Ágústa Þóra Jónsdóttir varaformaður Landverndar skrifar
Ég tel að allir Íslendingar vilji vernda náttúruna og landið sem okkur er treyst fyrir svo við getum skilað því til næstu kynslóða. En það er þrýstingur úr öllum áttum: Ákall eftir meiri orku og aukinni framleiðslu – sem síðan leiðir til aukinnar neyslu.
Við þurfum að muna að ekki er nóg að bæta í og ná í stöðugt meiri orku með fleiri virkjunum. Það þarf að hugsa og greina vel í hvað og hvernig orkan er nýtt því ef látið er undan öllum þessum kröfum mun náttúrugæðum landsins hnigna.
Núverandi orkunotkun á Íslandi og orkuskipti
Á Íslandi eru helstu orkugjafarnir hitaveita, vatnsaflsvirkjanir, jarðvarmavirkjanir, og jarðefnaeldsneyti. Hitaveita hitar upp hús og byggingar á sjálfbæran hátt – sem er frábært. Orka frá jarðvarma- og vatnsaflsvirkjunum gefur orku til almennrar rafmagnsnotkunar og um 70% þeirrar orku fer beint til álvera. Jarðefnaeldsneytið drífur áfram samgöngur í lofti, á láði og legi. Það er sú orka sem þarf að skipta út.
Árið 2019 voru notaðir 922 þúsund lítrar af olíu á Íslandi skv. Orkustofnun. Í töflunni að neðan eru notendur olíunnar listaðir upp og búið er að umreikna olíulítra yfir í þá raforku (Gwh).
Orkuskiptin eru komin af stað fyrir einkabíla og um 5% allra bíla árið 2022 eru rafbílar. Á öðrum sviðum eru orkuskipti ekki hafin. Í flugi og skipaflotanum er tæknin ekki tilbúin og má því gera ráð fyrir að þau orkuskipti muni ekki vera gengin í garð svo nokkru nemi fyrir árið 2030; líftími þessara tækja er langur og enn verið er að fjárfesta í nýjum tækjum sem nota jarðefnaeldsneyti. Í töflunni að framan sést að millilandaflug notar nær helming allrar olíunnar. Einkabílar nota hins vegar minna en 10%. Af þessu má sjá að orkuskiptin eru í raun mjög skammt á veg komin eða alls ekki hafin fyrir langstærstan hluta núverandi olíunotkunar.
Á Íslandi eru framleiddar 20.000 GWh á ári. Árið 2019 nýttu stórnotendur 15.145 GWh, orkunotkun og tap hjá veitum var 930 GWh og almennir notendur nýttu 3.451 GWh. Því er engin orka afgangs sem hægt er að nýta í orkuskiptin og afleiðingin er sú að virkja þarf meira til að fá aðgang að meiri orku – eða spara orku og forgangsraða notkun hennar.
Orkuskiptahermir fyrir Ísland
Sumarið 2022 smíðaði ég líkan fyrir orkuskipti Íslendinga, byggt á greiningu sérfræðings sem Landvernd hafði fengið til að greina stöðuna varðandi orkunotkun, ásamt þeirri nýtni og stuðlum sem liggja fyrir um framleiðslu á rafeldsneyti. Ég notaði aðferðarfræði kvikra kerfislíkana, sem hentar vel þegar
skoða á flókna ákvarðantöku þar sem margir þættir spila saman og hafa áhrif hver á annan. Þannig er hægt að skoða hvernig mismunandi ákvarðanir hafa áhrif á
heildarorkunotkun og jafnframt áhrif orkusparnaðar á mismunandi sviðum.
Orkuskiptahermirinn er aðgengilegur á vef Landverndar og ég hvet allra til að skoða hann til að fá betri innsýn í forsendur og valmöguleika í orkuskiptum:
Hvað þarf mikla orku fyrir orkuskiptin?
Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri sagði í útvarpsviðtali á Rás 2, „Það er endalaus eftirspurn eftir grænni orku“. Þetta þýðir að við getum fundið allri endurvinnanlegri orku farveg hjá kaupendum. Sú orka hvetur efnahagslífið og styrkir efnahagslegar stoðir samfélagsins, um það eru flestir sammála. Ágreiningurinn liggur í því hversu mikið má ganga á náttúruauðlindir og hversu mikið er „nóg“.
Í stað þess að greina eina sviðsmynd gerir orkuskiptahermir Landverndar hverjum og einum kleift að smíða sína eigin sviðmynd og kanna áhrif ólíkra ákvarðana á
hvernig orkuskiptunum verður náð. Sumar forsendur í líkaninu eru aðeins á valdi stjórnvalda en aðrar háðar tækniframförum og fyrirtækjum. Einnig getur hegðun
einstaklinga skipt miklu.
Greining á núverandi stöðu sýnir að álverin eru langstærstu raforkunotendurnir og því myndi orkusparnaður hjá þeim vega þyngst. Stjórnvöld gætu til dæmis valið að knýja á um orkusparnað hjá þessum risanotendum og beina þeim orkusparnaði í orkuskiptin. Millilandaflug er síðan stærsta breytan í orkuskiptunum, þar hafa hegðunarbreytingar mikil áhrif, eins og tíðni ferða, fjöldi ferðamanna, sætanýting og hraði, auk orkunýtingar flugvélanna. Í sjávarútvegi eru líka þættir eins og hraði, tíðni ferða, veiðiaðferðir og orkunýting véla mikilvægir.
Ég hvet þig til að fara í gegnum orkuskiptaherminn skref fyrir skref og skoða tölurnar og samspil þátta og fá þannig tilfinningu fyrir því hvaða ákvarðanir hafa mest áhrif. Markmið með líkaninu er að efla upplýsta umræðu og ákvörðunartöku varðandi orkuskiptin á Íslandi.
Orsakasamhengi og ágreiningur um framtíðarsýn
Alls staðar í heiminum benda vísindamenn og stjórnmálamenn á að hringrásarhagkerfið er eina raunhæfa leiðin í baráttunni við loftslagsvána og til að viðhalda lífsgæðum. Það er einnig yfirlýst markmið íslenskra stjórnvalda. Þess vegna ákvað ég að skoða hve mikla orku þarf til þess að endurvinna ál í stað þess að framleiða stöðugt nýtt. Þá kemur í ljós að orkuþörfin við endurvinnslu er aðeins 10% þeirrar orku sem þarf í hrávinnslu áls. Ef íslensku álverin endurynnu ál yrði orkuþörfin aðeins 1.420 GWh fyrir sama magn af áli og árið 2019. Þannig gæti næg orka verið til staðar í kerfinu, orka sem hægt væri að beina í orkuskiptin án þess að virkja meira.
Einhverjum kann að finnast þetta róttækt. En við þurfum að eiga alvöru umræðu um framtíðarsýn og þær leiðir sem er um að velja. Við verðum að leyfa okkur að skoða alla möguleika, því eitt er öruggt: ef við höldum áfram á sömu braut, þá verður áherslan á efnahagslegu gæðin ríkjandi á kostnað umhverfis- og samfélagsgæða. Sú vegferð getur aðeins endað með skipbroti og því lengur
sem við bíðum með að skipta um kúrs, því meiri verður kostnaður og skaði fyrir lífsgæði okkar og komandi kynslóða
Greinin birtist fyrst í Ársriti Landverndar 2023.