Leiðsögumenn eru lykilfólk í náttúruvernd!

Leiðsögumenn eiga í meiri og nánari samskiptum við erlent ferðafólk en nokkur önnur stétt á Íslandi.
Tryggvi Felixson fjallar um mikilvægi leiðsögumanna og hvernig þeir geta tengt mann og náttúru. Ávarp í tilefni af 50 ára afmæli Leiðsagnar, félags leiðsögumanna.

Páll Skúlason heimspekingur segir í bók sinni Hugleiðing við Öskju: 

„Við erum til og lifum í trúnaðarsambandi við veruleikann sjálfan. Veruleikinn er náttúruleg heild, Náttúran. Afdrifaríkustu viðburðir vestrænnar sögu síðustu alda er brestur í sambandi manns og náttúru. Höfuðvandi nútímans er að lífið er í lausu lofti þar sem trúnaðarsamband manns við náttúru er brostið.“

Einn megintilgangur með starfi náttúruverndarsamtaka er að opna augu fólks fyrir dásemdum jarðar – og að leggja rækt við hið nauðsynlega samband á milli manns og náttúru; byggja upp það trúnaðarsamband manns við náttúru sem Páll Skúlason sagði brostið. Þetta er eitt mikilvægasta viðfangsefni nútímans og lykill að lausn á þeim yfirþyrmandi vanda sem við blasir í samskiptum manna og náttúru.

Siðareglurnar vísa veginn

Í siðareglum leiðsögumanna segir að leiðsögumaður hafi það mikilvæga hlutverk að leiða ferðamenn um landið og veita þeim innsýn í menningu, sögu og náttúru Íslands. Enn fremur, að leiðsögumaður hafi í hvívetna vistvæna umgengni, náttúruvernd og sjálfbæra þróun að leiðarljósi og skuli vekja athygli ferðamanna á þeim reglum sem gilda um vernd náttúru á Íslandi. Siðareglurnar eru gagnlegur leiðarvísir fyrir leiðsögumenn.

Að tengja mann og náttúru

Leiðsögumenn eiga í meiri og nánari samskiptum við erlent ferðafólk en nokkur önnur stétt á Íslandi. Hlutverk leiðsögumanna eru fjölþætt. Eitt þeirra er að tengja þær 2 milljónir gesta sem árlega koma til Íslands við náttúruna og hjálpa þeim að rækta samband sitt við hana; hjálpa þeim endurbyggja hið nauðsynlega trúnaðarsamband á milli manns og náttúru, sem er svo greinilega brostið. Aðeins með því að endurreisa það samband verður hægt að stöðva hnignun og eyðileggingu forsendna lífs á jörðu og mannlegs samfélags eins og við þekkjum það.

Ég leyfi mér að fullyrða að leiðsögumenn geta gegnt lykilhlutverki í að gera ferðaþjónustu sjálfbærari, með því að miðla og tengja viðskiptavini við náttúrulegt og menningarlegt umhverfi og miðla, fylgjast með og móta viðeigandi hegðun gesta í þessu umhverfi.

Í krafti reynslu sinnar og þekkingar verða leiðsögumenn að fá sæti við borðið þar sem stefna Íslands í þessum málflokki er mótuð. Ísland getur ekki haldið áfram á sömu braut þar sem ferðamönnum fjölgar stöðugt. Neikvæðu áhrif þeirrar stefnu eru augljós: Vaxandi kolefnisspor, of mikið álag á náttúru og samfélag og neikvæð upplifun gesta sem því fylgir. Ég er viss um að leiðsögumenn almennt gera sér grein fyrir þessu og geta lagt margt af mörkun til að beina þróun ferðaþjónustunnar á braut sjálfbærni.

Náttúran er uppspretta gleði

Ég er ekki bara formaður Landverndar. Ég hef undanfarin ár einnig starfað sem leiðsögumaður. Ég hef upplifað og uppgötvað landið mitt aftur og aftur með því að fylgjast með hvernig augu og hjörtu gesta sem ég hef fylgt, hafa fyllst af gleði og undrun yfir fegurð gróðurs, hljómþyti frussandi fossa og margbreytileika landslagsins. Ég hef sem leiðsögumaður farið með ferðamenn inn á auðnir og gróðurvinjar hálendisins og fundið hvernig kyrrðin, víðsýnin, og birtan sem skín frá jöklunum fyllir hugi og hjörtu; skapar nýja tengingu við móður jörð.

Það fer enginn gestur ósnortinn heim aftur frá Íslandi. Geta gestir okkar, með hjálp leiðsögumanna, svo ég noti orð Páls Skúlasonar, losnað úr lausu lofti í tilverunni og nálgast jörðina, bæði dásemdir hennar og ógn?

Mikilvægasta hlutverkið

Höfum við leiðsögumenn, ég og þið, áttað okkur á þessu mikilvæga hlutverki, að tengja gestina við náttúruna? Sinnum við þessu hlutverki nógu vel? Höfum við þekkingu og getu til að sinna því? Þetta er áleitin spurning. Hvernig geta leiðsögumenn verið tryggir talsmenn sjálfbærni með því að stuðla að nánara og betra sambandi á milli gesta og náttúru Íslands? Hvernig getum við leiðsögumenn verið umboðsmenn náttúruverndar og stuðlað að aukinni sjálfbærni í ferðaþjónustu?

Ég læt þessum spurningum ósvarað. Ég veit að hver og einn í þessum sal hefur sín svör og leiðir.

Ég óska afmælisbarninu til hamingju með daginn og allra heilla. Fyrir hönd stjórnar Landverndar þakka ég þann stuðning sem félagið hefur veitt Landvernd sem aðildarfélag undanfarna áratugi.

Greinin byggir á ávarpi í tilefni af 50 ára afmæli Leiðsagnar, félags leiðsögumanna og birtist í Leiðsögn, tímariti félags leiðsögumanna.

Goðafoss í Skjálfandafljóti.

Orkuskiptahermir

Skoðaðu orkuskiptahermi Landverndar. Orkuskiptin geta farið fram án þess að eyðileggja einstaka íslenska náttúru.
Opna...

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd