Sumardagskrá í Alviðru: Lífið og fljótin tvö – gönguferð við Sogið 20. ágúst 2023

Alviðra er náttúruverndar- og fræðslusetur Landverndar.
Verið öll velkomin í gönguferð við Sogið - Lífið og fljótin tvö sunnudaginn 20. ágúst 2023. Grunnstef göngunnar verður líffræðileg fjölbreytni og verndun hennar.

Sogið er ein vatnsmesta lindá landsins. Það fellur úr Þingvallavatni og sameinast Hvítá við Öndverðarnes. Þessi tvö virðulegu vatnsföll mynda Ölfusá.

Öndverðarnesið er kjarrivaxið gamalt hraun með net merktra göngustíga. Fagur gróður og fuglalíf við vatnsmikil fljót með Ingólfsfjallið tilkomumikið í vestri handan Sogsins einkenna svæðið. Þar er sannkölluð Paradís á síðsumardegi.

Gangan hefst við Náttúruverndar- og fræðslusetur Landverndar í gamla bóndabænum að Alviðru kl. 14:00 sunnudaginn 20. ágúst.

Gengið verður í tvær til fjórar klukkustundir; lengd ræðst af veðri, getu og áhuga þátttakenda. Hækkun er lítil sem engin. 

Eftir göngu verður boðið upp á kaffi og kakó í Alviðru.

Tryggvi Felixson er leiðsögumaður.

Þema göngunnar er verndun líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi og hvernig okkur
mannfólkinu gengur að rækta skyldur okkar við verndun lífríkisins. Meira um þetta efni er að finna á https://biodice.is

Allir eru hjartanlega velkomnir. 

Gangan er þriðji viðburðurinn í sumardagskrá Alviðru 2023. Þátttaka er gjaldfrjáls og öllum opin.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd