ÖRUGG RAFORKA Á VESTFJÖRÐUM – HVAÐ ÞARF TIL?

Ísafjörður. Tryggja þarf raforkuöryggi á Vestfjörðum, Raforkuöryggi á Vestfjörðum má bæta tífalt með því að leggja línur í jörð á bilanagjörnustu leiðunum. landvernd.is
Tryggja þarf raforkuöryggi á Vestfjörðum. Raforkuöryggi á Vestfjörðum má bæta tífalt með því að leggja línur í jörð á bilanagjörnustu leiðunum.

Nú hafa áform um Hvalárvikjun verið lögð til hliðar. Að minnsta kosti tímabundið, og ekki ólíklega fyrir fullt og allt þar sem ókostir hennar eru afar margir og sífellt koma fleiri í ljós. Margir bundu vonir við að Hvalárvirkjun yrði að veruleika og trúðu að tilkoma henna myndi bæta öryggi í raforkumálum Vestfirðinga. Leita þarf lausna á þeim vanda sem Vestfirðingar eiga við að etja vegna almenns lakara raforkuöryggis en annarsstaðar á landinu. Hvalárvirkjun var ekki svar við þeim vanda.

Sorry, we couldn't find any posts. Please try a different search.

Tífaldað raforkuöryggi með jarðstrengjum

Raforkuöryggi á Vestfjörðum má bæta tífalt með því að leggja línur í jörð á bilanagjörnustu leiðunum. Þetta kemur fram í skýrslu kanadísks ráðgjafarfyrirtækis á sviði raforkuflutninga, METSCO Energy Solutions sem gerð var fyrir tilstuðlan Landverndar og kom út í ársbyrjun 2018 . Niðurstöður úttektarinnar sýna að með því að leggja samtals fimm 66 og 132 kílóvolta línur í jörð má bæta raforkuöryggi Vestfirðinga allverulega. Í skýrslunni segir að með því megi um tífalda öryggið. Um er að ræða vesturlínu og  fleiri línur á sunnanverðum Vestfjörðum. Alls er gert ráð fyrir að setja þurfi 81 km af línum á 132 kílóvolta spennu í jörðu og um 113 km af línu á 66 kílóvolta spennu. Hafa þarf í huga að tæknilega geta verið takmarkanir því hve langir jarðstrengi mega vera. Mat METSCO á kostnað við framangreindar endurbætur nemur um 2,5 milljörðum króna sem er um helmingur þess var áætlað að leggja þyrfti til til að koma rafmagni frá Hvalárvirkjun í tengipunkt við Kollafjörð á Barðaströnd.

Tvöföldun raflína, hringtengingar, bætt orkunýtni og varaafl

Gagnlegar upplýsingar um fleiri hugsanlegar leiðir til að styrkja orkubúskap Vestfjarða er að finna í nýlegri skýrslu samstarfshóps um bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum til ráðherra. Skýrslan greinir frá því sem gert hefur verið til bóta undanfarin ár en bætir einnig við fjölmörgum tillögum um frekari bætur. M.a. að styrkja megi kerfið með staðbundum jarðstrengjum, líkt og  kemur fram í skýrslu METSCO. Þá eru tilgreindar tvöföldun raflína,  hringtengingar og ný tengivirki. Einnig er farið yfir frekari mögulegar umbætur á varaafli og möguleika á frekari vatnsaflsvirkjunum og  öðrum mögulegum orkugjöfum. Gleðilega minnir skýrslan á möguleika til að bæta orkunýtingu.

Jarðstrengur í Dýrafjarðargöngum

Ekki má gleyma að bæta má raforkuöryggi með því að nýta Dýrafjarðargöngin sem leið fyrir rafstreng. Landsnet hefur lofað að leggja þennan jarðstreng í ár. Hann mun leysa af hólmi hluta Breiðadalslínu 1 þar sem aðstæður eru erfiðar.

Bætum raforkuöryggi á Vestfjörðum – án Hvalárvirkjunar

Af framangreindu má ráða að fjölmargar lausnir eru til að bæta orkuöryggi á Vestfjörðum án Hvalárvirkjunar. Að lokum má minna á að ekki er skortur á raforku í landinu.  Ef þörf verður fyrir frekari orku vegna starfsemi á Vestfjörðum má sækja hana í sameignlegan forða raforku í landinu. Rétt er að hafa í huga að hagkvæmasti og umhverfisvænsti kosturinn í orkubúskap er enn sem fyrr, að bæta nýtingu á þeirri orku sem fyrir er.

Greinin birtist fyrst þann 26. maí 2020 í Bæjarins Bestu, BB.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd