Plast þykir vera algjört undraefni því það er auðvelt að móta það, það er slitsterkt og endingargott. Það getur verið örþunnt og mjúkt (plastpoki) en líka grjóthart og eldþolið (legókubbar).
Í dag er plast nánast órjúfanlegur hluti af tilveru okkar. Farið var að fjöldaframleiða plast um miðja síðustu öld eða um 1950 og var það gert úr jarðefnaeldsneyti. Frá þeim tíma hafa menn skipt út hlutum úr tré, gleri, málmi, beinum og vömbum fyrir hluti úr plasti. Plast hefur í mörgum tilfellum aukið lífsgæði okkar,minnkað matarsóun og mengun t.d. með því að létta farartæki eins og flugvélar og bíla.
Hvert er þá vandamálið við plast?
Vandamálið við plast er ekki plastið sjálft heldur hvernig við notum það. Hver Íslendingur notar að meðaltali 40 kg af umbúðaplasti árlega, að megninu til einnota plastvörur. Menn framleiða árlega um 350 milljón tonn af plasti sem samsvarar um það bil heildarþyngd allra jarðarbúa! Mikið af þessu plasti endar í sjónum því það fýkur þangað, eða er hreinlega hent í sjóinn
Hvernig er plast búið til?
Til að framleiða plast eru notuð efni eins og kol, gas, salt og að mestu leyti olía. Eins og svo margt annað sem við erum að nýta frá jörðinni þá eru olíuauðlindir okkar ekki endurnýjanlegar. Sem þýðir að á endanum mun sú auðlind klárast. Talað er um að það þurfi um 2 kg af olíu til að framleiða 1 kg af plasti en það skýtur frekar skökku við að vera að eyða þessari dýru olíuauðlind okkar í efni sem síðan er hent eftir aðeins eina notkun.
Eiginleikar plasts
Eiginleikar plasts eru þannig að endingartími þess er yfirleitt nokkuð mikill, það er slitsterkt svo það hverfur ekki eða eyðist heldur brotnar í smærri og smærri hluta í náttúrunni. Einnig er algengt að dýr bíta í plastrusl eða naga það í sundur í smærri hluta. Plast sem fer ekki réttar leiðir til endurvinnslu eða förgunar lendir því oft úti í náttúrunni (höfum, ám og vötnum) þar sem það getur valdið skaða á lífríki náttúrunnar. Hluti plasts er létt efni og flýtur sem gerir það að verkum að það getur borist um hundruði kílómetra og valdið þannig skaða langt frá upprunastað sínum.
Plastflákar í hafinu
Gríðarstórir flákar af plasti hafa þegar myndast í Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi sem hafstraumar hafa borið þangað. Plastið er síðan fast þar í þessum gríðarstórum hringstraumum sem þar eru. Til þess að flækja málin enn frekar þá er plasti oft bætt út í ýmsar hreinlætis- og snyrtivörur s.s. tannkrem og húðskrúbba en þessar smáu agnir fara oftar en ekki beina leið út í sjó þar sem frárennsliskerfin okkar eru fæst með búnaði til að ná þeim. Því má segja að stór hluti af því plasti sem framleitt hefur verið frá upphafi sé ennþá einhvers staðar til.
Af hverju á plast ekki heima á sjónum?
Plastið í sjónum er mikið til hlutir eins og einnota umbúðir, plasthnífapör, plastflöskur, plastpokar, föt, sogrör, tannburstar ogleikföng. Á einhvern hátt hefur þetta rusl endað í sjónum og hefur það skaðleg áhrif á umhverfið. Plast getur vafist utan um dýr, heft hreyfingar þeirra og kyrkt. Mörg dýr skynja ekki muninn á plasti og fæðu og fyllast smám saman af plasti sem dregur þau að lokum til dauða.
Hvað er örplast?
Örplast er plastögn sem er minni en 5 mm. Í sumum tilvikum erframleitt sérstakt örplast sem sett er í dekk, snyrtivörur og áburð. Í öðrum tilvikum verður til örplast þegar stærri hlutir úr plasti brotna niður í smáar agnir, jafnvel örsmáar nanóagnir.
Í hafinu sogar örplast að sér eiturefni í hafinu og því má segja að dýr sem halda að örplast sé matur séu í tvöfaldri hættu. Þau innbyrða plast í stað fæðu og geta orðið fyrir næringarskorti en verða einnig fyrir eitrun af efnunum sem fylgja örplastinu. Rannsóknir hafa sýnt að örplast er víða og er hafið í kringum Ísland ekki undanskilið. Skoðun á sjófuglum við Ísland leiddi í ljós örplast í sjö af hverjum tíu fýlum.
Örplast í hafinu má rekja til dekkja, gervigrasvalla, fatnaðar úr gerviefnum, málningar og snyrtivara. Efnin renna með skólp- og rigningarvatni út í sjó. Með því að draga úr notkun einkabílsins er hægt að draga úr örplastsmengun frá dekkjum. Í sumum löndum hefur örplast í snyrtivörum verið bannað. Sjá má á innihaldslýsingu snyrtivara hvort að þær innihaldi örplast en það kallast oft polyethylene (einnig polypropylene, polymethyl methacrylate, polyactic acid, nylon og fleira). Fatnaður úr gerviefnum inniheldur plast. Efni sem eru teygjanleg eins og útivistarföt, sundföt og íþróttaföt eru oftast að hluta til úr gerviefnum. Helstu gerviefnin eru polyester, nylon, acrylic, spandex, lycra, elastane og polyamide.
Efni sem innihalda ekki plast eru náttúruleg efni eins og bómull, ull, silki og hör. Ef til vill er erfitt að hætta alveg að nota gerviefni en mikilvægt er að draga úr fatakaupum, kaupa frekar notað og nota fötin vel.
Fimm hlutir sem þú getur gert strax í dag gegn plastmengun í hafi!
Hættum að nota einnota hluti eins og plastglös og plasthnífapör.
Afþökkum einnota hluti og segjum öðrum frá af hverju við afþökkum.
Kaupum minna af óþarfa og sleppum því að kaupa dót úr plasti sem endist ekki lengi.
Flokkum og þrífum allt plast sem við notum.
Tínum upp rusl sem við sjáum á víðavangi, því ef það er laust, þá fýkur það í sjóinn í næsta roki.