Nýr formaður og stjórn Landverndar

Rósbjörg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri, var kjörin formaður Landverndar á aðalfundi 2018.

Á aðalfundi Landverndar sem haldinn var í Rúgbrauðsgerðinni í kvöld var kosinn nýr formaður samtakanna ásamt fimm stjórnarmeðlimum. Vegna sérstakra aðstæðna var formaðurinn kosinn til eins árs.

Rósbjörg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri, var kosin formaður og þrír stjórnarmeðlimir hlutu endurkjör til setu í stjórn, en það voru þau Lovísa Ásbjörnsdóttir, jarðfræðingur, Pétur Halldórsson, líffræðingur og Margrét Auðunsdóttir, framhaldsskólakennari. Páll Ásgeir Ásgeirsson, leiðsögumaður og Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, orku-og umhverfisverkfræðingur, hlutu einnig kjör í stjórn. Stjórnin situr til tveggja ára og mun stýra starfi Landverndar inn í hálfrar aldar afmælisár á næsta ári.

Hugmyndabanki vegna 50 ára afmælis samtakanna var opnaður og getur almenningur sent inn tillögur að viðburðum, fræðsluerindum, uppákomum og slagorðum fyrir afmælisárið á netfangið hugmyndabanki@landvernd.is

Auður Magnúsdóttir tekur við störfum sem framkvæmdastjóri samtakanna frá 1.maí og lætur Salome Hallfreðsdóttir þá af störfum, en hún hefur sinnt starfi framkvæmdastjóra frá því að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri tók við embætti umhverfisráðherra í lok síðasta árs.

Fimm ályktanir sem lagðar voru fram af stjórn fyrir aðalfund voru samþykktar á fundinum með breytingum frá fundarmönnum. Þrjár ályktanir voru lagðar fram á fundinum sjálfum og var þeim öllum vísað frá.

Ársskýrsla 2017-2018 er nú aðgengileg hér. 

Ályktanir aðalfundar eru aðgengilegar hér

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd