Hverfisfljót. Áhrifasvæði Hnútuvirkjunar. Skoðaðu náttúrukortið á landvernd.is
Hverfisfljót - Áhrifasvæði Hnútuvirkjunar.

Hverfisfljót er jökulá sem á upptök sín í Síðujökli í Vatnajökli. Hverfisfljót rennur rennur í jaðri Eldhrauns, einu af heims undrum Íslands, um Brunahraun, austanvert Skaftáreldahraun. 

Hverfisfljót á Náttúrukortinu. Kynntu þér hvað er í húfi.

Hverfisfljót í biðflokki

Svæði í biðflokki falla yfirleitt í þann flokk vegna skorts á gögnum eða vegna þess að rannsókna er ábótavant og því ekki unnt að ákveða hvort meiri ávinningur sé af því að vernda svæðið eða að virkja til orkunýtingar.

Virkjun undir 10 MW

Áformuð Hnútuvirkjun í Hverfisfljóti er 9,3 megavött. Með þessu er verið að læðast fram hjá rammaáætlun sem tekur á framkvæmdum yfir 10MW.

Biðflokkur

Hverfisfljótsvirkjun, 42. MW er í biðflokki 3. áfanga rammaáætlunar.

Svæði sem nýtur vaxandi vinsælda ferðamanna

Fljótið er við jaðar Vatnajökulsþjóðgarðs og vatnasvæði þess er enn óraskað. Svæðið nýtur vaxandi vinsælda ferðamanna til útivistar. Mikilfengleg fossaröð er í Hverfisfljóti þar sem það er enn að mynda sér farveg eftir hraunrennslið árið 1783 sem breytti farvegi þess.

Náttúra í mótun

Hverfisfljótið gróf sér farveg um landið sem varð til eftir Skaftárelda og gerbreytti þeim dal sem áður hét Fljótsdalur. Hér náði byggð nokkuð langt inn í landið fyrr á öldum og þarna voru skógar og fljótið þá kallað Raftalækur. Gljúfrið sem var fyrir Eld var lítt minna en gljúfur Skaftár sem var 200 m djúpt og 150 metra breitt fyrir Eld að sögn eldklerksins Jóns Steinsgrímssonar. Fljótið býr yfir skemmtilegum skessukötlum, mikilfenglegum gljúfrum og töfrandi fossum m.a. Lambhagafossum.

Hverfisfljót er hluti af þessari heild sem teygir sig frá Skaftá í vestri að Vatnajökli í austri. Verði fljótinu spillt með virkjun, verður svæðinu sem heild einnig spillt, m.a. víðernum í Vatnajökulsþjóðgarði.

Samspil elda og ísa við Vatnajökul

Skaftáreldar (frá 1783-1784) voru næstmesta hraun sem upp hefur komið í einu gosi á jörðinni á sögulegum tíma.

Hraunflæðið fyllti árgljúfur Hverfisfljóts og þurfti áin að finna sér nýjan farveg. 

Í 233 ár hefur Hverfisfljót sorfið gljúpt hraunið og smíðað yngsta árgljúfur heims.

Lakagígar. Skaftáreldar runnu úr Lakagígum.
Lakagígar. Skaftáreldar runnu úr Lakagígum.

Fáfarin víðerni

Öræfin frá Skaftá í vestri austur að Skeiðarárjökli eru lítt snortin og fáfarin víðerni. Svæðið er tiltölulega vel gróið, landslagið er mjög fjölbreytt og margir staðir sem fáir hafa séð. Skaftáreldar, sögufrægasta gos Íslands, átti uppruna sinn á langri gossprungu Lakagíga.

Hin víðfema, óspillt náttúra Skaftárhrepps er fjársjóður framtíðarinnar og hennar ber okkur að gæta.

Hverfisfljót á upptök sín í Síðujökli og rennur um Skaftáreldahraun, eitt mesta hraun sem myndast hefur á jörðinni á sögulegum tíma.
Hverfisfljót

Yngsta árgljúfur í heiminum

Þarna er landið í mikilli og hraðri mótun af völdum stórkostlegra náttúruafla, en fljótið er enn að grafa sér og móta nýtt glúfur. Gljúfur Hverfisfljóts eru talin einhver þau yngstu í heiminum.

Svæðið er ýmist innan Vatnajökulsþjóðgarðs eða mikilvægt jaðarsvæði hans

Þrjár stórar jökulár falla um þetta svæði. Austast er Djúpá og þar hafa myndast gljúfur eftir mikil flóð vegna eldvirkni í Síðujökli, en Núpahraun rann fyrir 6.000 árum. Vestar er Hverfisfljótið, því sem næst hrein jökulá sem enn er að grafar sér farveg um landið sem varð til eftir Skaftárelda. Vestast er Skaftá sem rennur á hrauni sem fyllti hennar fornu gljúfur, afleiðing af eldunum í Lakagígum.

Hverfisfljót á upptök sín í Síðujökli í Vatnajökli. Það rennur um Brunahraun, austanvert Skaftáreldahraunið frá 1783-4; næstmesta hraun sem upp hefur komið í einu gosi á jörðinni á sögulegum tíma. Þarna er landið í mikilli og hraðri mótun af völdum stórkostlegra náttúruafla, en fljótið er enn að grafa sér og móta nýtt glúfur – eitt hið yngsta í heiminum – eftir að hið eldra fylltist í hinu mikla hraunflóði.
Hverfisfljót við upptök sín í Síðujökli í Vatnajökli.

Með Hnútuvirkjun í Skaftárhreppi yrði „kroppað í glassúrinn á kökunni“ og landslagsheild á heimsmælikvarða raskað. „Það er svo margt rangt við þetta,“

Virkjunarhugmyndir

 

Nokkrar virkjunarhugmyndir hafa verið settar á teikniborðið í gegnum tíðina. Í rammaáætlun er Hverfisfljótsvirkjun (42MW) flokkuð í biðflokk, en það þýðir að ekki sé búið að skera úr um hvort að hagkvæmara sé að virkja en vernda svæðið. 

Til að komast framhjá rammaáætlun er nú stefnt að virkjun sem er 9,3 MW en rammaáætlun fjallar um virkjanakosti sem eru stærri en 10 MW. 

Hnútuvirkjun <10MW

Fyrirhuguð Hnútuvirkjun er áætluð að stærð 9,3 MW. Niðurstöður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum virkjunar í Hverfisfljóti, dags. 3. júlí 2020 eru afdráttarlausar, þar sem framkvæmdin fær óumdeilanlega falleinkunn.

Lambhagafossar tæmdir

Í Hverfisfljóti er fjöldi stórfenglegra og síbreytilegra fossa, sem með fyrirhugaðri virkjun við Hnútu yrði rofin, þ.e. vatn yrði leitt fram hjá hinum rómuðu Lambhagafossum með minnkandi rennsli.

Landslagsheildir og víðerni í Vatnajökulsþjóðgarði í hættu

Verði fljótinu spillt með virkjun, verður svæðinu sem heild spillt, m.a. víðernum í Vatnajökulsþjóðgarði.

Víðerni, m.a. miðhálendisins, yrðu einnig skert, landslagsheildir rofnar, sem og fyrrnefnd Skaftáreldahraunbreiðan, sem þekur um 600 km2 og er sú víðfemasta í heiminum frá sögulegum tíma, sem öll er ofanjarðar.

Þetta í skiptum fyrir 9,3 MV sem óvíst er hvort hægt er að framleiða í raun – og enginn þarf á að halda. 

Óvissuþættirnir eru ekki síst vegna aurframburðar, sem eru óleyst mál, en frá Vatnajökli ber Hverfisfljót fram á aðra milljón tonna svifaurs á ári. 

Verðmæti landsvæðisins liggja í heildinni óraskaðri sem göngulandi, enda hefur það engan sem um hefur farið látið ósnortinn.

Hverfisfljótsvirkjun 42MW  – Biðflokkur

Um er að ræða 42 MW rennslisvirkjun sem tæki vatn úr Hverfisfljóti og Hellisá. Hverfisfljót yrði stíflað við Löngusker með tveimur stíflum, auk þess sem stíflað yrði við Laufbalavatn og Bárðarhnúka. 

Lón yrðu því þrjú talsins, samtals yfir 22 km2 að stærð. 

Ljóst er að framkvæmdin myndi rýra þetta svæði gríðarlega og hafa neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna. Virkjanaframkvæmdir í farvegi Hverfisfljóts gætu haft ófyrirsjáanleg áhrif á lindasvæði við jaðra Eldhraunsins þ.m.t. á lindir og læki á Brunasandi sem er einstakt búsvæði fugla.

Áætlað er að talsvert rask yrði af virkjunarframkvæmdum sökum vegagerðar og framkvæmda við stöðvarhús, frárennslisskurði, inntakslón ofl.

Heimild: R3115A Hverfisfljótsvirkjun, Orkustofnun

Kaldbaksvirkjun – Biðflokkur

Kaldbakur í Skaftárhreppi er landsvæði í heiðalandi norðan Kirkjubæjarklausturs. Svæðið markar jaðar einhverra stærstu víðerna á hálendi Íslands við suðvestanverðan Vatnajökul og skammt undan eru víðfrægir staðir á við Lakagíga og Eldhraun. 

Mikið rask fylgir virkjun og ef af áformum um virkjun á svæðinu verður, fer land norðan Kaldbaks undir þrjú lón sem myndu ná langleiðina upp að Síðujökli. Vatni yrði veitt úr Hverfisfljóti og Hellisá til þess að virkja um 47 MW með rennslisvirkjun. Hverfisfljót yrði stíflað ofarlega og hefði virkjun áhrif á rennsli árinnar frá upptökum til ósa.

Heimild: R3151A Kaldbaksvirkjun, Orkustofnun

Heimild: Frummatsskýrsla – Umhverfismat, Hverfisfljót og Hnútuvirkjun. Skipulagsstofnun 

Umsögn Landverndar, 2020: Óafturkræf umhverfisáhrif „smá“virkjana geta verið veruleg  Umsögn Landverndar, 2020:  Neikvætt umhverfismat Hnútuvirkjunar en skipulagsvinna heldur áfram 

Kynntu þér náttúruvernd í Skaftárhreppi

Eldvötn – samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi. 

Markmið samtakanna er að vera málsvari umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða, fyrst og fremst. Þessum markmiðum hyggst félagið ná með því að:

– Efla vitund almennings – einkum íbúa Skaftárhrepps – um gildi náttúrunnar, umhverfismál og náttúruvernd.

– Veita stjórnvöldum og framkvæmdaaðilum gagnrýnið aðhald.

 https://www.facebook.com/eldvotn/

Hefur þú ábendingu um svæðið?
Sendu okkur línu á natturukortid (hjá) landvernd.is