Umsögn Landverndar til Umhverfisstofnunar, sem ásamt Garðabæ og landeigendum, kynnir áform um friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár í Garðabæ í samræmi við VII. kafla laga nr. 60/2013 um náttúruvernd send Umhverfisstofnun 14. febrúar 2020.
Landvernd fagnar áformum um friðlýsingu Búrfells, ásamt Búrfellsgjá og Selgjá sem er sérstakt náttúrufyrirbæri jarðmyndanna þar sem hraunelfan rann frá eldstöðinni og myndaði gjárnar ásamt „hrauntröðinni“ í Urriðakotshrauni. Einnig eru þar minjar um seljabúskap í Selgjá og Gjáarétt og Vatnsgjá í Búrfellsgjá. Hraunelfan og hraunin úr eldstöðinni Búrfelli nefnist einu nafni Búrfellshraun, en einstaka hraunhlutar heita ýmsum nöfnum.
Í 1. grein friðlýsingartillögunnar segir:
„Búrfellsgjá og Selgjá liggja frá Búrfelli að Urriðakotshrauni. Þær eru í raun sama hrauntröðin, en hún skiptir um nafn við Hrafnagjá. Næst gígnum er Búrfellsgjá þröng og með bröttum veggjum. Þegar kemur niður á jafnsléttu verður hún lægri og víðari. Selgjá er slétt og breið með lágum veggjum. Hún hverfur á kafla þar sem hraunrásir með hellum taka við, en kemur aftur fram á kafla norðar í Heiðmörk.“Athyglisvert er að ekki stendur til að friðlýsa „hrauntröðina“ í Urriðakotshrauni sem er lýst í 1. gr. um friðlýsinguna samkvæmt gögnum á vef Umhverfisstofnunnar um áform um friðlýsinguna. Í þá lýsingu vantar reyndar „hrauntröðina“ sem myndar samfellu í friðlýsingum Búrfellshrauns. Þetta rýrir gildi friðlýsingarinnar að mati Landverndar. Garðabær hefur sýnt gott fordæmi í friðlýsingu Búrfellshrauns innan lögsögu sinnar. Það væri því mikil ógæfa að gefa eftir þann mikilvæga hluta Búrfellshrauns sem felst í „hrauntröðinni“ í Urriðakotshrauni. Það er óskiljanlegt af hverju þessi hluti hraunelfunnar – þ.e. „hrauntröðin“ fylgi ekki þessum áformum um friðlýsingu eldstöðvarinnar og gjánna, því hún er einstök jarðmyndun á landsvísu. Landvernd styður því fyrirhugaða friðlýsingu en gerir hér með þá athugasemd að í hana vanti „hrauntröðina“ í Urriðakotshrauni sem er náttúrulegt framhald hraunelfu frá Búrfelli um gjárnar að hraundyngjunni Hádegishól sunnan Maríuhella.
Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Landverndar
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri
Tengt efni
Áform um golfvöll þrengja að fuglalífi við Bessastaðatjörn – ályktun
4. október, 2021
Umsögn: Friðlýsing Urriðakotshrauns
19. nóvember, 2020
Nýjustu umsagnir Landverndar
Umsögn Landverndar um fimm virkjanakosti rammáætlunar
29. ágúst, 2024
3. áfangi rammaáætlunar
8. janúar, 2024