Stöðvum jarðvegseyðingu, björgum framtíðinni

Stöðvum jarðvegseyðingu, björgum framtíðinni, landvernd.is
Sameinuðu þjóðirnar hafa undanfarin ár tileinkað 5. desember baráttunni gegn eyðingu jarðvegs. Í ár er það gert undir slagorðunum „stöðvum jarðvegseyðingu, björgum framtíðinni“. Það vefst varla fyrir nokkrum manni að moldin er undirstaða lífsins á jörðunni

Tryggvi Felixson, formaður Landverndar skrifar í tilefni af alþjóðlegum degi jarðvegs 5. desember

Sameinuðu þjóðirnar hafa undanfarin ár tileinkað 5. desember baráttunni gegn eyðingu jarðvegs. Í ár er það gert undir slagorðunum „stöðvum jarðvegseyðingu, björgum framtíðinni“. Það vefst varla fyrir nokkrum manni að moldin er undirstaða lífsins á jörðunni. Hins vegar virðist mikið skorta upp á skilning á mikilvægi jarðvegsverndar og sjálfbærar nýtingar jarðvegs og gróðurs. Jarðvegseyðing er böl víða um heim sem ógnar lífsafkomu manna og eyðir líffræðilegri fjölbreytni. Þessi dagur á að minna okkur á þetta og að frekari aðgerðir til að fyrirbyggja frekari jarðvegseyðingu séu nauðsynlegar.

Moldin er undirstaða lífs á jörðinni

Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, héldu upp á 50 ára afmæli sitt nýlega. Samtökin voru stofnuð af fólki og samtökum sem litu svo á að við það að  jarðvegurinn á landinu okkar væri að fjúka út í buskann, væru Íslendingar að missa fótfestuna og sjálfan grundvöll lífsins á landinu okkar. Einn stofnenda Landverndar, Ingvi Þorsteinsson náttúrufræðingur, skrifaði í grein í 50 ára afmælisriti samtakanna: „Telja má víst að sú gífurlega rýrnun landkosta sem gróður- og jarðvegseyðing hefur valdið á liðlega 1100 árum Íslandsbyggðar sé án samjafnaðar mestu hamfarir sem yfir þjóðina hafa gengið, og þær hafa í aldanna rás valdið henni meiri hörmungum, rýrnunar lífskjara og neyð en nokkur önnur áföll“. Þrátt fyrir áratuga baráttu og aðgerðir en enn langt til land að jarðvegseyðing á Íslandi heyri sögunni til.  

Gæðastýring í sauðfjárrækt

Nýleg skýrsla Ólafs Arnalds prófessors um gæðavottun og styrkveitingar til sauðfjárræktar (Rit Lbhl nr. 118)  sýnir að jarðvegsvernd hefur svo sannanlega ekki  fengið þann sess í íslenska stjórnsýslu sem henni ber. Lög kveða svo á að styrki til sauðfjárræktar eigi ekki að greiða að fullu nema landnotkun og landbótaáætlanir séu í samræmi við gildandi viðmið og reglur. Sem betur fer uppfyllir mikill meirihluti bænda þessi skilyrði og fær þá styrki sem þeim ber. En tæplega fimmtungur sauðfjárbeitar er á landi þar sem þessi skilyrði eru ekki uppfyllt, segir í niðurstöðu Ólafs framangreindir rannsókn. Engu að síður fá þeir bændur sem stunda þess háttar búskap óréttmætan fullan styrk. Þessu verður kippa í liðinni svo ósjálfbær beit verði stöðvuð. 

Losun gróðurhúsalofttegunda

Jarðvegseyðing er líka böl fyrir loftslagið. Talið er að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi á árinu 2017 hafi verið um 14 milljónir tonna CO2 ígilda. Þar af voru tæpar fimm milljónir tonna vegna beinna umsvifa landsmanna (samgöngur, iðnaður, landbúnaður, úrgangur) en rúmar níu milljónir tonna frá framræstu votlendi.  Þessu til viðbótar eru vísbendinga um að illa farinn úthagi á Íslandi geti verið að losa 2 til 20 milljónir tonna CO2 árlega. Endurheimt landgæða er því mikilvæg loftslagsaðgerð.

Birkiskógar

Endurheimt birkiskóga er sérstaklega verðugt verkefni fyrir okkur Íslendinga. Við landnám er talið að birki hafi þakið um 25 til 30 prósent landsins, en nú þekja þeir aðeins um 1,5 prósent. Verndun birkiskóga er sterkur leikur í verndun líffræðilegrar fjölbreytni hér á landi; að styrkja og varðveita til framtíðar þær tegundir sem hafa frá upphafi skapað íslenska náttúru og þrifist hér á landi í árþúsundir, og bindur þar að auki kolefni. Meðal brýnna verkefna er að varðveita betur þá birkiskóga sem telja má náttúruvætti vegna sérstöðu. Leyningshólar, við mynni Villingadals innarlega í Eyjafirði, eru dæmi um slíka náttúruperlu sem og Teigsskógur á Vestfjörðum. 

Birkiskógum má ekki spilla með því að gróðursetja í þá erlendar trjátegundir, tegundir sem með tímanum stærðar sinnar vegna geta lagt þá undir sig. Flestar erlendar trjátegundir ætti ekki að nota nema í þar til skilgreindum reitum þar sem ætlunin er að rækta nytjaskóg eða skjólskóga, sem auðlind fyrir komandi kynslóðir. Við uppgræðslu almennt ætti að nota innlendar tegundir eða tryggja framvindu náttúrlegs gróðurs með verndun. Það síðast nefnda er að gerast á Skeiðarársandi án teljandi aðkomu manna. Á nyrsta hluta hans er nú að vaxa upp birki þar sem áður var auðn. Hér námum fyrstu birkiplönturnar land fyrir um 30 árum nú er útbreiðslan orðin yfir 30 km2. Þetta sýnir að náttúrleg framvinda gróðurs getur verið öflug og mikilvægt er að nýta hana til fulls því hún styður jafnframt að markmiðum um líffræðilegan fjölbreytileika. Náttúrleg framvinda tekur tíma en er bæði hagkvæm og farsæl leið til jarðvegsverndar sem jafnframt býr í haginn fyrir líffræðilega fjölbreytni. Höfum það í huga við gerð landgræðslu- og skógræktaráætlana í framtíðinni.