Hengill og hálendið umhverfis hann eru hluti af fjallahringnum sem rammar höfuðborgarsvæðið inn og er eitt fjölbreyttasta og vinsælasta útivistarsvæði á Suðvesturhorninu. Hengill er virk megineldstöð sem síðast gaus fyrir um 2000 árum og jafnframt eitt stærsta háhitasvæði á Íslandi. Mikill jarðhiti er á stóru svæði umhverfis Hengil. Orka náttúrunnar rekur Hellisheiðarvirkjun en hún nýtir jarðvarma til raforkuframleiðslu og hitaveitu. Virkjunin nýtir jarðvarma úr u.þ.b. 44 framleiðsluholum auk 17 niðurdælingarholum. Raforkuframleiðsla í Hellisheiðarvirkjun hófst árið 2006 og hefur verið reist í áföngum. Framleiðslugeta virkjunarinnar er nú 303 MW í raforku en 200 MW í varmaafli. Gert er ráð fyrir stækkun varmavirkjunarinnar í áföngum upp í 400 MW varmaafls.