Áform um golfvöll þrengja að fuglalífi við Bessastaðatjörn – ályktun

Bessastaðatjörn að vetrarlagi
Bessastaðatjorn, landvernd.is
Framkvæmdir miðað við áformað deiliskipulag munu hafa neikvæð áhrif á náttúrfar svæðisins. Áformin þrengja að fuglalífi við Bessastaðatjörn.

Ályktun vegna skipulags á Álftanesi. Sent á Gunnar Einarsson, bæjarstjóra Garðabæjar. Sjá ályktun í heild sinni neðst í greininni.

Landvernd og Fuglavernd hafa kynnt sér drög að deiliskipulagi á Norðurnesi. Uppdrátturinn sýnir að áformað er að fara með golfvöllinn alveg niður að bökkum Bessastaðatjarnar. Þá er svæðið á milli tveggja læna sem gang vestur úr Tjörninni notað sem „græna (green)“. Gangi þessi áform eftir mun þrengja mjög að fuglalífi við Bessastaðatjörn sem skýrslur um fuglalíf sýna er bæði mikið og vermætt. Svæðið eins og það er í dag hefur einnig mikið upplifunargildi fyrir bæði íbúa og gesti. Hætt er við að þetta spillist ef farið verður að framlögðum tillögum.

Ef marka má áformað deiliskipulag munu framkvæmdir gjörbreyta svæðinu og hafa neikvæð áhrif á náttúrfar þess. Garðabær hefur oft sýnt ágætis viðleitni í náttúruvernd. Þá er á Álftanesi nægt landrými til að aðlaga landnýtingu náttúrfari og fuglalífi. Ljóst er að eignarhaldið á landi gerir öll nýtingaráform flókin og tímafrek. En það má ekki hindra bæjaryfirvöld að skipuleggja í sem mestri sátt við náttúru svæðisins, sem er mögnuð.

Við hvetjum bæjaryfirvöld í Garðabæ að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að þrengja að lífríki Bessastaðatjarnar sem er einstök náttúruperla á Álftanesi og mikill skaði að spilla með þeim hætti sem framkomin deiliskipulagstillaga er vísbending um.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd