Óskum eftir breytingum á stjórn Úrvinnslusjóðs

rusl, landvernd.is
Það skýtur skökku við að atvinnulífið eigi að hafa meirihluta í stjórn Úrvinnslusjóðs, sem er eign ríkisins, og fjármagnaður af neytendum.

Brot úr umsögn Landverndar og Neytendasamtakanna varðandi frumvarp um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald. Lestu umsögnina í heild sinni með því að smella á hnappinn neðst í greininni.

Neytendur hafa ekki fulltrúa í Úrvinnslusjóði

Samkvæmt gildandi lögum er Úrvinnslusjóður stofnun í eigu ríkisins sem sér um umsýslu úrvinnslugjalds og ráðstöfun þess. Sjóðurinn er fjármagnaður með úrvinnslugjaldi sem lagt er í ríkissjóð og er svo veitt í sjóðinn með samþykkt fjárlaga. Viðfangsefni sjóðsins er „að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og endurnýtingu úrgangs í þeim tilgangi að draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar og tryggja viðeigandi förgun spilliefna“.

Flestum er ljóst að gjaldið í sjóðinn leggst á neytendur í landinu sem leggja þannig sitt að mörkum til að koma úrgangsmálum þjóðarinnar í þokkalegt ástand og að stuðla að þróun hringrásarhagkerfisins. Þrátt fyrir þetta hafa neytendur ekki fulltrúa í stjórn Úrvinnslusjóði, sjóði sem þeir fjármagna með innkaupum sínum og neyslu.

Mikilvægt að veita atvinnulífinu aðhald

Úrvinnslusjóðursjóður leikur lykilhlutverk í því hvernig Íslendingum tekst að koma hringrásarhagkerfinu á. Hringrásarhagkerfið er lykill að sjálfbærri þróun, heilnæmu umhverfi og óspilltri náttúru. Í landinu starfa fjölmörg samtök sem hafa þetta sem markmið í starfsemi sinni. Þrátt fyrir þetta eiga þau engan fulltrúa í stjórn sjóðsins.

Vissulega leikur atvinnulífið mikilvægt hlutverk í hringrásarkerfinu en Úrvinnslusjóður er eign ríkisins, ekki atvinnulífsins, og fjármagnaður með framlögum í fjárlögum. Reynslan sýnir að veita þarf atvinnulífinu aðhald og leiðsögn ef vel á að takast til í umhverfismálum. Úrvinnslusjóður er hluti af því aðhaldi sem atvinnulífið þarf nauðsynlega á að halda. Það skýtur því skökku við að atvinnulífið skuli hafa meirihluta í stjórn sjóðsins, sjóðs sem er eign ríkisins.

Við hvetjum til breytinga

Samtökin vona að Alþingi hlutist til um að bæði samtök neytenda og umhverfis- og náttúruverndar eigi sinn hvorn fulltrúa í stjórn Úrvinnslusjóðs svo þeim sjónarmiðum sem þessi samtök standa fyrir sé haldið til haga við ákvörðunartöku í stjórn sjóðsins. Jafnframt vona samtökin að umhverfis- og auðlindaráðherra styðji þau sjónarmið og komi afstöðu sinni á framfæri við Alþingi.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd
Scroll to Top