Lausnir gærdagsins eru úreltar – 77,5 % raforku fer til stóriðju

Stóriðja, sér í lagi framleiðsla málma er stærsti valdur mengunar á Íslandi á eftir flugsamgöngum, á myndinni má sjá Elkem á Grundartanga, landvernd.is
Tími stórkallalegra orkumannvirkja er liðinn. Tryggvi Felixson formaður Landverndar skrifar.

Á Íslandi framleiðum við meira rafmagn á hvern íbúa en nokkurt annað þjóðríki. Aðeins 17,5% orkunnar fer til almennra nota, til heimila og fyrirtækja. 77,5% fer til stóriðju.

Til að beisla alla þessa orku hefur íslenskri náttúru verið fórnað; landslagsheildum og vatnsföllum hefur verið umturnað og gróðri eytt. Samfélög hafa klofnað vegna illdeilna.

Sorry, we couldn't find any posts. Please try a different search.

 

Ljós og orka bættu hag heimilanna

Framundir áttunda áratug síðustu aldar voru framkvæmdir við orkumannvirki almennt fremur smáar í sniðum. Markmiðið var að færa ljós og orku inn á heimili landsmanna og í kjölfarið gjörbreyttust lífskjör til hins betra. En síðan Búrfellsvirkjun var reist fyrir um 60 árum hafa of margar orkuframkvæmdir valdið djúpstæðum og erfiðum deilum.

Orkan sem hefur verið aflað síðan þá hefur að mestu farið til orkufrekrar stóðiðju en hvorki til að lýsa upp heimili landsmanna eða í almenna atvinnusköpun.

Orkuframkvæmdir til ama

Aðgengi að endurnýjanlegri orku hefur skipt miklu máli fyrir almenna velferð á Íslandi. Svo mun verða áfram. Það er áleitin spurning hvort velferð Íslendinga í framtíðinni sé háð því að áfram verði haldið á sömu braut, eða hvort þjóðin hefur val.

Orkuskortur er ekki fyrirsjáanlegur ef sýnd er fyrirhyggja.

Meginstoðir vermætasköpunar á Íslandi voru fram undir lok síðustu aldar fiskveiðar og orkufrekur iðnaður. Undanfarna ártugi hafa fleiri stoðir komið til; ferðaþjónusta, störf sem byggja á menntun og þekkingu svo sem þróun hugbúnaðar, menning og listir, þekkingariðnaður og fiskieldi, þó umhverfisáhrif hins síðarnefnda séu ágalli sem verður að lagfæra.

Hér byggir velgengnin ekki á stórkallalegum orkuverum. Þvert á móti eru orkuframkvæmdir þessum atvinnugreinum til ama þar sem þær draga til sín vinnuafl, veikja samkeppnisstöðu og spilla náttúrulegu aðdráttarafli landsins.

Það er engin ástæða til að óttast að velsæld á Íslandi framtíðar verði ógnað þó orkuframkvæmdir verði takmarkaðar – heldur er þetta spurning um val á leiðum. Annars vegar leið mikillar orkuvinnslu sem mun spilla náttúru landsins enn frekar – eða leið þar sem hægt verður að styrkja vernd náttúru, viðerna og landslags um leið og hlúð er að atvinnulífinu almennt.

Nýjar áskoranir kalla á nýja forgangsröðun

Almenn samstaða ríkir um það markmið að nýta orkulindir Íslands til nauðsynlegra umskipta í orkubúskapnum. Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er að bæta nýtingu á fyrirliggjandi mannvirkjum, breyta samgöngukerfum og neyslumynstrum og forgangsraða í hvað orkan fer, til að leysa af hólmi jarðefnaeldsneyti í samgöngum og sjávarútvegi. Það viðfangefni má leysa án þess að fórna verðmætri náttúru og landslagi undir stórkallaleg orkumannvirki. Rammaáætlun gæti verið til stuðnings í því verkefni.

Íslands leysir ekki orkuvanda Evrópu

Þær raddir eru háværar um þessar mundir að Ísland sé mikilvægt orkubúr fyrir nágrannaríkin í Evrópu. Það er eðlilegt að þessar raddir komi úr orkugeiranum sem vill að sjálfsögðu vaxa hratt og mikið. Hitt er verra að boðskapurinn virðist falla í frjóan jarðveg hjá nokkrum stjórnmálamönnum, sem jafnvel vilja fórna rammaáætlun í þessum tilgangi.

Rétt er að hafa í huga að orkubúskapur Evrópu er vandamál af þeirri stærðargráðu að framlag Íslands til lausnar hans yrði afar léttvægt. Það mál verður fyrst og fremst leyst í hverju og einu Evrópuríki fyrir sig og í samstarfi þeirra á milli.

Lausnirnar eru þegar á teikniborðinu og munu komast til framkvæmda á næstu áratugum án orkuflæðis frá Íslandi. Skemmst er að minnast góðs árangurs Bretlands og Danmerkur í sínum orkuskiptum og Þýskalands sem stefni að því að vera 100% með endurnýjanlega orku árið 2030.

Leggi íslensk stjórnvöld hins vegar upp í vegferð aukinnar orkuvinnslu er afar hætt við að miklu af verðmætri íslenskri náttúru verði fórnað – en ávinningur í loftslagamálum yrði lítill sem enginn.

Raunverulegar lausnir í loftslagsmálum felast í minni losun

Raunverulegar lausnir í loftslagsmálum felast í minni losun samhliða framleiðslu endurnýjanlegrar orku sem leysir jarðefnaeldsneyti af hólmi. Framleiðsla grænnar orku á ekki að vera markmið í sjálfum sér og náttúruvernd og loftslagsvernd verða að haldast í hendur.

Ísland er sannarlega land tækifæranna en hins vegar eru lausnir gærdagsins eru ekki það sem við þurfum á að halda nú: Tími stórkallalegra orkumannvirkja er liðinn. Framundan er tími fjölbreytts atvinnulífs þar sem lögð verður áhersla á að vernda einstaka náttúru landsins og víðerni. Kjósum þá framtíð en ekki drauga fortíðar.

Greinin birtist áður í Morgunblaðinu, 30. september 2021. 

 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd