Rammaáætlun um orkusparnað?

Virkjum hugvit og nýsköpun til að nýta betur orkuna okkar.
Skýrsla um bætta orkunýtingu sýnir að hægt er að spara 8% af orkunni í kerfinu og nýta hana í annað. Allt bendir þetta til mikilla ónýttra tækifæra í atvinnulífinu og hagkerfinu í heild.

Landsvirkjun hélt í vikunni tímamóta orkufund sem slær alveg nýjan tón. Skýrsla um bætta orkunýtingu sýnir að hægt er að spara 8% af orkunni í kerfinu og nýta hana í annað. Landvernd hvetur allt áhugasamt fólk um orkumál á Íslandi til að lesa skýrsluna, sem danska ráðgjafarstofan Implement vann fyrir Landsvirkjun, umhverfis- og loftslagsráðuneytið og Orkustofnun.

Umræðan um orkusparnað hefur ekki verið hávær hér á landi, þar sem áherslan hefur nær eingöngu verið á orkuöflun og nýjar virkjanir. Landvernd hefur lengi bent á tækifærin sem felast í að virkja orkusóun og kynnt möguleika að bættri orkunýtni. Ábendingar Landverndar eru nú sannarlega staðfestar. Þetta er mikið fagnaðarefni fyrir okkur öll og hafi Landsvirkjun, Orkustofnun og ráðuneytið þakkir fyrir. Átta prósent er sannarlega góð byrjun og öruggt að þegar betur er gáð mun finnast enn meiri orka sem hægt er að útvega án þess að rústa okkar verðmætustu eign sem er náttúran sjálf.

Virkjum nýsköpun og hugvit í þágu náttúrunnar

Landvernd og allir náttúruunnendur sem óttast að sjá á eftir enn meira af dýrmætri náttúru út í vindinn eða ofan í lón, fagna nú og Landvernd býðst til að halda áfram að koma að málum í næsta áfanga orkusparnaðaráætlunar. Hvernig væri rammaáætlun um orkusparnað?  Þar verði virkjaðir kraftar nýsköpunar og hugvits og leitað enn fleiri leiða til að nýta betur þá orku sem við framleiðum nú þegar. Sú áætlun taki einnig til þess að bæta við fíngerðum orkukostum, sem ekki raska umhverfi og lífríki, heldur vinna í sátt við náttúru og samfélag. Þetta geta verið sólarsellur á húsþökum, varmadælur, lághitavirkjanir, litlir hverflar í bæjarlækjum, vindrellur á skipum, bílþökum og í húsagörðum. Og áfram mætti lengi telja.

Umræða um orkumál í nýjum farvegi

Skýrslan beinir umræðu um orkumál í nýjan og betri farveg. En til að tryggja betur að orkunýting þróist áfram þarf áfram að afla gagna frá öllum greinum hagkerfisins og sú vinna þarf að vera viðvarandi. Þetta hefur hingað til ekki verið gert. Til fyrirmyndar er að utanaðkomandi, hlutlaus aðili hafi nú leitt vinnuna. En athygli vekur að fulltrúi dönsku ráðgjafarstofunnar segir að gögn hafi skort fyrir vinnuna. Það hafi komið sér á óvart hvað lítið væri til að byggja á og hversu óaðgengilegt allt efni um orkusparnað væri.

Allt bendir þetta til mikilla ónýttra tækifæra í atvinnulífinu og hagkerfinu í heild. Og að í annarri og þriðju umferð rammaáætlunar um orkusparnað muni enn fleiri mikilvægar leiðir til að spara orku koma í ljós.

Þarna liggja tækifærin, frekar en í nýjum virkjunum og þarna fara náttúruvernd og orkunýting saman.

Það er frábær stefnubreyting fyrir íslenska náttúru og fyrir okkur öll.

Greinin birtist fyrst á heimildin.is 23.nóvember 2023.  

Goðafoss í Skjálfandafljóti.

Orkuskiptahermir

Skoðaðu orkuskiptahermi Landverndar. Orkuskiptin geta farið fram án þess að eyðileggja einstaka íslenska náttúru.
Opna...

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd