Tryggjum faglega ákvarðanatöku rammaáætlunar

Rammaáætlun er stjórntæki sem ætlað er að byggja á faglegri ákvarðanatöku. Við búum í einstöku landi og berum ábyrgð á því.

Rammaáætlun er stjórntæki sem ætlað er að byggja á faglegri ákvarðanatöku. Við búum í einstöku landi og berum ábyrgð á verðmætri náttúru á heimsvísu. Engin fagleg rök hafa að mati Landverndar komið fram á síðastliðnum 6 árum sem knýja á um að færa landsvæði úr verndarflokki í bið. 

Mikilvægi náttúruverndar hefur hins vegar aukist þar sem nýjar rannsóknir á mikilvægi og gildi óbyggðra víðerna hafa komið fram. Að auki hefur ferðaþjónustan farið vaxandi sem atvinnugrein sem hvílir á sérstöðu íslenskrar náttúru. Áform um þjóðgarð á hálendinu eru af sama meiði.

Engin hrossakaup með landsvæði

Lögin kveða skýrt á um að mat skuli byggja á faglegum gögnum og vinnu faghópa. Í tilvikum þar sem gögn eru ekki talin fullnægjandi tilgreina lögin að virkjunarkostur skuli settur í biðflokk.

Landvernd hvetur alþingismenn til þess að fara ekki í hrossakaup með landsvæði, ákvarðanir um orkunýtingu og vernd verður að taka á faglegum forsendum.

Styðjumst við nýjar rannsóknir

Nauðsynlegt er að Alþingi taki tillit til að liðin eru næstum sex ár frá því að tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða var unnin og ný sjónarmið og þekking hefur komið fram á þeim tíma sem hafa ber í huga. Í þessu sambandi er sérstaklega mikilvægt að taka tillit til vaxandi áherslu á verndun víðerna og stækkunar ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar. Einnig þarf að huga að því að fram hafa komið nýjar upplýsingar um tilgreinda kosti sem hljóta að hafa áhrif á matið. Þar má m.a. nefna tillögur Náttúrufræðistofnunar um verndarsvæði á framkvæmdaáætlun, bætta kortlagningu vistgerða og mikilvægra fuglasvæða og stækkun og skráningu Vatnajökulsþjóðgarðs sem heimsminjasvæði UNESCO

Friðlýsingar fyrir allri orkuvinnslu

Í þessari þingsályktunartillögu hafa svæði í verndarflokki sem þegar hafa verið friðlýst fyrir orkuvinnslu stærri en 10 MW fyrir vatnsafl og 50MW fyrir jarðhita verið tekin út. Það er mat Landverndar að þegar þessi svæði voru friðlýst hafi ekki verið farið eftir lögum 48/2011 því þau voru eingöngu friðlýst fyrir orkuvinnslu yfir áður greindum stærðarmörkum.

Í lögum 48/2011 segir um markmið og gildissvið ekkert um að lögin séu almennt takmörkuð við 10 MW fyrir vatnsafl og 50MW fyrir jarðhita. Gildissvið þeirra er því ekki bundið við þessi stærðarmörk. Eins segir ekkert um stærðarmörkin í 4. mgr. 6. gr. laganna.

Því hefði átt að friðlýsa þau fyrir allri orkuvinnslu, líka þeirri sem nær ekki fyrrgreindum stærðarmörkum. Svæðin höfðu farið í gegnum ítarlegt og mjög faglegt mat á verðmæti náttúru- og menningarminja og niðurstaðan var sú að þeim mætti ekki raska. Því telur stjórn Landverndar að herða þurfi friðlýsingarskilmála í þeim tilvikum þar sem þegar hefur verið friðlýst á grundvelli laga 48/2011 og hvetur til þess að næstu friðlýsingar sem byggja á lögunum nái til allrar orkuvinnslu.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd