Guðrún Schmidt skrifar.
Þegar ég ólst upp í Þýskalandi á áttunda- og níunda áratug síðustu aldar þá upplifði ég ýmis umhverfisvandamál beint eins og ofauðgun í vötnum, götótt ósonlag, trjádauða, mikla loftmengun, vatnsmengun, það var t.d. um tíma ekki hægt að drekka kranavatn. Þetta voru samt, eins og haldið var fram þá, afmörkuð vandamál sem hægt var að leysa.
Unga fólkið í dag elst upp við risavaxið umhverfisvandamál allt um kring – loftslagsvána. Hún er ógnvekjandi, flókin og yfirþyrmandi og ekki skrítið að stundum kemur upp framtíðar- eða loftslagskvíði. En hræðslan má hvorki lama okkur né láta okkur fara í afneitun og stinga höfðinu í sandinn. Heldur þurfum við að trúa því einlæglega að við getum og ætlum að breyta heiminum til batnaðar og við öll verðum að leggja okkur fram við það með aðgerðum, bæði sem einstaklingar og sem samfélag.
Falleg framtíðarsýn
Það sem gefur mér orku, von og baráttuvilja er að búa til fallega framtíðarsýn. Með því að horfa á heiminn eins og við viljum hafa hann og bakrýna síðan hvað þarf að gera til þess að stuðla að þessari sýn getum við komið augu á þau skref sem við þurfum að taka til að koma okkur út úr loftslagsvánni og í átt að sjálfbærri þróun. Hver eru aðalmarkmiðin sem samfélagið á að stefna að? Hvaða gildi eiga að vera ríkjandi í samfélaginu? Hvaða kerfisbreytingar þurfum við að gera til þess að stuðla að þessum markmiðum, gildum og framtíðarsýninni?
Lokið aðeins augunum í stutta stund og hugsið um þau gildi sem ykkur finnst að eiga að prýða gott samfélag. – Og ég hvet ykkur til þess að halda í þessar hugmyndir um góð gildi og líka að þið búið til ykkar drauma-framtíðarsýn. Hvernig viljið þið að heimurinn líti út eftir t.d. 20 eða 30 ár?
Þegar við horfum á mannkynssöguna þá eru til ótal mörg dæmi um að almenningi hafi tekist að umbreyta gömlum mynstrum, gildum og markmiðum. Það gefur von og getur stappað í okkur stálinu. Við þurfum ekki að horfa langt til baka til þess að sjá góð dæmi. Baráttan um jafnrétti kynjanna, gegn aðskilnaðarstefnu kynþátta, fyrir jafnrétti hinsegin fólks, Me too – hreyfingin eða fall Berlínarmúrsins og mörg önnur dæmi. Þetta eru allt dæmi þar sem venjulegt fólk eins og þú og ég tók sig saman og hefur barist fyrir þessum breytingum.
Þarna urðu til félagslegir vendipunktar. Rannsóknir hafa leitt í ljós að það þarf jafnvel bara um 25% af sannfærðum minnihluta til þess að hafa þannig áhrif á meirihlutann að endurmóta samfélagið varanlega. Fólk er félagsverur og ef ákveðinn fjöldi er sannfærður um breytingar og sýnir þær í verki mun það hafa áhrif á samfélagið.
Afskiptaleysi er stærsta hættan
Hin fræga vísindakona Jane Goodall hefur sagt að „ein stærsta hætta fyrir okkar framtíð er afskiptaleysi.“ Við megum ekki halda að öðrum takist að bjarga okkur úr loftslagsvánni. Það er svo mikilvægt að við öll tökum þátt í nauðsynlegum umbreytingum. Við þurfum breytingar á ólíkum sviðum samfélags og hvert og eitt okkar getur fundið sitt áhrifasvið eftir hæfni, áhuga, getu og aðstæðum án þess að finnast við bera of mikla ábyrgð. Ekkert okkar getur gert allt en öll getum við gert eitthvað. Saman myndum við eina heild. Þegar við stöndum saman og tökum þátt með áhuga, eldmóði, gleði og ákveðni getum við smitað fleiri um að vera með í þessari vegferð.
Mikilvægt er að allar þessar stóru breytingar sem við þurfum að fara í munu gerast á lýðræðislegum grunni. Og þar skiptum við, hvert og eitt, máli!
Valdefling okkar byggist upp af fjórum stigum.
1. Við þurfum að byggja upp meðvitund og mikilvæga grunnþekkingu um loftslagsmálin. Upplýsingaóreiðan sem er í samfélaginu má ekki ná tökum á okkur.
2. Og svo skiptir miklu máli að við náum að skilja hvernig allt tengist saman, loftslagsmálin, náttúruvernd, líffræðileg fjölbreytni, ójöfnuður, óréttlæti, hagkerfið, gildi og markmið. Og skilja rót vandans.
3. Á þriðja stigi erum við að byggja upp tilfinningaleg tengsl og samkennd við málefnin. Skoða verður hvort það sem gerist í heiminum samræmist gildum okkar og hvernig við getum eflt gildi í samfélaginu sem stuðla að sjálfbærri þróun.
4. Og í lokin erum við að valdeflast. Við finnum þörfina fyrir breytingar og viljum taka virkan þátt í þeim. Við finnum líka að við getum haft áhrif.
Það er gefandi og nærir eigin hamingju að taka virkan þátt í góðum breytingum. Höfum trú á því að betri, sanngjarnari heimur með góðum lífsgæðum fyrir okkur öll og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda sé mögulegur og að saman getum við haft áhrif. Fetum í fótspor forfeðra og -mæðra okkar sem hafa áður stuðlað að góðum umbreytingum og höfum ávallt að leiðarljósi að áhugasamur minnihlutahópur getur komið stórum breytingum af stað. Áfram VIÐ!
Höfundur er fræðslustjóri og sérfræðingur í menntateymi hjá Landvernd og íbúi á Egilsstöðum
Þessi loftslagshugvekja var flutt í Sláturhúsinu á Egilsstöðum þann 30.1.2025 á viðburðinum: Á brún horfinnar fortíðar – Ungt fólk og stafrænar loftslagsaðgerðir.