitra niður hallann.
Grændalur er eitt af stærstu ósnortnu hvera- og laugasvæðum landsins í nánd við byggð. Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun hafa lagt til að Grændalur verði friðlýstur. Auðvelt er að komast að Grændal með því að aka í gegnum Hveragerði og áfram til norðurs þar til vegurinn endar.
Virkjunarhugmyndir
Hugmyndir hafa verið uppi um 120 MW virkjun í mynni Grændals. Rannsóknarleyfi hefur fengist til borana og annarra jarðhitarannsókna á svæðinu.