Nú hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra látið vinna skýrslu um svokallaða gullhúðun í innleiðingum á EES tilskipunum með tilvísan í lög nr. 55/1991. Lögin kveða á um að sérstaklega skuli tekið fram ef gengið er lengra en lágmarkskröfur gera ráð fyrir. Í skýrslunni er skoðað hvenær gengið hefur verið lengra og hvenær hefði þurft að rökstyðja það betur.
Því skal fagna að aukins gagnsæis sé að vænta á Alþingi og ég vona að fleiri svona skýrslur verði unnar í öðrum ráðuneytum. Einnig hefði gjarnan mátt skoða hvort einhver innleiðing á EES regluverki sé ófullnægjandi og nái ekki markmiðum sínum – sem undirrituð hefur grun um að sé einnig algengara en margir halda. En það er ekki það sem þessi grein fjallar um.
Í kjölfar nýju skýrslunnar um gullhúðun efndu Samtök Iðnaðarins til viðburðar með yfirskriftina „Íþyngjandi regluverk á færibandi”. Ég vil staldra við orðið íþyngjandi. Hér er oft um að ræða regluverk um umhverfismál og það sem kallað er gullhúðun og íþyngjandi er oftar en ekki umhverfi og náttúru í hag. Rökstuðning má greinilega bæta í greinargerðum en við vitum öll að síðustu ár hefur ríkt eitt allsherjar jarðefnaeldsneytis- og auðlindafyllerí. Sem betur fer eru gestirnir í því partýi að tínast út einn af öðrum; bara þeir allra drykkfeldustu sitja enn sem fastast og tala um eftirpartý fullt af tækifærum fyrir Ísland í kjölfar loftslagsbreytinga. Við hin vitum að þetta eftirpartý er ekki til, við horfum í kring um okkur og það er drasl og skítur út um allt.
Það ER mjög íþyngjandi að þurfa að taka til en við getum öll verið sammála um að ekki er hægt að fresta því endalaust. Reyndar er best að taka til sem fyrst því þá getum við jafnvel farið að sofa í hreinu húsi og vaknað þeim mun hressari daginn eftir.
Það er líka mjög íþyngjandi að taka til í viðskiptalífinu, stjórnmálunum og okkar persónulegu lifnaðarháttum svo að við getum stefnt að jákvæðum framförum í sátt við umhverfi og náttúru. Þess vegna má alls ekki gleyma að íþyngjandi aðgerðunum fylgir einnig ávinningur fyrir okkur öll.