Gunnlaugur Friðriksson

býður sig fram til stjórnar Landverndar

Gunnlaugur Friðriksson heiti ég og kom nýr inn í stjórn Landverndar á síðasta aðalfundi og hef því setið í stjórn í eitt ár. Starf stjórnar hefur verið með afbrigðum jákvætt og farsælt og að mínu mati hefur samstarf verið frábært milli stjórnar og starfsmanna samtakanna.

 

Ég hef starfað í Bandaríkjunum í yfir tvo áratugi en er nú ábúandi á bæ í Bárðardal sem heitir Sunnuhvoll. Afi minn byggði Sunnuhvol og hét líka Gunnlaugur. Og afi hans hafði búið á sama stað. Það voru áform um stórkarlalegar virkjunarframkvæmdir í Skjálfandafljóti rétt fyrir ofan Goðafoss sem ýttu mér út í náttúruverndina og urðu til þess að ég gekk í SUNN, samtök um náttúruvernd á Norðurlandi. Í gegnum það frábæra starf kynntist ég betur starfi Landverndar og bauð mig fram til stjórnar. Þrátt fyrir að ár sé langur tími, þá er allnokkuð verk að koma sér inn í þau mörgu baráttumál sem Landvernd þarf að sinna. Til þess að verða betur í stakk búinn til að beita mér í þágu samtakanna býð ég mig fram til áframhaldandi setu í stjórn. 

Mínar áherslur í grænni pólitík

Íslensk þjóð stendur frammi fyrir mikilvægri áskorun: að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og nýta í staðinn innlenda orku. Það virðist ríkja þjóðarsátt um að við höfum metnað til að standa vel þessum orkuskiptum og því er nauðsynlegt að vanda til verka, bæði varðandi orkunýtingu og orkuöflun.

 

Á Íslandi er verðmæt náttúra og víðerni sem okkur Íslendingum ber skyldu til að vernda. Oft heyrast virkjanasinnar stilla loftslagsmálum upp sem andstæðu við klassíska náttúruvernd – að ganga þurfi á gríðarverðmæta náttúru Íslands, til að bjarga náttúrunni. Í landi sem nú þegar hefur fært gríðarlegar fórnir á borð orkuiðnaðarins og framleiðir meiri raforku á mann en nokkur annað land í heiminum og þar sem góðu virkjanakostirnir eru búnir, þar sem menn í alvöru ræða að virkja jökulárnar í Skagafirði. Lausnin sem stjórnvöld bjóða upp á er að ráðast í gríðarlega aukningu á orkuframleiðslu án þess að skilgreint sé einusinni að orkan skuli nýtt til orkuskipta. Við þurfum að bregðast við og standa fast á því að loftslagsmálin og hin klassíska náttúruvernd eru tvær birtingarmyndir sömu baráttu – að tryggja komandi kynslóðum framtíð í sátt við jörð og náttúru. 

Næstu skref fyrir Landvernd

Starf mitt í stjórn Landverndar undanfarið ár hefur sýnt mér hvað rétt fólk á réttum stað getur áorkað miklu. Auður framkvæmdastjóri er happafengur fyrir íslenska náttúruvernd. Það sama má segja um Tryggva Felixson sem er leiðinlegt að sjá hverfa á braut sem formann stjórnar, sem og aðra stjórnarmeðlimi sem gefa nú ekki kost á sér. Það er ekki sjálfgefið að Íslendingar eigi samtök á borð við Landvernd. Þrátt fyrir stóran og dyggan hóp meðlima er við ofurefli peningalegra hagsmuna að etja og eitt af verkefnum nýrrar stjórnar er að afla meira fjármagns til starfsins. 

 

Oft fer betur á því að segja hvað maður vill en hvað maður vill ekki. Með auknum styrk gæti Landvernd betur skilgreint og miðlað hvaða framtíð er í boði ef nátturuvernd og loftslagsmál eru tekin alvarlega. Þar sem almenningi er gert keift að sjá í gegnum grænþvott hagsmunaaðila og þar sem auknum útblæstri og frekari eyðileggingu á íslenskri náttúru og víðernum er hafnað. 

 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd