Stjórnvöld heimili ekki boranir í Kerlingarfjöllum

Kerlingarfjöll eru friðlýst fjallaröð á miðhálendi Íslands, landvernd.is
Stjórn Landverndar vill að stjórnvöld hafni umsókn um heimild til að bora tilraunarholu vegna hugsanlegrar jarðvarmavirkjunar í Kerlingarfjöllum.

Yfirlýsing stjórnar Landverndar:

Stjórn Landverndar telur að hafna beri umsókn um tilraunaborholur vegna hugsanlegrar jarðvarmavirkjunar í Kerlingarfjöllum þar sem hætt er á að þeim fylgi óafturkræf náttúruspjöll.

Svæðið er vinsælt útivistarsvæði og býr yfir miklum náttúrutöfrum og kann að hafa afar hátt náttúruverndargildi. Tilraunaborholur fyrir jarðvarmavirkjun með tilfallandi vegagerð, affallsvatni og borteigum munu mjög líklega hafa óafturkræf áhrif á svæðið. Í skýrslu um 1. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er ekki lagt mat á Kerlingarfjöll sem virkjunarstað.

Náttúra Íslands, ekki síst á hálendinu, er ein verðmætasta auðlind þjóðarinnar og þessi verðmæti munu án efa margfaldast að verðgildi eftir því sem tímar líða fram. Áður en ákvarðanir um frekari orkuöflun og tilraunaboranir á nýjum svæðum eru teknar er því mikilvægt að átta sig vel á verndargildi þeirra og bera saman ólíka kosti. Forsenda upplýstra ákvarðana um frekari orkuöflun til orkufreks iðnaðar er að lokið verði við gerð 2. áfanga rammaáætlunar þar sem tilgreindir eru þeir virkjunarkostir sem til greina koma til að mæta eftirspurn eftir orku til stóriðju í framtíðinni. Jafnframt verður að taka frá svæði sem hafa hátt verndargildi.

Að mati stjórnar Landverndar er skynsamlegt að bíða með ákvarðanir um rannsóknaboranir á háhitasvæðum þar sem ekki hefur verið borað áður þar til vinnu við 2. áfanga rammaáætlunar er lokið og fram eru komnar upplýsingar um hvaða landssvæði séu sérlega verðmæt vegna náttúrufars og landslags. Engir brýnir hagsmunir kalla á skjótar ákvarðanir vegna rannsóknaborana eða virkjunar háhita á hálendinu.

Stjórn Landverndar hvetur stjórnvöld til að seta meiri kraft í vinnu við 2. áfanga rammaáætlunar og bíða með að veita leyfi fyrir frekari rannsókaborunum og virkjunarheimildir þar til niðurstaða fæst úr þeirri vinnu.

Samþykkt á stjórnarfundi 16. febrúar 2006.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd