Landvernd tilnefnd til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs

Hreinsum Ísland, endurhugsum neysluna og hættum að nota einnota plast, landvernd.is
Hreinsum Ísland, verkefni Landverndar og Bláa hersins er tilnefnt til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2018.

Hreinsum Ísland, verkefni Landverndar og Bláa hernsins, hefur verið tilnefnt til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2018 ásamt Hvalaskoðunarfyrirtækinu Eldingu. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, kynnti þau 10 verkefni sem tilnefnd eru til verðlaunanna á lýðræðishátíðinni LÝSU á Akureyri. Við hjá Landvernd erum þakklát fyrir tilnefninguna og fögnum því að málefni hafsins fái hér góðan hljómgrunn.

Landvernd og Blái herinn tilnefnd fyrir framúrskarandi verkefni

Þema ársins fyrir umhverfisverðlaunin 2018 er vernd lífríkisins í hafinu. Plast í sjónum, sjálfbært neysluvatn, úrgangur í sjónum og hreinsun og endurvinnsla frárennslisvatns eru dæmi um viðfangsefni þeirra tíu sem eru tilnefnd. Umhverfisverðlaunin eru veitt norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem hefur öðrum til eftirbreytni samþætt umhverfissjónarmið starfsemi sinni eða framtaki eða á annan hátt lyft grettistaki í þágu umhverfisins.

Vinningshafinn verður tilkynntur 30. október 2018, í tengslum við þing Norðurlandaráðs í ósló. Verðlaunin nema 350 þúsund danskra króna.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd