Sultan Ahmed Al Jaber er undir smásjá. Hann er framkvæmdastjóri ríkisolíufyrirtækisins í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum, ráðherra iðnaðar og tækni í sama ríki og gegnir nú embætti forseta COP28 sem haldin er í Dubai þessa dagana.
Maðurinn er svo áberandi í umfjöllun um ráðstefnuna að maður fær á tilfinninguna að niðurstöður hennar velti á honum persónulega. Hann ber auðvitað ekki alla ábyrgðina en hann er bæði forseti ráðstefnunnar og ber ábyrgð á fyrirtæki sem hagnast á því að vinna olíu og þar með nokkurs konar andlit olíuiðnaðarins á ráðstefnunni. Það er eðlilegt að þjarmað sé að honum og þá sérstaklega hvað varðar orðalag í niðurstöðum ráðstefnunnar. Tekist er á um hvort fasa skuli út notkun jarðefnaeldsneytis eða bara draga úr henni.
Breskir fjölmiðlar hafa þjarmað sérstaklega mikið að forsetanum en BBC sýndu fram á að nota átti ráðstefnuna til þess að selja meiri olíu og the Guardian birtu fyrir skemmstu viðtal frá 21. nóvember þar sem Mary Robinson gengur á hann varðandi olíuiðnaðinn og hann sagði að engin vísindaleg rök lægju að baki þess að fasa þurfi algjörlega út jarðefnaeldsneyti og vildi meina að í raun sé það andstætt réttlátum umskiptum stefna að því að stöðva framleiðslu á olíu því enn séu samfélög sem þurfi á því að halda. Hann hélt sérstakan blaðamannafund í kjölfar umfjöllunarinnar og sagði orð sín tekin úr samhengi. Hann fullyrti svo að útfösun jarðefnaeldsneytis sé nauðsynleg framtíðarsýn. Hann hamraði þó áfram á því að umskiptin þurfi að vera réttlát og taka til greina alla hópa jarðarbúa. Hann nefndi engan sérstakan tímaramma á þessari framtíðarsýn.
Að varpa ábyrgðinni á eftirspurnina
Eins og svo oft áður er orðaforða aktivistanna stolið og notað gegn þeim. Að brenna olíu til þess að stuðla að réttlátum umskiptum minnir óneitanlega á þegar því er haldið fram á Íslandi að það þurfi að virkja fyrir loftslagið eða endurvinna úrgang til þess að sporna gegn ósjálfbærri auðlindanýtingu. Ábyrgð breytinganna er varpað á almenning sem á að fá samviskubit yfir því að búa til eftirspurn á meðan stjórnvöld og atvinnulíf keppast við að anna allri eftirspurn sem hugsast getur. Ef eftirspurnin á að stjórna því hvað við notum mikið af orku, hvaðan sem hún kemur þá erum við á villigötum og getum gleymt því að stöðva hækkun hitastigs við eina og hálfa gráðu eða að sporna gegn hnignun líffræðilegrar fjölbreytni.
Samdráttur í losun, samdráttur í neyslu
Lausnin felst í því að forgangsraða orkunotkun í grunninnviði. Almenningur allsstaðar á að hafa aðgang að orku á viðráðanlegu verði, húsnæði, mat, öryggi, hreint vatn og fleira. Markvisst verði svo dregið úr óþarfa og ofneyslu og ósjálfbærri auðlindanotkun samhliða endurheimt vistkerfa sem hlotið hafa skaða af. Hringrásarhagkerfið tekur við af því línulega. Þetta er það sem þjóðarleiðtogar vilja skauta framhjá en hliðarviðburðir ráðstefnunnar fjalla svo sannarlega um eins og Guðmundur Steingrímsson, fulltrúi Landverndar á ráðstefnunni segir frá í daglegum pistlum sínum. Katrín Jakobsdóttir minntist á þetta í ræðu sinni, að einnig þurfi að minnka neyslu og vonandi setur það tóninn fyrir aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem við enn bíðum eftir.
Þá er það spurning um lokaniðurstöðu ráðstefnunnar. Christina Figueres talar um í hlaðvarpi sínu að mögulega sé þessi umfjöllun breskra fjölmiðla taktísk og vonir séu við að skapi pressu á UAE að sýna gott fordæmi og setja metnaðarfull markmið til þess að gæta að ímynd sinni. Vonandi verður það niðurstaðan að Sultan Al Jaber semji, ásamt öðrum jarðefnaeldsneytis-framleiðandi þjóðum, um nálæg endalok jarðefnaeldsneytis-framleiðslu. Ég leyfi mér að vera hóflega bjartsýn.
Árangur áfram ekkert stopp
COP28 ráðstefnan er mikilvæg að því leyti að þar samþykkja þjóðir heimsins markmið um framtíðina og auðvitað þrýstum við á að þau markmið séu sem metnaðarfyllst. En við höfum líka kynnst fallegum markmiðum á blaði áður. Árangur í samningaviðræðunum er einskis virði ef ekki er hægt að standa við gefin loforð. Ekki stefnir í að við náum að standa við markmiðið um eina og hálfa gráðu eða þá 55% samdrátt fyrir 2030. Ég hef miklar áhyggjur af því hvernig við stöndum okkur á Íslandi. Við eigum að fara út í heim á loftslagsþing og beita okkur fyrir því að öll ríki heimsins standi við gefin loforð og stuðli raunverulega að réttlátum umskiptum. Það þýðir líka að við verðum að standa í lappirnar og standa við okkar eigin. Það getum við engan veginn sagt í dag. Ég endurtek þá gamla möntru frá því fyrir fimm árum síðan þegar loftslagsverkfallið hófst og ungmenni kröfðust breytinga: AÐGERÐIR STRAX!
Greinin birtist fyrst á heimildin.is 5. desember.