Landvernd og Græni lykillinn

Radisson hótelin á Íslandi fá umhverfisviðurkenninguna Græna lykilinn, fyrst hótela á Íslandi.

Radisson Blu hótelin á Íslandi fengu hina virtu umhverfisviðurkenningu Græna lykilinn afhenta við hátíðlega athöfn á Radisson Blu 1919 hóteli í dag, 28. janúar. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, og Salome Hallfreðsdóttir, verkefnisstjóri Græna lykilsins, afhentu viðurkenninguna.

„Okkur er sönn ánægja að tilkynna að Radisson Blu hótelin í Reykjavík eru fyrst allra hótela á Íslandi til að fá umhverfisviðurkenningu Græna lykilsins. Þetta þýðir að þau uppfylla ströng umhverfisskilyrði sem stuðla að verndun umhverfisins.“, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar.

„Græni lykillinn, eða Green Key, er útbreiddasta alþjóðlega umhverfisviðurkenningin sem snýr að hótelum og gististöðum og hefur verið starfræktur í 20 ár. Á síðasta ári fengu rúmlega 2300 staðir viðurkenninguna í 46 löndum um heim allan.“, sagði Salome Hallfreðsdóttir, verkefnastjóri Græna lykilsins hjá Landvernd.

Græni lykillinn er veittur til hótela og gististaða, ráðstefnusala, veitingastaða, safna, tjaldstæða og skemmtigarða. Til þess að hljóta viðurkenninguna þurfa rekstraraðilar að uppfylla umhverfisskilyrði er lúta að tólf umhverfisþáttum, s.s. vistvænum innkaupum, úrgangsstjórnun og orkusparnaði. Græni lykillinn leggur áherslu á að minnka umhverfisáhrif hótelsins, draga úr rekstrarkostnaði og stuðla að sjálfbærni innan ferðaþjónustunnar.

Frá og með deginum í dag mun Landvernd taka við umsjón Græna lykilsins á Íslandi og því er þetta stór stund, bæði fyrir hótelin tvö og Landvernd.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd