Höfuðdygðir Grikkja til forna voru viska, hófstilling, hugrekki og réttlæti. Kristnir gerðu þessar dygðir að sínum og urðu þær sjö með því að bæta við trú, von og kærleika.
Hófstilling felst í því að stilla hug sinn, stilla skap sitt og geð, að stilla og temja líkama sinn, hvatir, ástríður, að hafa taumhald á sjálfum sér.
Mörg samheiti eru til yfir þessa dygð sem nefnd er hófstilling, hófsemd, nægjusemi – allt eftir samhenginu, samheiti eins og látleysi, gætilegur, sparsamur, nægjusamur, hóflegur, orðvar og sanngjarn, og mörg orðatiltæki eins og;
Allt er best í hófi, allt kann sá sem hófið kann, hóf er hagkvæmast, hóf er best í hverjum leik, hverjum er nægjan nóg, sá sem nóg hefur skal láta sér það nægja
Hátt skrifaður mannkostur
Nægjusemi vísar á það dýrmætasta í mannlegu fari, að kunna að hemja sig, stilla sig og finna jafnvægi í eigin skinni og í samskiptum við aðra.
Nægjusemi er kjarnadygð, ef við vitum hvert við viljum fara, þá hjálpar hún okkur til að ganga örugg á veginum.
Hófsemd, nægjusemi, er ekki lífsgildi sem sigrar í vinsældarkosningu eins og hugrekki, heiðarleiki, virðing og kærleikur gera oft. En þess má geta að án stuðnings frá nægjusemi yrðu þau sem vængbrotinn fugl.
Að aga sjálfan sig
Allt verður gengdarlaust, taumlaust, stjórnlaust, ef við ræktum ekki þetta látlausa lífsgildi sem kallað er nægjusemi.
Veröldin er hávær og okkar eigin rödd getur hljóðnað. Heimurinn er straumþung á sem vill ráða för í hafið en þegar við höfum tamið okkur sjálfsaga stjórnum við för okkar niður ána og sofum ekki fljótandi að feigðarósi, við öðlumst hæfni til að efast um strauminn og synda í land, setjast á árbakkann og hlusta á innri rödd. Markmiðið með því að aga sjálfan sig, er að nema speki andans.
Lífsgildin vinna saman
Engin dygð þrífst ein og stök. Hver og ein er ávallt í samhengi við önnur lífsgildi.
Við gætum þurft hugrekki, sjálfsaga og hugvit til að takast á við eitt verkefni og við gætum þurft nægjusemi, kærleika og heiðarleika til að takast á við annað verkefni.
Stundum bregðumst við umsvifalaust við, en í öðrum tilvikum sýnum við biðlund, stillum okkur þar til tækifæri gefst.
Að leggja sitt af mörkum
Sjálfsagi og nægjusemi eru lífsgildi sem við lærum með reynslunni og sem við svo kennum kenna börnum.
Sérhver maður sem ætlar að verða sá sem hann vill vera hlýtur að beita sig sjálfsaga, aginn eykur nefnilega þroska til að vega og meta, neita og játa.
Sjálfsþekking þarfnast bæði sjálfsaga og nægjusemi vegna þess að þar liggur innri vegur til hverrar persónu.
Eftir að einstaklingur hefur náð tökum á sjálfum sér, öðlast sjálfsþekkingu, efast um skilaboð tíðarandans, myndað sér eigin skoðun og stefnu, þá vaknar löngun til að gera eitthvað fyrir aðra, leggja sitt af mörkum í samfélaginu.
Hver einstaklingur getur valið og fundið sér hlutverk. Þetta hlutverk gæti verið náttúruvernd, ekki veitir af. Oftast er þetta sjálfboðaliðastarf en náttúruverndarar eru á launum hjá náttúrunni sjálfri.
Andheiti: græðgi, ofnýting
Nægjusemi er andstæð græðgi, að tileinka sér nægjusemi ætti að draga úr mengun, eyðslu og þörfinni til að fórna landi fyrir orkuver og gæti bjargað nokkrum jökulám, fossum og ósnertu víðerni, útsýni, jurtum og dýrum.
Græðgin aftur á móti tortímir. Hún blindar fólk sem hefur ekki gefið sér tíma til að setja hlutina í samhengi. Græðgin tortímir fegurð, fossum, fuglum og fiskum. Hún er stjórnlaus, ótamin og fer alls ekki með gát. Spurningin „Eigum við að láta þetta nægja?“ er aldrei borin upp.
Það þarf sjálfsaga til að svara játandi, og láta þetta nægja. Sjálfsagi er þýðingarmikið lífsgildi ef markmiðið er að vakna upp af doðanum, beisla eigin orku og nýta hana til góðs.
Sjálfsagi og nægjusemi haldast í hendur, ef þeirra nyti ekki við, yrðum við meðvirkni, hroka og græðgi að bráð.
Að fækka löngunum
Mikilvægt er að bregðast við áður en það er of seint, áður en eyðileggingin verður. Það er ekki gott að fullnægja öllum hvötum, ef löngunin verður of sterk brotnar sjálfsaginn.
Sjálfsagi og nægjusemi felast ekki í því að dempa allt og temja, heldur í því að fækka löngunum sem á að fullnægja, velja úr til að ná árangri. Við þurfum sjálfsaga til að ýta sumu til hliðar og forgangsraða öðru.
Án sjálfsaga, nægjusemi og taumhalds verður ekkert frelsi. Við þurfum á þeim að halda til að geta verið heilsteypt. Dæmi: Ég er á eigin vegum, ég þarf ekki að gera neitt, en ég verð ekki hamingjusamur nema með því móti að gera það sem ég vil gera, það sem ég hef valið sjálfur, ég leyfi öðrum ekki að heilaþvo mig, heldur mynda ég mér eigin skoðun.
Við þurfum að gera það sem okkur finnst erfiðast: að venda kvæði sínu í kross, skipta um lífsstíl, draga úr einkaneyslu, hætta framkvæmdum, tileinka okkur nægjusemi. Nóg hefur sá sem nægja lætur.
Dygð sem æfa þarf af kappi
Heimurinn sér um sig og jörðin sér um sig en enginn mun bjarga heimkynnum okkar nema við sjálf, ekki verur frá öðrum hnöttum, ekki guð, ekki neitt nema við sjálf. Við þurfum að horfast í augu við veikleika okkar og hætta að næra þá með löstum eins og græðgi og sérgæsku, öfund, hroka, leti.
Við getum hvert og eitt gert tilraun til að bjarga okkur sjálfum. Ef það tekst þá bjargast margt annað í leiðinni.
Græðgin er vítahringur en nægjusemin rífur þennan vítahring, leggur veg út úr honum.
Nægjusemi er lofsverð dyggð, því verkefni hennar er að draga úr taumlausri kaup- og sölugleði, á enn dýrara húsnæði, enn stærri og aflmeiri bifreiðum, enn fleiri flugferðum, en fleiri virkjunum, enn meira magni og sóun.
Nægjusemi krefst hugrekkis til að neita sér um óþarfa bruðl. Hún er dygð sem æfa þarf af kappi.
Nægjusemi vísar á jafnvægi og jöfnuð. Árangur hennar mælist í árum. Hófsöm manneskja er ekki ginnkeypt og fellur ekki fyrir fagurgala enda skapar ofgnótt ekki hamingju, heldur kvíða.
Lífið þarf að finna jafnvægið milli þurrðar og flóða, milli of og van. Ofaukið, ofbirta, ofdrykkja, ofeldi, ofeyðsla, ofneysla, offjölgun, ofvaxinn. Vanmat, vanrækja, vanreikna, vansvefta, vantraust, vanþakkæti. Lífið er á milli alls sem er. Mannlífið á jörðinni er stjörnubókardæmi um öfgar. Það er ýmist í ökkla eða eyra og verkefnið er að finna jafnvægið á milli.
Höfuðdygð náttúruverndarar
Nægjusemi er kjarni sjálfbærni. Nægjusemi er höfuðdygð náttúruverndara.
Nægjusemi er dygðin sem breytir fólki til betri vegar í umhverfismálum. Hún merkir ekki stöðnun eða afturför, heldur þvert á móti: framför.
Nægjusemi er fáguð dygð sem bætir hvern þann sem tileinkar sér hana.
Dæmisaga um nægjusemi
Maður situr á bryggjusporði við stórt vatn með veiðistöng. Annar maður nálgast, fylgist með og segir svo að hann eigi ekki að sitja þarna og dóla sér svona með eina stöng. Þetta stóra vatn sé fullt af fiski og hann eigi að útvega sér lítinn bát og veiða duglega.
„Hvað svo?“ spyr sá með veiðistöngina.
„Þá notar þú ágóðann til að byggja upp útgerð og kaupir fleiri báta.“
„Hvað svo?“
„Þá getur þú aukið enn meira við þig og haldið áfram að byggja upp veldið þitt.“
„Hvað svo?“
„Þá geturðu bara í rólegheitunum rölt hingað niður á bryggjuna, sest með veiðistöng og slakað á.“
„En það er einmitt það sem ég er að gera.“
Gunnar Hersveinn, rithöfundur og heimspekingur
Erindið var flutt á viðburðinum Hringrásarjól sem Landvernd og Norræna húsið stóðu fyrir 26. nóvember 2023.