Landvernd hefur sent Nefndarsviði Alþingis umsögn um þingsályktunartillögu um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.
Það er einlæg von Landverndar að þingsályktunartillaga um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum nái fram að ganga. Mikilvægt er að við ákvörðun á endanlegum mörkum friðlandsins verði horft til náttúrufars og landslagsheilda. Með slíkri nálgun má ætla að svæðið verði mun líklegra en ella til þess að komast inn á heimsminjaskrá UNESCO.
Fái Þjórsárver þá vernd sem þeim sæmir eru umtalsverðar líkur á því að þau gætu komist inn á heimsminjaskrá UNESCO eins og bent hefur verið á m.a. af erlendum sérfræðingum þeim Roger Crofts og Jack D. Ives. Í þessu ljósi er dapurlegt að hugsa til þess að nýlega þurftu náttúruunnendur og náttúruverndarsamtök að kljást við yfirvöld frammi fyrir dómstólum til þess að varna því að verndargildi svæðisins yrði rýrt til muna. Komandi kynslóðum til heilla unnu náttúruunnendur sigur í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Annarsvegar er í tillögunni lagt til að friðlandið verði stækkað þannig að sem mest af gróðurlendi svæðisins lendi innan friðlýsingarmarkanna. Hér er mikilvægt að hafa hugfast að Hofsjökull er bakhjarl Þjórsárvera og sér gróðurlendinu fyrir vatni. Þegar hugað er að því hvar nyrðri mörk friðlandsins eiga að liggja ber því að lágmarki að horfa til vatnaskila og ísaskila á jöklinum. Roger Crofts hefur bent á að fylgja beri vatnaskilum. Jacks D. Ives hefur talað fyrir því að við stækkun friðlandsins skuli Hofsjökull friðaður í heild sinni. Sú nálgun kæmi að mati Landverndar einnig til greina og vísar í því samhengi til Vatnajökulsþjóðgarðs sem fordæmi fyrir slíkum mörkum.
Hinsvegar er í tillögunni lagt til að friða Þjórsá og nærliggjandi svæði að Sultartangalóni. Landvernd telur eðlilegt að þessi mörk verði einnig látin ráðast af náttúrufari fremur en t.d. tiltekinni vegalengd frá ánni. Í heimsókn sinni til Íslands benti Jacks D. Ives á að svæðið sem markast af Kerlingafjöllum, Hofsjökli og Þjórsárverum sé er eitt tignarlegasta og andlega mest örvandi landslag veraldar. Hann telur að ef mörk friðlandsins yrðu stækkuð þannig að þau næðu til Kerlingarfjalla, hluta aðliggjandi eyðisanda, og alls Hofsjökuls væri um að ræða svæði sem kæmi sterklega til greina til skráningar á Heimsminjaskrá UNESCO.
Hér má nálgast umsögn Landverndar, ásamt skýrslum þeirra Rogers Crofts og Jacks D. Ives á frummálinu auk fundargerðar frá almennum sveitarfundi í Árnesi 1972.
Hér má nálgast íslenska þýðingu á skýrslu Jacks D. Ives.
Þingsályktunartillöguna ásamt greinargerð og viðauka er að finna hér.