Hvað knýr mannshjörtun? Hver er tilgangur lífsins?

Þjórsárver
Þjórsárver eru eitt helsta djásn landsmanna. Þar má upplifa einstakt samspil jökla, gróðurs og dýralífs. Ljósmyndari Ellert Grétarsson.
Hver er tilgangur lífsins? Kannski er það að fá að sitja í friði hjá á eða læk sem hoppar og skoppar, hendist, beljast, drynur og ólmast? Auður Önnu Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Landverndar.

Kannski er það að fá að sitja í friði hjá á eða læk sem hoppar og skoppar, hendist, beljast, drynur og ólmast? Að njóta víðsýnis, að tengjast náttúrunni í sjálfum okkur, henda frá sé byrðum nútímakrafna og njóta fersk lofts, útsýnis, rýmis, frelsis og friðar í náttúrunni?

Eða er tilgangur lífsins kannski að vera sönn sínum grunndvallarlífsskoðunum? Kannski að skilja heiminn, jörðina eftir í betra ástandi en hún var í á komudegi okkar? Að segja satt og rétt frá og taka ákvarðanir út frá skynsemi og bestu fáanlegu gögnum á hverjum tíma?

Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur til að við köstum frá okkur margra ára rannsóknum á verðmæti náttúruperla Íslands. Hann vill ekki að það verðmætamat sem okkar helstu sérfræðingar hafa framkvæmt liggi til grundvallar ákvörðunum um vernd eða orkunýtingu landssvæða heldur vill meirihlutinn frekar þóknast virkjanaaðilum. Hann vill þóknast þeim sem selja raforkuna okkar til verstu umhverfissóða heimsins á spottprís og virðast aldrei geta fengið nóg.

Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar vill þóknast þeim sem bera ábyrgð á því að Ísland er langstærsti raforkuframleiðandi heims á íbúa en reyna samt sem áður að telja okkur trú um að það sé ekki nóg til. Að íslensk náttúra hafi ekki gefið okkur nóg, að henni þurfi enn að fórna á altari stóriðjustefnu og neyslubrjálæðis.

Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar rökstyður ekki hvernig þau komast að þeirri niðurstöðu að Héraðsvötn skuli fara úr verndarflokki í biðflokk í 3. áfanga rammaáætlunar, þvert á niðurstöðu verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Hún komst nefnilega að því eftir ítarlegar rannsóknir færustu sérfræðinga að Héraðsvötn væru verðmætasta landsvæðið sem hún tók til skoðunar með tilliti til náttúru- og menningarminja. Það allra verðmætasta. En. Meirihlutinn heyrði einhvern efast um einn af þeim fjölmörgu þáttum sem metnir voru og telur því skynsamlegt að fresta enn um sinn verndun Héraðsvatna fyrir orkuvinnslu. „Það var sagt mér,“ segir meirihlutinn og þess vegna hendum við faglegri ákvarðanatöku út um gluggann.

Þjórsárver. Hvar á að byrja? Þjórsárver eru friðland. Alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Alþjóðlega mikilvægt votlendissvæði. Stærsta samfellda gróðursvæði sem eftir er á Hálendi Íslands með einstaklega fjölskrúðugt dýralíf, plöntulíf, fuglalíf. Þjórsárver eru hjarta landsins, þar sem jökulvatn og lindarvatn mætast, ærslast, næra og kvíslast eins og æðar. Landsvirkjun vill stífla kransæðina, loka á flæði frá hjartanu. Þurrka upp fossana Dynk og Gljúfurleitafoss mestan hluta ársins, fossa sem eru álíka stórir og Gullfoss. Spilla víðernum og hálendisupplifun með virkjanamannvirkjum og stefna lífríki Þjórsárvera í hættu. Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar er ekki tilbúin að taka af skarið um vernd þessa heilagasta svæðis Hálendisins, heldur vill hann að verndargildið verði „skoðað“ enn einu sinni. En ekki með neinum haldbærum rökum eða gögnum heldur bara…. Það var sagt mér.

 

Auður við Hjarta landsins - Þjórsárver í ágúst 2021.
Auður við Hjarta landsins - Þjórsárver haustið 2021.

Alþingisfólk! Við sem hér erum stödd grátbiðjum ykkur um að standa vörð um faglega ákvarðanatöku, skynsemi og lýðræðisleg vinnubrögð. Við krefjumst þess að þið rísið undir þeirri ábyrgð sem á ykkur er sett sem æðsta ákvarðanavald landsins og hafnið tillögu meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar um 3. áfanga rammaáætlunar. Plís, plís, plís, ekki taka ákvarðanir sem skemma dýrmætustu náttúruperlur okkar. Rísið upp til verndar íslenskri náttúru og sýnið að þið ætlið ykkur að breyta rétt og skilja eftir heim, samfélag og umhverfi, sem er betra heldur en það sem þið tókuð við við fæðingu.

Stöndum vörð um náttúru Íslands, öll saman. Líka og kannski sérstaklega Alþingisfólk, stjórnarmeirihlutinn og meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar. Öll saman. Góðar stundir.

Ofangreind orð flutti Auður Önnu Magnúsdóttir formaður Landverndar á samstöðufundi með náttúrunni, þegar formönnum þingflokka var afhent mynd af Dynk í Þjórsá. Tilefni samstöðufundarins var ákvörðun meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar að færa úr verndarflokki tvær af mikilvægustu náttúruperlum Íslands, án þess að nokkuð mat hefði farið fram sem réttlætti það.

Kynntu þér það sem er í húfi

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd