Hagavatn stendur undir Langjökli en þar er lítt raskað víðerni og landslag tilkomumikið. Skriðjökullinn Hagavatnsjökull rennur úr Langjökli og hefur Hagavatn myndast framan við jökulsporðinn. Úr vatninu rennur Farið um Nýjafoss sem myndaðist í jökulhlaupi snemma á síðustu öld. Jöklarnir, vatnið og móbergshryggirnir skapa landslagsheild sem hefur gríðarlegt fræðslugildi og alþjóðlegt verndargildi. Á svæðinu eru miklir framtíðarmöguleikar fyrir ferðamennsku og útvist en þarna er fjallaskáli sem er nýttur af útivistarfólki á ári hverju. Hugmyndir eru um vatnsaflsvirkjun við Hagavatn þar sem virkja á útfall vatnsins um Farið og hækka vatnsborð Hagavatns sem verður miðlunarlón. Gert er ráð fyrir allt að 20 MW vatnsaflsvirkjun. Rannsóknarleyfi var gefið út árið 2019 fyrir 9,9 MW virkjun. Virkjanaframkvæmdir, með tilheyrandi efnistöku, vega- og línulögnum, munu raska náttúrulegri ásýnd svæðisins.