Landverndardagur næsta laugardag

Stöndum vörð um náttúru Íslands Landvernd eru frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum til að vernda og bæta lífsgæðin í landinu. Landvernd virðir íslenska náttúru og styður sjálfbæra nýtingu hennar. Taktu afstöðu og vertu með! landvernd.is
Niðurstöður viðhorfskönnunar sem Landvernd lét gera benda til þess að hinn samfélagslegi jarðvegur fyrir samtök á borð við Landvernd sé frjór, en jafnframt að mikilvægt sé að kynna samtökin betur og gera þau sýnilegri. Stjórn samtakanna hefur því ákveðið að blása til sóknar og halda hátíðlegan sérstakan Landverndardag, laugardaginn 15. nóvember n.k. Kastljósinu verður beint að loftslagsbreytingum og einkabílnum. Toyota leggur Landvernd lið í þessu átaki.

Átak Landvernd laugardaginn 15 nóvember n.k. miðar að því að afla fleiri félaga, gera starfsemi samtakanna sýnilegri og að vekja athygli á einu tilteknu málefni. Kynningarbæklingi um starfsemi samtakanna verður dreift með Morgunblaðinu, veggspjöld verða hengt upp víða um höfuðborgarsvæðið og sjálfboðaliðar á vegum Landverndar verða á ferðinni.

Í ljósi þess að hnattræn umhverfismál voru efst á blaði í viðhorfskönnuninni var ákveðið að leggja sérstaka áherslu á að vekja athygli á loftslagsbreytingum af mannavöldum og hvað við getum gert sem einstaklingar til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Frá 1990 til 2002 jókst árleg losun kolefnis vegna samgangna um 15% og í nýlegri spá er gert ráð fyrir að þessi losun geti enn aukist um liðlega 20% fram til ársins 2020, verði ekkert að gert. Landvernd telur að landsmenn vilji gera eitthvað í málinu og lítur á það sem hlutverk samtakanna að stuðla að því að svo geti orðið.

Boðorðin tíu fyrir bílinn
Helsta ástæða loftslagsbreytinga af mannavöldum er brennsla jarðeldsneytis. Á Íslandi hefur losun frá samgöngum aukist undanfarin ár, samfara aukinni bílaeign landsmanna. Bílaeign er almenn og margir sem vilja ekki án bílsins vera. En þó bílinn haldi áfram að vera helsta samgöngutækið er ekki þar með sagt að bílaeigendur geti ekki lagt sitt af mörkum til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Margt er hægt að gera til að bíllinn eyði minna eldsneyti. Landvernd hefur tekið saman tíu góð ráð sem bíleigendur geta nýtt sér til að draga úr bensínseyðslu. Ráðin er að finna í kynningarbæklingnum, auk þess sem þau verða einnig prentuð á sérstakar bílasköfur sem verða til sölu hjá samtökunum.

Sjálfboðaliðar á Olísstöðvum
Á laugardeginum verða sjálfboðaliðar á vegum Landverndar á ferðinni á bensínstöðvum Olísá höfuðborgarsvæðinu og víðar þar sem þeir munu dreifa kynningarefni, selja sköfur með Boðorðunum tíu fyrir bílinn og hvetja fólk til að skrá sig sem félagar í Landvernd.

Keppni í vistakstri
Laugardaginn 15. nóvember mun Landvernd, í samvinnu við Toyota, einnig skipuleggja keppni í vistakstri, þar sem nokkrir fyrrum umhverfisráðherrar – og fleira gott fólk – munu keppast um hverjum tekst að komast á milli fyrirfram ákveðinna staða á sem minnstu bensíni. Keyrt verður á tveimur eins bílum og munur í bensíneyðslu verður því eingöngu hægt að rekja til ökumannsins, hvaða leið hann velur til að komast á milli og hvaða aksturslagi hann beitir. Til samanburðar verður fenginn einn “skussi” sem keyrir milli sömu staða án þess að taka nokkuð tillit til þeirra ráða sem hinir munu reyna að fylgja. Tveir fyrrum dómsmálaráðherrar, sem jafnframt eru í stjórn Landverndar, verða dómarar í keppninni. Rás 2 mun væntanlega fylgjast með keppninni í beinni útsendingu.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd