Lesa afmælisrit Landverndar
Tryggvi Felixson formaður skrifar;
Landvernd hefur staðið vaktina í hálfa öld. Í upphafi lögðu samtökin áherslu á gróður- og jarðvegsvernd. Jarðvegurinn á landinu okkar var þá að fjúka, við vorum að missa fótfestuna, sjálfan grundvöll lífsins. Sá vandi er minni í dag, en mikið er þó enn óunnið á þessu sviði.
Þegar samtökin voru stofnuð voru orð eins og mengun varla til í íslensku, hvað þá loftslagsvá og hamfarahlýnun, súrnun sjávar og plastmengun og plastagnir í umhverfinu. Landvernd starfar í takt við tímann; tekst á við þau viðfangsefni sem blasa við; bendir á það sem betur má fara í umhverfis- og náttúrvernd og leggur fram hugmyndir að lausnum. Ný viðfangsefni koma því stöðugt á dagskrá samtakanna.
Sterkir hagsmunaaðilar og skammtíma gróðahyggja er helsta ógn náttúru landsins. Í baráttu við þau öfl skiptir úthald og vandaður rökstuðningur miklu máli. Eftir 50 ára starf má víst segja að Landvernd skortir hvorki úthald né rök. Eitt fyrsta verkefni Landverndar var baráttan við gróðureyðingu. Það verkefni er enn á dagskrá. Landvernd hóf baráttu fyrir aðgerðum gegn loftslagsvánni fyrir liðlega tveimur áratugum síðan og sú barátta stendur nú sem hæst.
Skilningur og þekking er forsenda góðra verka. Þess vegna hefur fræðsla verið og er enn megin stef í starfsemi Landverndar. Í Alviðru stofnuðu samtökin fyrsta náttúruskóla landsins sem starfaði um langt ára bil. Í dag leggur Landvernd áherslu á Grænfána-verkefnið fyrir skóla og vistheimt með þátttöku skóla og almennings.
Hin síðari ár hefur verndun náttúrunnar í stærra samhengi verið vaxandi þáttur starfi samtakanna; gróður og dýr, landslag og víðerni, fossar, hraun, fjöll og jöklar. Samspil þessara þátta í náttúru landsins fyllir okkur þakklæti og lotningu. Verndun náttúruarfsins er eitt megin viðfangsefni Landverndar eins og kristallast í áherslu samtakanna um þessar mundir að koma í veg fyrir áformaða Hvalárvirkjun.
Landvernd telur að nú sé komið meira en nóg af framkvæmdum sem spilla verðætum náttúruarfi þjóðarinnar; náttúran er verðmætasti lífeyrissjóður komandi kynslóða.
Í dag standa yfir 6.000 félagar og 40 aðildarfélög að baki Landvernd. Það er traust undirstaða sem byggt verður á næstu árin. Vertu velkomin í hópinn.
Tryggvi Felixson
Formaður Landverndar 2019 – 2020