Gjástykki er sigdalur á sprungusveim Kröflueldstöðvarinnar.
Gjástykki

Gjástykki er stórt landsvæði á sprungusveim Kröflueldstöðvarinnar. Gjástykki er sigdalur og eru gjáveggirnir allt að 20 m háir. Í Kröflueldum (1975-1984) gaus nokkrum sinnum í Gjástykki sunnanverðu og nýtt hraun þekur stór svæði. Í verndarflokki rammaáætlunar áformaði Landsvirkjun 50 MW virkjun. Gjástykki hefur verndargildi á heimsmælikvarða og var friðlýst fyrir orkuvinnslu árið 2020.

Gjástykkissvæðið

Gjástykki heitir sundursprunginn sigdalur norður frá Kröflu-kötlunni. Í eldgosi í Gjástykki í október 1984 klofnaði jörð og upp kom hraun sem breiddi úr sér.

Sá hluti Gjástykkis sem hugsaður er til virkjunar er rúmlega 100 km2 slétta í meira en 400 m hæð yfir sjó um 6 km fyrir norðan Leirhnjúk og Kröfluvirkjun, norðaustur af Mývatni. Svæðið afmarkast af Gæsafjöllum, Gjástykkisbungu og Sandmúla í suðri, Þórunnarfjöllum í vestri og Hrútafjöllum í austri. Sprungusvæði þess teygir sig í norður um slétt land í átt til Kelduhverfis.

Á syðri hluta Gjástykkis eru hraun, sem runnu í Kröflueldum 1975-1984. Svæðið dregur nafn af fjölmörgum gjám sem liggja um það frá suðri til norðurs og opnuðust margar þeirra í Kröflueldum. Fyrir norðan hraunin er land gróið en fellin sem rísa upp af sléttunni hins vegar flest gróðurlaus.

Oft er talað um Gjástykki, Leirhnjúk, Vítismó og Kröflu sem aðskilin svæði en gegn því hafa verið færð þau rök að í það minnsta verði að telja umbrotasvæði Kröfluelda eina landslagsheild undir heitinu Leirhnjúkur-Gjástykki.

Lífríki

Háplantan naðurtunga og tvær mosategundir á válista finnast á svæðinu, þar að auki eru þrír jarðhitamosar og fléttutegund með hátt verndargildi að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Þrjár fuglategundir sem finnast á Gjástykkissvæðinu eru á válista: fálki, rjúpa og hrafn.

Örverutegundir sem finnast á svæðinu eru fáar en sérstæðar og hafa ekki sést annars staðar.

Virkjunarhugmyndir

Gjástykki er hluti af eldstöðvakerfi Kröflu sem hefur verndargildi á heimsmælikvarða og fellur svæðið nú í verndarflokk, en hugmyndir hafa verið uppi um 45 MW jarðvarmavirkjun á svæðinu.

Samkvæmt rammaáætlun er Gjástykki dæmi um svæði sem einkennist af miklum verðmætum í flokki náttúruminja, en þar varð til glænýtt land í eldsumbrotum árið 1984. Verðmæti svæðisins myndu viðhalda sér með vernd, en fáir staðir í heiminum sýni jafnvel ummerki frá Kröflueldum um rek meginlandsflekanna og sköpun Íslands. 

Hefur þú ábendingu um svæðið?
Sendu okkur línu á natturukortid (hjá) landvernd.is