Höfum áhrif

Allir geta haft áhrif, snúum bökum saman gegn loftslagsvánni, landvernd.is
Við eigum auðvelt með breyta okkur sjálfum og koma auga á það sem við getum gert til að draga úr mengun. En hvernig höfum við áhrif á aðra?

Staða loftslagsmála er alvarleg. Ungt fólk víðsvegar um heiminn hefur kallað eftir breytingum! Nú er komið að almenningi að svara þessu kalli og skora á stjórnvöld að grípa til raunverulegra aðgerða!

Að breyta sér sjálfri/sjálfum

Við eigum auðvelt með breyta okkur sjálfum og koma auga á það sem við getum gert til að hjálpa jörðinni og loftslaginu.

Við getum gengið til vinnu og skóla ef við eigum kost á því, notað almenningssamgöngur eða sameinast í bíla. Við getum hætt að nota einnota umbúðir og borðbúnað og afþakkað óþarfa plast. Í raun þurfum við að endurhugsa neyslu okkar, en það er allt sem við notum, það sem við kaupum og borðum. Sjá nánar í greininni 10 hlutir sem þú getur gert fyrir loftslagið. 

Get ég sleppt einhverju? Með því að afþakka allan óþarfa, eyðum við minna, þurfum að endurnýta minna og minna fellur til endurvinnslu en áður. Endurvinnsla ætti að vera sísti valkosturinn. Sjá stuttþáttaröð Landverndar Hvað getum við gert? 

Til að sjá heildarmyndina og hafa sannarleg áhrif fyrir lífið á jörðinni, þurfum við að skoða samfélagið okkar með gagnrýnum augum og spyrja spurninga. Hvað er það í umhverfi okkar sem skaðar loftslagið? 

Að hafa áhrif á aðra

Áhrifaríkasta aðferðin til að hafa áhrif er að þrýsta á þau sem ráða og upplýsa og fræða annað fólk í kringum okkur um stöðuna.

Senda má góðar hugmyndir til stjórnvalda, búa til auglýsingar, skipuleggja mótmæli, fara á fundi með bæjarstjóra/umhverfisfulltrúa og leggja fram óskir, skrifa í blöðin o.fl.

Þegar við öðlumst kosningarétt er mikilvægt að kjósa fólk sem hefur loftslagið og velferð jarðarinnar í huga. Ef við erum flokksbundin þá eigum við að krefjast þess að flokkurinn sem við kjósum taki afstöðu með náttúrunni.

Mundu að þú átt rétt á að bjóða þig fram til kosninga og hafa þannig áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru á landinu.

Hvort sem þú ert flokksbundin/nn eða ekki þá ættir þú að krefjast þess að sá flokkur sem þú kýst setji loftslagsmálin í forgrunn og vinni að farsælli framtíð á jörðinni.

Þú hefur áhrif

 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd