Nú styttist í Hálendishátíð Landverndar í IÐNÓ í Reykjavík, styrktartónleika fyrir hálendi Íslands. Með hátíðinni vekur Landvernd athygli á okkar einstöku víðernum sem ekkert annað í heiminum jafnast á við. Tilgangurinn er að fagna saman og minna okkur sjálf og samfélagið á að hjarta landsins Hálendi Íslands er hjartað í okkur sjálfum og það ber að verja fyrir komandi kynslóðir, svo þær geti notið, eins og við.
Þótt enn sé hálendi Íslands stórt og hlutar þess ósnortnir sjá sífellt fleiri fjársterkir athafnamenn og stjórnvöld viðskiptatækifæri í þessari sameiginlegu auðlind þjóðarinnar. Tækifærin til að sökkva svæðum undir lón, tæma vatnsföll, grafa skurði, byggja rafmagnsmöstur, leggja vegi, reisa vindmyllur, stjörnuhótel, gera ný stór bílastæði og setja heita vatnið í manngerða polla og böð fyrir fjársterka ferðamenn.
Ekkert af þessu er í þágu náttúrunnar, landsins eða heimsins. Á íslensku hálendi er hægt að njóta ósnortinnar náttúru í friði sem óvíða í heiminum er í boði og það viljum við öll. Að spilla því vilja þeir helst sem sjá möguleika á því að komast yfir dýrmætustu eign þjóðarinnar fyrir lítið, áður en það verður of seint.
Er orkuskortur ef ekki er orka til að anna eftirspurn hvers sem kaupa vill? Orku til stóriðju, fiskeldis, tómataútflutnings, sæstrengs og gagnavera? Svarið er örugglega já, alltaf og endalaust. Ef við forgangsröðum ekki. En ef við forgangsröðum og förum vel með þá orku sem þegar er framleidd, getum við aukið lífsgæði okkar, varðveitt hálendið og haldið áfram með orkuskiptin líka.
Eru lúxushótel, baðlón, vindgarðar og uppbyggðir heilsársvegir um víðernin okkar innviðir, eða náttúruspjöll og árás á hjarta landsins? Þessum spurningum svara fjársterk fyrirtæki og fjárvana sveitarfélög með sínum hætti og hyggja á framkvæmdir út um allt.
Við sem fögnum hálendinu og ósnortnu víðernunum okkar mætum á Hálendishátíð Landverndar 11. október í IÐNÓ. Tökum þátt með tónlistarfólkinu GDRN, Celebs, Lón og Kára, með Villa Neto, kynni, Benedikt Traustasyni, landverði og Chris Burkard, sem flytur okkur hálendið inn í Iðnó með myndasýningu.
Til hamingju með HÁLENDI ÍSLANDS. Það lengi lifi.
Greinin birtist fyrst í Heimildinni 7. október 2023