Landvernd kvartar til ESA vegna breytinga á lögum um fiskeldi

Landvernd hefur kvartað til ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) vegna breytingar á lögum um fiskeldi sem brýtur gegn reglum EES samningsins.

Landvernd hefur kvartað til ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) vegna breytingar á lögum um fiskeldi sem brýtur gegn reglum EES samningsins. Í byrjun október breytti Alþingi lögum um fiskeldi með frumvarpi sem samþykkt var samdægurs og eftir afar takmarkaðar umræður á Alþingi. Með frumvarpinu var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimilað að gefa út bráðabirgðarekstrarleyfi til fiskeldisfyrirtækja. Ekki er gert ráð fyrir því að slík bráðabirgðaleyfisveiting fari í umhverfismat eða að almenningur og samtök almennings geti komið sjónarmiðum sínum að áður en leyfi er veitt. Einnig útilokar hin nýja löggjöf að leyfisveitingin sé kærð til óháðs og hlutlauss aðila á borð við úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Eru þetta brot á EES reglum sem eiga uppruna sinn í Árósasamningum sem Ísland hefur fullgilt. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gaf þann 5. nóvember síðastliðinn út tvö slík bráðabirgðaleyfi án þess að gætt væri að þessum kröfum EES-réttar.

Lengi vel var reynt að komast hjá því að framkvæma umhverfismat og útiloka almenning og samtök hans frá þátttöku í ákvörðunum sem vörðuðu umhverfið. Nokkuð hefur verið bætt úr því á undanförnum árum en hin nýja lagasetning felur í sér afturhvarf til fyrri og verri tíma. Þessar reglur EES réttar og Árósasamningsins voru settar til þess að tryggja að fleiri raddir heyrðust þegar ákvarðanir um stórar framkvæmdir eða starfsleyfi eru teknar. Er það grundvöllur þess að sjónarmiðum náttúru- og umhverfisverndar sé gert jafn hátt undir höfði og efnahagslegum sjónarmiðum.

Við afgreiðslu lagabreytingarinnar á Alþingi kom í ljós að þar vantar sárlega málsvara umhverfisins. Stjórnmálafólk sem ekki bara réttlætir heldur tekur virkan þátt í aðför að stoðum Árósasamningsins getur ekki talist sérstakir varðmenn umhverfisins.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd