Landvernd og Hornafjörður hafa unnið að loftslagsmálum saman, landvernd.is

Loftslagssamningur Landverndar og Hornafjarðar

Share on facebook
Share on twitter
Share on email
Landvernd og Sveitarfélagið Hornafjörður skrifa undir yfirlýsingu um samdrátt í útlosun gróðurhúsalofttegunda hjá sveitarfélaginu. Landvernd vonast til að fá fleiri sveitarfélög í verkefnið í framhaldinu. Fljótsdalshérað hefur þegar hafið þátttöku.

Sveitarfélagið Hornafjörður hefur fyrst sveitarfélaga á Íslandi hafið þátttöku í loftslagsverkefni Landverndar „Tækifærin liggja í loftinu“. Björn Ingi Jónsson bæjarstjóri og Guðmundur Ingi Guðbrandsson framkvæmdastjóri Landverndar skrifuðu í síðustu viku undir yfirlýsingu um samdrátt sveitarfélagsins í útlosun mengunarefna sem valda loftslagsbreytingum í þremur geirum: Samgöngum, úrgangi og orkunotkun. „Með yfirlýsingunni ábyrgjumst við að vinna ötullega að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi okkar og hvetja jafnframt fyrirtæki og íbúa til hins sama“ segir Björn Ingi. Fyrir sveitarfélagið Hornafjörð eru loftslagsbreytingar mjög áþreifanlegar; jöklar hopa, landris veldur vandamálum við innsiglinguna á Höfn, og súrnun sjávar er líkleg til að hafa neikvæð áhrif á lífríki sjávar í framtíðinni, en sjávarútvegur er stór atvinnuvegur á svæðinu.

Á síðustu tveimur og hálfu ári hafa sveitarfélagið og Landvernd unnið í sameiningu að því að mæla útlosun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sveitarfélagsins sem einingar og setja sveitarfélaginu markmið og vinna aðgerðaáætlun um samdrátt í útlosun. „Verkefnið á sér fyrirmynd hjá dönsku náttúruverndarsamtökunum, en um 75% sveitarfélaga í Danmörku taka þátt í verkefni þeirra. Við stefnum því auðvitað á að fá fleiri sveitarfélög inn í verkefnið og hefur Fljótsdalshérað þegar hafið undirbúningsvinnu“ segir Rannveig Magnúsdóttir verkefnisstjóri hjá Landvernd.

Með verkefninu vill Landvernd aðstoða sveitarfélög við að draga úr loftslagstengdri mengun og verða leiðandi þátttakendur í heimahéraði í að takast á við loftslagsbreytingar, sem eru ein stærsta áskorun nútímans. „Sýn okkar er sú að Ísland verði kolefnishlutlaust eftir 15-20 ár og við teljum að sveitarfélögin gegni þar lykilhlutverki með því að ná til nærsamfélagsins. Með því að draga úr losun eins og hægt er og nota svo endurheimt votlendis, jarðvegs- og gróðurs með landgræðslu og skógrækt, til að dekka það sem upp á vantar, vonum við að þetta geti orðið að veruleika á Íslandi“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar.

Á næstu tveimur árum stefnir Sveitarfélagið Hornafjörður að a.m.k. 3% samdrætti á ári í útlosun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum, orkunotkun og úrgangi. Stefnt er að frekari samdrætti eftir endurskoðun aðgerðaáætlunar árið 2018.

Share on facebook
Share on twitter
Share on email
Scroll to Top