Námskeið um endurheimt vistkerfa – Vistheimt

Námskeið um endurheimt vistkerfa - Vistheimt með skólum.

Sagnagarður, fræðslusetur Landgræðslunnar iðaði af lífi miðvikudaginn 21. ágúst síðastliðinn þegar um 25 grunnskólakennarar frá Þjórsárskóla, Hvolsskóla og Grunnskólanum Hellu sátu námskeið um vistheimt. Námskeiðið var haldið af Landvernd og Landgræðslunni og er fyrsti hluti skólaverkefnis um endurheimt vistkerfa/vistheimt sem Landvernd er að vinna að í samstarfi við Landgræðsluna og skólana þrjá.

 Verkefninu, sem stýrt er af Rannveigu Magnúsdóttur hjá Landvernd, er ætlað að stuðla að aukinni þekkingu á meðal grunnskólabarna á mikilvægi vistheimtar raskaðra vistkerfa, ekki bara til endurheimtar gróðurs- og jarðvegsgæða heldur einnig til viðhalds loft- og vatnsgæða sem og lífbreytileika svo eitthvað sé nefnt.

 Efni námskeiðsins var mjög fjölbreytt, Jóhann Þórsson frá Landgræðslunni hélt fyrirlestur um gróður- og jarðvegseyðingu, Snorri Baldursson frá Vatnajökulsþjóðgarði ræddi lífbreytileika, Guðmundir Ingi Guðbrandsson frá Landvernd tók fyrir loftslagsbreytingar og Kristín Svavarsdóttir og Þórunn Pétursdóttir frá Landgræðslunni ræddu um vistheimt raskaðra vistkerfa og samfélagsleg áhrif. Að auki var fjölbreytileiki víðitegunda í klónasafni Gunnarsholts skoðaður og kennarar unnu hópverkefni í Sagnagarði. 

Almenn ánægja var með námskeiðið á meðal þátttakenda og námskeiðshaldara og vilji til að halda áfram og bjóða upp á frekari námskeið í náinni framtíð.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd