Stöðva verður hernaðinn gegn íslensku lindánum

Stöðva verður hernaðinn gegn íslensku lindánum, Tungnafljót í Biskupstungum. Mynd: Magnús Jóhannsson, landvernd.is
Landvernd skorar á umhverfis- og auðlindaráðherra að virkja þetta ákvæði og friðlýsa hið allra fyrsta stærstu lindavatnssvæði landsins gagnvart orkuvinnslu. Jafnframt skorar Landvernd á orkufyrirtæki og sveitarstjórnir að láta af hernaði gegn þessum djásnum landsins.

Lindavötn á Íslandi og hraunumhverfi þeirra eiga vart sinn líka í Evrópu hvað varðar umfang og eðlis- og efnaeiginleika, sem grundvallast á berggerðinni, hinu unga, hripleka basalthrauni.

Verndum lindárnar, Svartá í Bárðardal, mynd: Jón Aðalsteinn Þorgeirsson

Um mikilvægi lindáa

Lindasvæði og lindár eru óvíða ef nokkurs staðar í heiminum jafn stór og mikilvægur þáttur í vatnafari og lífríki og hér á landi. Stærstu lindasvæðin er að finna á gosbeltinu þar sem regnvatnið sígur hratt niður í hriplek nútímahraun og vikursanda og rennur neðanjarðar langar leiðir þar til það sprettur fram í uppsprettum og lindum. Öfugt við dragár og jökulár er vatnsmagn og hitastig lindáa tiltölulega jafnt árið um kring. Vatn þeirra er tært, bakkarnir grónir niður að vatnsborði og blómskrýddir hólmar setja oft svip sinn á þær. Lindár eru líka auðugar af steinefnum sem vatnið leysir úr læðingi á leið sinni um gljúp hraunin. Af þessum sökum eru lindár afar frjósöm vistkerfi, auðug af smádýralífi, fiskum og vatnafuglum.

Tvær af heimsins stærstu lindám í uppnámi vegna „smávirkjana”

Áform eru uppi um vatnsaflsvirkjanir í tveimur af stærstu lindám Íslands og heimsins. SSB Orka hyggst virkja Svartá í Bárðardal og HS Orka hyggst virkja Tungufljót í Árnessýslu. Samkvæmt Hvítbók um náttúruvernd (2011) er Haukadalur í fimmta sæti yfir vatnsmestu lindasvæði Íslands og Svartá í því sjöunda. Báðar eru

því meðal 10–15 stærstu lindavatnskerfa í heimi, á pari við Silver Springs í Bandaríkjunum og stærri en nokkurt lindasvæði í Evrópu. Í báðum tilvikum er um „smávirkjun” að ræða skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, þ.e. virkjun innan við 10 MW.

Svartá í Bárðardal sameinar rennsli samnefndrar ár úr Svartárvatni og Suðurár með upptök í Suðurárbotnum. Næringarauðugt vatn árinnar er upphaflega úrkoma sem fallið hefur á Ódáðahraun. Svartá fellur í Skjálfandafljót sem fékk þriðja hæsta verðmætamat allra vatnasviða sem komu til mats í 3. áfanga rammaáætlunar. Áin, sem kemur næst Laxá í Aðaldal og Soginu að frjósemi, hefur alþjóðlegt gildi sem fuglasvæði vegna hús- og straumandar og geymir merkilegan urriðastofn. Svæðið er paradís veiðimanna og annars útivistarfólks. Mótvægisaðgerðir sem virkjunaraðilar settu fram í frummatsskýrslu eru langt í frá að vera sannfærandi. Þær munu að öllum líkindum ekki geta bjargað ánni frá því að þorna upp tímabundið á um þriggja km kafla neðan stíflu með „algjörri eyðileggingu vistkerfis árinnar á þeim kafla og alvarlegum áhrifum neðan útfalls virkjunarinnar” eins og segir í athugasemdum Verndarfélags Svartár við frummatsskýrslu um framkvæmdina.

Í umsögn Náttúruverndarnefndar Þingeyinga segir „Það yrði Íslendingum, ekki síst Þingeyingum sem á sínum tíma vörðu Mývatn og Laxá, mikill álitshnekkir að heimila slíka framkvæmd í ljósi sérstöðu svæðisins og ótvíræðs verndargildis. Í stað virkjunar leggur nefndin til að hafinn verði undirbúningur að friðlýsingu vatnasviðs Svartár og Suðurár”. Landvernd tekur heils hugar undir þetta enda sendu samtökin inn harðorða umsögn um framkvæmdina í október 2017. Beðið er álits Skipulagsstofnunar.

Tungufljót í Árnessýslu á upptök sín í miklu lindasvæði í Haukadal. Rétt við virkjunarsvæðið er aðalvatnstökusvæði Bláskógabyggðar og því miklir almannahagsmunir í húfi fari eitthvað úrskeiðis. Framkvæmdasvæðið er ósnortið, á náttúruminjaskrá og þar er að finna náttúrulegan birkiskóg og votlendi, sem njóta sérstakrar verndar skv. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Fyrirhugað er að byggja um 600 m langa og allt að 12 m háa stíflu og gera tæpra níu hektara uppistöðulón í landi Haukadals, auk nýs vegar, veituskurða og raflína á um 20 km leið. Skipulagsstofnun telur áhrif framkvæmdarinnar á ásýnd, landslag og gróður talsvert neikvæð. Þrátt fyrir það endurútgaf Bláskógabyggð framkvæmdaleyfi fyrir virkjuninni í febrúar 2018. Landvernd og Náttúruverndarsamtök Suðurlands kærðu leyfið í annað sinn í apríl 2018 á þeim forsendum að stjórnsýsluákvörðun Bláskógabyggðar standist hvorki form- né efniskröfur. Samtökin telja til að mynda að framkvæmdin uppfylli ekki skilyrði um brýna almannahagsmuni, eins og krafist er í náttúruverndarlögum, og að Bláskógabyggð hafi brotið rannsóknarreglu stjórnsýslulaga varðandi það að upplýsa um möguleg áhrif framkvæmdarinnar á mikilvæga almannahagsmuni, helsta neysluvatnsbrunn sveitarinnar. Þá brýtur framkvæmdaleyfið klárlega í bága við gjafabréf Kristian Kirk sem gaf ríkinu jörðina Haukadal til friðunar og skógræktar, ekki til virkjunarframkvæmda.

Friðlýsum lindárnar

Af framansögðu má vera ljóst að virkjunaraðilar, og því miður stundum með aðstoð sveitarstjórna, skeyta hvorki um skömm eða heiður í viðleitni sinni við að græða á alþjóðlega mikilvægum lindám Íslands.

Í ofannefndri Hvítbók um náttúruvernd er lögð áhersla á að vernda verðmætustu lindasvæði landsins á þann hátt að hvorki verði spillt vatnsgæðum né umhverfi lindanna. Þar er líka bent á að sjö af ellefu stærstu lindasvæðum landsins njóta engrar sérstakrar verndar. Brýning Hvítbókarinnar hefur ratað inn í núgildandi náttúruverndarlög nr. 60/2013, 55. gr., þar sem segir að ráðherra sé heimilt „að friðlýsa heil vatnakerfi, þar á meðal lindasvæði og lítt snortin og ómiðluð vatnasvið” séu þau ekki þegar flokkuð í nýtingarflokk eða biðflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar (rammaáætlunar). Í lögunum segir enn fremur að friðlýsingin geti miðað að því að varðveita vatnslindir til framtíðar, tryggja náttúrulega ferla og vistfræðilega samfellu og standa vörð um ásýnd og vistfræðilegt þjónustuhlutverk vatnasviða.

Landvernd skorar á umhverfis- og auðlindaráðherra að virkja þetta ákvæði og friðlýsa hið allra fyrsta stærstu lindavatnssvæði landsins gagnvart orkuvinnslu. Jafnframt skorar Landvernd á orkufyrirtæki og sveitarstjórnir að láta af hernaði gegn þessum djásnum landsins.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd