Landmannalaugar eru staðsettar í norðanverðri Torfajökulsöskjunni. Þær eru heimsfrægar fyrir náttúrufegurð, jarðhita og litadýrð og eru einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna á hálendi Íslands. Þar eru gufu- og leirhverir, vatnshverir, líparíthryggir og nútímahraun svo dæmi séu nefnd. Laugarvegurinn byrjar jafnan í Landmannalaugum. Á Torfajökulsvæðinu er jarðhita helst að finna í sjö þyrpingum, þ.e. við Landmannalaugar, Blautukvísl, Vestur- og Austur- Reykjadali, Ljósártungur, Jökultungur og Kaldaklof. Jarðhiti og jarðhitamerki á svæðinu ná yfir um 200 km2 svæði, en öll svæðin eru í Friðlandi að fjallabaki og því utan laga um verndar-og orkunýtingaráætlun. Ekki stendur til að virkja á svæðinu.