Hér stendur 6400 kW en ætti skv. gögnum sem Skipulagsstofnun og síðar umhverfisráðherra fjölluðu um að standa 4900 kW.
Nýtt Múlavirkjunarmál í uppsiglingu?
Svo virðist sem við virkjun Fjarðarár á Seyðisfirði stefni í lögleysu sambærilega við þá sem einkenndi framvæmdina við Múlavirkjun á Snæfellsnesi. Að því er fram kemur í minnisblaði frá Skipulagsstofnun er framkvæmdin ekki í samræmi við þau gögn sem lágu til grundvallar þegar stofnunin tók ákvörðun um að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þá hefur iðnaðarráðuneytið veitt leyfi fyrir aflmeiri virkjun en þeirri sem Skipulagsstofnun og umhverfisráðuneytið höfðu fjallað um.
Helstu málsgögn
Hér má nálgast virkjunarleyfið sem fyrrverandi iðnaðarráðherra gaf út.
Hér má nálgast úrskurð umhverfisráðherra.
Hér má nálgast ákvörðun Skipulagsstofnunar.
Aukið afl án aukinna umhverfisáhrifa?
Svo virðist sem iðnaðarráðueytið hafi gefið út virkjunarleyfi sem er ekki í samræmi við þau gögn sem lágu til grundvallar ákvörðun Skipulagsstofnunar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar var í kjölfar kæru Landverndar o.fl. aðila staðfest með úrskurði umhverfisráðherra. Fjarðarárvirkjun samanstendur af Gúlsvirkjun og Bjólfsvirkjun sem saman áttu að gefa 7,4 MW afl. Fram hefur komið að uppsett afl virkjunarinnar verður í heildina 9,8 MW og er það afl í samræmi við útgefið virkjunarleyfi iðnaðarráðuneytisins.
Veitt leyfi fyrir Gúlsvirkjun nær til allt að 3,4 MW virkjun en var í ferli umhverfisyfirvalda lýst sem 2,5 MW. Veitt leyfi fyrir Bjólfsvirkjun 6,4 MW virkjun en var í ferli umhverfisyfirvalda lýst sem 4,9 MW.
Ætla verður að til standi að framleiða meira rafmagn á daginn, þegar verð er hátt, og minna á nóttinni, þegar verð er lægra, þannig að framleiddar MWst á ári verði þær sömu og ef um 7,4 MW virkjun hefði verið að ræða. Slíkur rekstur mun líklega leiða af sér tíðari vatsborðssveiflur en ekki endilega meiri vatsborðssveiflur. Hvort umhverfisáhrif vegna þessa verði meiri eða minni er ekki auðsvarað. En hitt blasir við að iðnaðarráðuneytið hefur ekki heimildir, frekar en aðrir leyfisveitendur, til þess að veita leyfi fyrir annari framkvæmd en þeirri sem umhverfisyfirvöld höfðu fjallað um í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum.
Mynd, Morgunblaðið Pétur Kristjánsson.
Misræmi á milli áforma og framkvæmdar
Í minnisblaði frá Skipulagsstofnun kemur fram að framkvæmdin við Fjarðarárvirkjun sé ekki í samræmi við þau gögn sem lágu til grundvallar þegar tekin var ákvörðun um að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í minnisblaðinu segir m.a:
„ Samkvæmt framlögðum gögnum vegna tilkynningar um matsskyldu var gert ráð fyrir því að athafnasvæði við lagningu þrýstipípu yrði að jafnaði 9-11 metrar og mest 10-15 m. Ljóst er hins vegar að athafnasvæðið er mun breiðara og allt að 40-50m.“
Hvort sé um stórmál eða smámál að ræða skal ósagt látið en ljóst er og óumdeilanlegt að ekki er samræmi á milli áforma og framkvæmdarinnar. Annað mál og alvarlegra að í minnisblaðinu eru gerðar athugasemdir við eftirlit með framkvæmdunum og ýjað að því að e.t.v. sé öryggismálum ábótavant, þannig segir í minnisblaðinu:
„Frágangur pípunnar þar sem hún er komin á efri hluta svæðisins virðist ekki vera samkvæmt leiðbeiningum sem heimamenn vísuðu til, eða sambærilegar við það sem skoðað var þar sem lagning pípunnar stóð yfir á neðri hluta svæðisins. Á efri hluta svæðisins virtist efni úr skurðinum hafa verið mokað beint yfir lögnina og að þar liggi að henni stórgrýti sem að sögn heimamanna hefur þegar valdið skemmdum á pípunni. Eftirlit með þessum hluta framkvæmdarinnar hlýtur að hafa verið mjög ábótavant og sýnist mér sem að endurvinna þurfi allt það verk, það er grafa upp pípuna og setja niður nýja.”
Fjardará, mynd tekin að láni úr myndabanka mbl.is
Veldur stíflan hættu fyrir íbúa á Seyðisfirði?
Hjörleifur Guttormsson, bendir í Morgunblaðinu þann 4. ágúst á að hérlendis séu til dæmi um að stíflur smærri virkjana hafi brostið. Hann bendir einnig á að á Seyðisfirði sé fjöldi manns í hættu ef illa færi. Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins þann 8. ágúst segir Ólafur Hr. Siguðrsson bæjarstjóri á Seyðisfirði:
„Þetta er náttúrulega alveg fáránleg fullyrðing, hér er ekki einusinni byrjað að gera neina stíflu […] Það verður alveg pottþétt mál að Seyðfirðingum mun ekki stafa nein hætta af stíflurofi frekar en öðrum sem búa nærri stíflumannvirkjum á Íslandi.“
Þessi orð bæjarstjórans vekja nokkra furðu og eru með vísan í fyrri stíflurof eru þau varla til þess fallin að auka traust íbúa á mannvirkjunum. Með lauslegri leit á nokkrum fréttamiðlum kemur í ljós að á þremur árum hafa orðið fjögur stíflurof við þrjár smávirkjanir. Öllu heilli hefur þó enn sem komið er ekki hlotist manntjón af slíku. En sagan sýnir að tilefni er til þess að herða eftirlit með framkvæmdum af þessu tagi og draga verður í efa að smærri sveitarfélög hafi burði til þess að sinna slíku eftirliti með fullnægjandi hætti þó þeim beri skylda til þess. Í þessu samhengi er rétt að minna á hvernig bygginganefnd Eyja- og Miklaholtshrepps hefur algjörlega brugðist skyldum sínum í þeim efnum við byggingu Múlavirkjunar.
Stíflur sem hafa brostið á þrem síðustu árum
Eyjafjarðarsveit: Stífla í Djúpadalsvirkjun brast, ruv.is 20. desember 2006.
Vatn hefur runnið úr uppistöðulóni Djúpadalsárvirkjunar, mbl.is 6. júní 2006.
Stífla brast í Sandá við Eyvindartungu, mbl.is 7. júní 2005.
Mikið tjón varð í virkjuninni í Burstabrekkuá, gagnasafn Morgunblaðsins, 26. september, 2004.
Hér stendur 3400 kW en ætti skv. gögnum sem Skipulagsstofnun og síðar umhverfisráðherra fjölluðu um að standa 2500 kW.