Landvernd og framfarir

Framfarir þýða að virða og varðveita náttúrulegar undirstöður lífsins og gera núverandi og komandi kynslóðum um allan heim kleift að lifa í frelsi, reisn og velsæld.
Í dag vitum við að þau góðu lífskjör sem hafa náðst á Vesturlöndum eru að einhverju leyti í beinu samhengi við afar stórt vistspor þessara landa og íbúa þeirra.

Almennt eru framfarir skilgreindar sem jákvæð þróun og breytingar til hins betra (snara.is). Andstæð hugtök eru afturför eða kyrrstaða. Framfarir krefjast iðulega markvissra breytinga, þróunar og nýsköpunar.

Mat á því hvað flokkast undir framfarir er misjafnt milli manna, hagsmuna, aðstæðna og tíðaranda hverju sinni og er spurning um sjónarhorn, stefnu og markmið. Þannig er ekki til almennt viðurkennd skilgreining á hugtakinu framfarir.

Á meðan t.d. heimspekingurinn Albert Schweitzer horfði á andlegu hliðina og innri gildi einstaklinganna sem mælikvarða á framfarir hafa framfarir í vestrænum samfélögum á síðustu áratugum meira verið hugsaðar út frá efnislegum þáttum. 

Hvernig skilgreinum við framfarir?

Jú, það hafa vissulega átt sér stað miklar framfarir á mörgum sviðum undanfarna áratugi og margt sem við getum verið þakklát fyrir. Þar má nefna auknar lífslíkur, lægri dánartíðni barna, fækkun fátækra og aukna menntun. Lífskjör vestrænna þjóða hafa á heildina batnað mikið. Stór hluti íbúanna fær grunnþarfir sínar uppfylltar og margir meira en það þó að því miður fyrirfinnst líka ennþá fátækt og örbirgð.  

Hér á landi hefur orðræða síðustu áratuga endurspeglað það viðhorf að framfarir felast helst í hagvexti, tæknilegum nýjungum og nýsköpun, auknum efnahagslegum umsvifum, hagnað og verðmætasköpun, auknum kaupmátt og neyslu. 

Í dag vitum við að þau góðu lífskjör sem hafa náðst  á Vesturlöndum eru að einhverju leyti í beinu samhengi við afar stórt vistspor þessara landa og íbúa þeirra. Loftslagsvá, hnignun vistkerfa og minnkandi líffræðileg fjölbreytni sýna okkur skýrt að við þurfum að minnka vistspor okkar hratt og mikið (kolefnisspor er hluti af vistspori).

Því til viðbótar þurfum við að átta okkur á að góðu lífskjörin okkar byggja að hluta á arðráni gagnvart íbúum fátækra landa. Misskipting auðs, ójöfnuður og óréttlæti hefur aukist. Með lifnaðar- og viðskiptarháttum sínum hefur m.a. Ísland töluverð neikvæð smitáhrif á fátæk lönd. Afleiðingin er minnkandi möguleikar þeirra til að stuðla að heimsmarkmiðunum, sjálfbærri þróun og aukinni velsæld íbúanna. 

Hugsum úrelt hugtök upp á nýtt

Því miður hafa ýmsar framfarir skv. skilgreiningu hins vestræna heims þannig haft neikvæðar aukaverkanir og eru auk þess ekki framtíðarvænar. Framfarir samkvæmt þeirri skilgreiningu virðist geta útrýmt sjálfum sér og eru ekki lengur í takt við tímann. Að ríghalda í þessar skilgreiningar og halda áfram að ofnýta auðlindir, skila of stóru vistspori, arðræna náttúru og fólk, er stefna sem gengur ekki upp. 

Að horfa á framfarir svo þröngt er eins og að hlaupa um með bundið fyrir augun, ófær um að sjá hverju maður treður á og án þess að hafa hugmynd um hvar hyldýpið leynist. Þess í stað þarf að horfa heildrænt á framfarir og í anda sjálfbærrar þróunar – þar sem ekki er í boði að einblína aðeins á eina tegund. 

Alvöru framfarir

Við þurfum að sleppa tökum af þeirri hugmynd að við getum haldið áfram að eltast aðallega við framfarir á efnahagslega sviðinu. Þetta væri tálsýn og sjálfsblekking. Enda er mjög vel skilgreint að sjálfbær þróun getur bara átt sér stað ef hagkerfið heldur sig innan þess ramma sem náttúran gefur og að auki þarf það að laga sig að þeim gildum sem móta gott samfélag. 

„Við þurfum að sleppa tökum af þeirri hugmynd að við getum haldið áfram að eltast aðallega við framfarir á efnahagslega sviðinu.“

Framfarir verða að vísa okkur veginn inn í framtíðina og leiða okkur í rétta átt. Skilningur okkar á því hvað við teljum vera framfarir hefur mikil áhrif á stefnu okkar, athafnir og hugsunarhátt. Því skiptir miklu máli að skilgreina framfarir á heildrænan hátt og í samræmi við stöðu mála eins og neyðarástand í loftslagsmálum auk stefnu og markmiða sem Ísland hefur samþykkt, t.d. varðandi heimsmarkmiðinsjálfbæra þróunloftslagssamningsamning um líffræðilega fjölbreytni og stefnu um hringrásarhagkerfi. Og þessum framförum verðum við að ná án þess að það sé á kostnað annara, hvort sem er náttúru eða annars fólks.

Virðum lífið sjálft og forsendur þess

Þannig þýða framfarir í dag að virða og varðveita náttúrulegar undirstöður lífsins og gera núverandi og komandi kynslóðum um allan heim kleift að lifa í frelsi, reisn og velsæld – í anda loftslagshlutleysis, sjálfbærni og réttlætis.

Á öllum sviðum lífsins má einungis nýta náttúruauðlindir að því marki að náttúran geti endurnýjað þær og tekið við úrgangi án þess að skaðast. Þetta eru viðmið sem þurfa að stýra því hvað má kalla framfarir. Og þannig ætti að mæla pólitískar ákvarðanir. 

Framfarir í átt að sjálfbærri þróun, við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, mengun og hnignun vistkerfa og stuðla að réttlæti, jöfnuði og friði eru þær framfarir sem heimurinn og mannkynið þarf helst á að halda núna!

Vertu í liði með Landvernd og taktu þátt að vinna í átt að framförum!

Greinin birtist fyrst á heimildin.is 28. janúar 2024. 

Goðafoss í Skjálfandafljóti.

Orkuskiptahermir

Skoðaðu orkuskiptahermi Landverndar. Orkuskiptin geta farið fram án þess að eyðileggja einstaka íslenska náttúru.
Opna...

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd